„Þessi saga er ekki bara um Harvey Weinstein“

Mynd: EPA / RÚV

„Þessi saga er ekki bara um Harvey Weinstein“

05.03.2020 - 14:19

Höfundar

Mál kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein varð kveikjan að #metoo-hreyfingunni fyrir rúmlega tveimur árum og nú hefur hann loks verið sakfelldur. Menningarleg úrvinnsla á atburðunum sem bylgjan hrinti af stað er nú í fullum gangi í bókum, kvikmyndum og sjónvarpi.

Rúmlega tveimur árum eftir að #metoo-bylgjan fór af stað bárust þau tíðindi að kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefði loks verið sakfelldur af kviðdómi í New York fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur af þeim konum sem stigið hafa fram. Fleiri en áttatíu konur sakað framleiðandann um ýmiss konar áreitni og ofbeldi en brotin spanna áratuga skeið. Dómari þar í borg ákveður á næstu dögum hvaða refsingu Harvey Weinstein hlýtur. Þóra Tómasdóttir blaðakona hefur fylgst með uppgjörinu og hún tók sér far með Lestinni og ræddi sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem tengdar eru byltingunni sem hrinti uppgjörinu, sem nú er formlega hafið, af stað. 

Blaðamennirnir sem afhjúpuðu kynferðisbrot Weinsteins hafa sent frá sér bækur. Þær Jodi Kantor og Megan Twohey, blaðamenn hjá New York Times sendu frá sér bókina She Said í fyrra og fjallar sú bók um grein sem þær skrifuðu um brot Weinsteins og þolendur hans. Lögfræðingurinn Ronan Farrow sendi svo frá sér bókina Catch and Kill sem Þóra segir að sé hálfgerð spennusaga. Ronan er sonur Hollywoodstjarnanna Miu Farrow og Woodys Allen, sem er eins og kunnugt er nokkuð umdeildur. Ronan var einna fyrstur til að finna hjá sér hugrekki til að skrásetja sögurnar og opinbera þær. Hann kennir sig við móður sína en hefur ekki talað við föður sinn síðan hann giftist stjúpsystur hans en önnur dóttir Allens hefur einnig sakað hann um kynferðisofbeldi. Því þykir ekki ótrúlegt að Ronan hafi verið sá sem barðist fyrir því að þögnin yrði rofin um glæpi Harveys Weinstein. 

Beitti njósnum og hótunum til að stöðva umfjöllun

Ronan starfaði sem blaðamaður á NBC sjónvarpsstöðinni þegar hann hófst handa við að rannsaka þrálátan orðróm um ofbeldishegðun Weinsteins. Það gekk ekki hnökralaust fyrir sig þrátt fyrir að flestir í bransanum vissu af ódæðisverkum hans. Hann þótti nefnilega allt of valdamikill til að nokkur þyrði að storka honum. „Þessi saga er ekki bara um Harvey Weinstein. Hún er um samferðafólk hans, valdbeitingu og hvernig rannsóknin á Weinstein var stoppuð af samverkamönnum hans,“ segir Þóra um bók Farrows. Þar komi skýrt fram að Harvey hafi beitt fantabrögðum til að hræða fólk frá því segja sannleikann, meðal annars njósnurum, ráðið her til að terrorísera þolendur og með sífelldri áreitni og hótunum kippt undan þeim fótunum. Njósnararnir hafa sumir sjálfir stigið fram og þeirra frásögnum er einnig lýst í bókinni. 

„Fjölmiðlar vari sig á Ronan Farrow“

Rannsókn Farrows var mjög yfirgripsmikil og sem fyrr segir reyndu ýmsir að bregða fyrir hann fæti meðan hann vann að afhjúpuninni. Mánuðum saman hitti hann fórnarlömb, talaði við konur sem margar hverjar vildu svo bakka og hætta við þegar áreitnin fór að aukast. „Þær halda flestar, og hann sjálfur, að hann sé að missa vitið. Tölvan hans hagar sér skringilega, síminn hans hagar sér skringilega og það eru alltaf einhverjir skrýtnir menn fyrir utan heimilið hans,“ útskyrir Þóra. Ronan lætur þó ekki stöðva sig og heldur áfram að reyna að koma sögunni í loftið hjá NBC sjónvarpsstöðinni en eftir því sem á líður finnur hann fyrir síauknu mótlæti þaðan og það virðist sem stöðin kappkosti við að bregða fyrir hann fæti. „Framleiðendurnir segja honum að hann megi ekki gera þetta svona, hann þurfi að bíða eftir að þetta og hitt gerist. Hann er búinn að mæla sér mót við konu sem ætlar að fórna öllu og segja sögu sína en þá er stöðin allt í einu ekki til í það,“ segir Þóra. Hann bregður á það ráð að fara með söguna til annars miðils og svo fer að hann birtir frásagnanirnar í New Yorker. „Svo í þessari bók sem kemur út fyrir nokkrum mánuðum dregur hann sjónvarpsstöðina niður í svaðið. Það eru fjölmargir menn sem hafa þurft að hætta störfum vegna hans rannsókna.“ Háðfuglinn Ricky Gervais minntist á Ronan í einu af baneitruðum innslögum sínum á Golden Globe-verðlaunahátíðinni. Hann sagði að fjölmiðlamenn mættu nú allir fara að vara sig á Ronan Farrow sem samkvæmt Ricky er tilbúinn til að taka þá niður fyrir áralanga meðvirkni með ofbeldismönnum.

Þetta er enginn skáldskapur

Nú tveimur árum eftir #metoo hafa komið út vinsælir og yfirgripsmiklir sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem takast á við misbeitingu valds á vinnustöðum í formi áreitni og ofbeldis. Einhverjar þeirra tengjast reyndar öðru stóru máli sem má segja að hafi verið upptakturinn að #metoo en það var þegar hópur kvenna steig fram árið 2016 og sagði hryllingssögur af áreitni og ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir af hendi eins valdamesta manns í bandarísku sjónvarpi, Roger Ailes, sem var forstjóri Fox News. Þar ber helst að nefna kvikmyndina Bombshell og sjónvarpsþættina The Loudest Voice. Þóra hefur horft á þættina og er mjög hrifin af þeim en segir sláandi að sjá að stemningin á vinnustaðnum og karlremban eins og hún birtist þar minni um margt á þættina Mad Men sem eiga að gerast á sjöunda og áttunda áratug. „Og það eru períóduþættir sem áttu að gerast fyrir löngu síðan. Það er ótrúlegt að við séum að sjá endurtekningu á þessu hegðunarmynstri allt til dagsins í dag.“ Hún segir að hér sé ekki um neinn skáldskap að ræða, þarna séu menn hreinlega kallaðir þeim nöfnum sem þeir heita. „Robert Murdoch spilar þarna lykilhlutverk því hann er peningamaðurinn á bak við Fox News sjónvarpsstöðina. 

Flókið þegar ofbeldismaðurinn er góður vinur

Sama saga er sögð í kvikmyndinni Bombshell. „Þar er þetta nákvæmlega sama mál en meira frá sjónarhóli kvennanna,“ segir hún og nefnir einnig þættina Succession sem byggjast lauslega á Murdoch og hans fjölskyldu og Morning Show sem fjallar um tvær konur sem stýra morgunþætti í Bandaríkjunum og þeirri upplausn sem það veldur þegar þáttastjórnandi er látinn fara eftir að kona stígur fram og tilkynnir áreitni hans. Þóra bendir á að þar sé varpað ljósi á hve blendin viðbrögð það veki þegar manneskjan sem brýtur af sér er vel liðin og vinamörg. „Þetta eru ótrúlega áhrifaríkir þættir sem sýna okkur hve flókið það er þegar maðurinn sem sakaður er um þessi brot er maður sem öllum þykir vænt um og er ótrúlega geðþekkur,“ segir hann. „Allir bera honum svo góða sögu og þegar hann er síðan afhjúpaður, sem svona gæi, fara allir í naflaskoðun.“

Uppgangur pópúlisma, þjóðrembingur og útlendingaandúð

Í aðeins stærra samhengi, segir Þóra, varðar þetta mál ekki einungis samskipti á vinnustöðum, og spurninguna hvað má og hvað má ekki, heldur valdbeitingu í viðtækari skilningi. Þar nefnir hún uppgang popúlisma í stjórnmálum sem dæmi. „Þess vegna koma menn eins og Trump til dæmis ítrekað fyrir í The Loudest Voice þar sem Roger Ails beitir sér fyrir því að gera Trump að forseta. Þetta er uppgangur pópúlismans, dýrkun á þjóðrembingi og útlendingaandúð,“ segir hún ákveðin. „Við sjáum þetta í pólitíkinni alls staðar í kringum okkur.“

Rætt var við Þóru Tómasdóttur í Lestinni.

Tengdar fréttir

Erlent

Segir Weinstein hafa níðst á varnarlausum konum

Erlent

Weinstein ákærður fyrir nauðgun í Los Angeles

Kvikmyndir

„Ánægður að vera fjandans fógetinn í þessum skítabæ“