Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Þetta eina prósent sem skemmir fyrir hinum“

11.06.2019 - 22:03
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Skemmdarverk og drykkjulæti urðu til þess að loka þurfti heitum pottum í fjörunni á Hauganesi eftir klukkan tíu á kvöldin. Framkvæmdir í fjörunni hafa kostað á áttundu milljón. Hátt í 200 manns sækja pottana á dag þegar best lætur. Fjöldi ferðamanna í þorpinu hefur aukist til muna.

Sandvíkurfjara á Hauganesi er eina aðgengilega sandfjaran á Norðurlandi sem snýr í suður og á fjöru nær sandurinn allt að 30 metra út. Fyrir þremur árum hófust framkvæmdir og uppbygging í fjörunni. Byrjað var á einum heitum potti sem sprengdi fljótt utan af sér. Pottunum hefur núna fjölgað í nokkrum hollum og eru þeir orðnir 5. Þar af er einn í líki víkingaskips sem á flóði virðist vera að sigla á sjónum.

Fá fólk til að staldra lengur við

Elvar Reykjalín, eigandi heitu pottanna, segir hugmyndina hafa kviknað fyrir þremur árum og eignar hana markaðsstjóra sínum Aðalsteini Svan Hjelm. Í fjörunni sé skjólgott og á sólríkum dögum myndist því kjöraðstæður fyrir sólböð og strandleik. Hauganes sé ferðamannaþorp og séu pottarnir liður í því að fá fólk til að staldra lengur við. Þá finni þeir fyrir auknum straumi fólks í þorpið í kjölfarið og fólk sé almennt mjög ánægt með pottana. Hann segir áskóknina góða en fjöldinn sé mjög misjafn milli daga. Gestir geti verið frá 20 og hátt í 200 þegar best lætur. Í pottana komi öll flóra fólks en dæmi séu um útlendinga sem hafi heyrt af pottunum í sínu heimalandi og komið hingað og prófa þá. Á góðum dögum myndist sólarstrandarstemming þegar börn og fullorðnir bregði á leik í sandinum. 

Aðeins 40% borgi aðgangseyri

Það er enginn gæslumaður á svæðinu og treystir Elvar á að fólk gangi vel um og borgi 500 kr. í aðgangseyri. Það er hægt að gera með því að nota AUR appið, borga í posa á veitingastaðnum Baccalá Bar í nágrenninu eða skilja eftir pening í þartilgerðum póstkassa. Hann telur að aðeins 40% borgi aðgangseyri og segir að það sé ótrúlegt hversu margir kjósi að borga ekki. Oft komi stórir hópar fólks og enginn skilji eftir pening. Þá hafi fólk jafnvel þóst borga í kassann en aðeins skilið eftir tíkall. Þá hefur póstkassinn verið brotinn upp og aðgangseyrinum rænt.

Lokað yfir nóttina

Hingað til hafi pottarnir verið opnir allan sólarhringinn en nú hefur Elvar gripið til þess ráðs að loka þeim frá klukkan tíu á kvöldin til átta á morgnana. Það stafi af því að hópur ungmenna hafi komið reglulega í vetur og vor og verið með drykkjulæti, brotið allt lauslegt og skilið svæðið eftir í rúst. Umgengnin hafi verið alveg skelfileg. Það sé sorglegt að þegar 99% gangi vel um og séu til fyrirmyndar, þá þurfi þetta eina prósent alltaf að koma og skemma fyrir hinum, segir Elvar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Elvar Reykjalín
Mynd með færslu
Allt lauslegt var brotið Mynd: Elvar Reykjalín

Elvar stendur sjálfur fyrir uppbyggingunni á svæðinu og telur framkvæmdir kosta á áttundu milljón króna. Vatnið í pottana kemur úr borholum í nágrenninu. Hann er með hugmyndir um að setja gufubað inn í bakkann í fjörunni og vongóður um að það gerist fyrir næsta sumar. Hann segir sig þó farið að verkja í veskið og að aðrar stórar framkvæmdir séu ekki á áætlun á næstunni og vonar að pottarnir anni eftirspurn í bili.