Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þessir yrðu þingmenn miðað við nýjustu könnun

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Fylgi bæði Pírata og Sjálfstæðisflokksins lækkar á milli kannana samkvæmt nýjasta Þjóðarpúls Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 23,7 prósenta fylgi og Píratar með 20,6 prósenta. Bæði Vinstri grænir og Björt framtíð mælast hærra en eina tölfræðilega marktæka breytingin milli mælinga er fylgisaukning Bjartrar framtíðar, sem nú mælist með 4,7 prósent fylgi. Vinstri grænir mælast með 15,6 prósenta fylgi.

Viðreisn mælist nú með 13,4 prósenta fylgi, Samfylkingin með 8,5 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn með 8,2 prósenta fylgi. Íslenska þjóðfylkingin mælist með þriggja prósenta fylgi og Dögun nýtur stuðnings ríflega eins prósents. Aðrir flokkar mælast með minna en eins prósents fylgi. Tæplega 10 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og liðlega 8 prósent svarenda segjast ætla að skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 36 prósent og minnkar um 2 prósentustig frá síðustu mælingu.

Könnunin var gerð dagana 16. til 29. september. Heildarúrtaksstærð var 3.035 og þátttökuhlutfall var 59,2 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka er 1,1 til 2,2 prósent.

Þegar skoðað er hvernig fylgið skiptist eftir kynjum kemur í ljós að nokkuð færri konur ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn nú en í síðustu könnun. Síðast ætluðu 24,5 prósent kvenna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en rétt rúmt 21 prósent nú. Fylgi flokksins á meðal karla stendur hins vegar nokkurn veginn í stað. Líklegt má telja að prófkjör flokksins, þar sem konur lentu víða neðarlega, hafi áhrif á þetta. 

Fylgi flokka er mjög mismikið eftir kjördæmum og er munurinn í sumum tilvikum allt að tíu prósentustig. Til að mynda mælist Viðreisn með nærri 17 prósenta fylgi í Kraganum meðan flokkurinn mælist einungis með ríflega 6 prósent í Norðvesturkjördæmi. Svipað er uppi á teningnum hjá Framsókn en flokkurinn mælist einungis með ríflega 2 prósent í Reykjavík suður meðan fylgið mælist nærri 19 prósentum í Norðausturkjördæmi. Fylgi flokkanna má sjá eftir kjördæmi hér fyrir neðan.

Með því að bera saman þessar tölur við birta framboðslista má sjá hverjir munu setjast á þing verði kosningar í samræmi við könnun. Kjördæmakjörnir þingmenn eru 54 en ekki er hægt að áætla á flokka hvar jöfnunarþingmennirnir 9 munu falla.

Framsóknarflokkurinn myndi fá 5 þingmenn, tvo í Suður- og Norðausturkjördæmi og einn í Norðvesturkjördæmi. Það myndi þýða að þingmenn flokksins yrðu Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þórunn Egilsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá 15 þingmenn, 4 í Suðvesturkjördæmi, 3 í Suðurkjördæmi og tvo í öðrum kjördæmum. Þingmenn flokksins yrðu: Ólöf Nordal, Brynjar Níelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bjarni Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Haraldur Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Kristján Þór Júlíusson, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason.

Samfylkingin myndi fá sex þingmenn, einn í hverju kjördæmi. Þingmenn flokksins yrðu þá: Oddný G. Harðardóttir, Árni Páll Árnason, Guðjón S. Brjánsson, Össur Skarphéðinsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Logi Már Einarsson.

Vinstri græn myndu fá 9 þingmenn, tvo í Norðausturkjördæmi og báðum Reykjavíkurkjördæmum og einn í öðrum kjördæmum. Þingmenn flokksins yrðu þá: Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Píratar myndu fá 13 þingmenn, þrjá í Reykjavíkurkjördæmi norður og Suðvesturkjördæmi, tvo í Reykjavíkurkjördæmi suður, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, og einn í Suðurkjördæmi. Þingmenn flokksins yrðu þá: Birgitta Jónsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Ásta Guðrún Helgadóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andri Þór Sturluson, Eva Pandora Baldursdóttir, Gunnar I. Guðmundsson, Smári McCarthy, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson og Guðrún Ágústa Þórdísardóttir.

Viðreisn myndi fá 6 þingmenn, tvo í Reykjavíkurkjördæmi suður og Suðvesturkjördæmi og einn í Reykjavíkurkjördæmi norður og Suðurkjördæmi. Þingmenn flokksins yrðu þá Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson og Pawel Bartoszek.

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV