Þessi lög þykja sigurstranglegust í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Eurovision official

Þessi lög þykja sigurstranglegust í kvöld

16.05.2019 - 15:03

Höfundar

Í kvöld eru seinni undanúrslit Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Þetta er af mörgum talinn sterkari riðill en á þriðjudag en töluvert fleiri af þeim löndum sem spáð er góðu gengi á laugardaginn stíga á svið í kvöld.

Á meðal þeirra landa sem koma fram í Expó-höllinni í Tel Aviv í kvöld og þykja sigurstrangleg eru Holland, Svíþjóð, Rússland, Aserbaísjan og Sviss. Hollandi hefur verið spáð afgerandi sigri í keppninni og veðbankar hafa spáð Svíþjóð öðru sæti. Eins og ljóst varð á fyrri undankeppninni getur þó ýmislegt komið á óvart eftir að áhorfendur og dómarar hafa kveðið upp sinn dóm en á fyrra kvöldinu var mörgum brugðið þegar ljóst varð að hvorki til dæmis Portúgal né Georgía komust áfram í lokakeppnina þrátt fyrir að eiga sér marga aðdáendur.

Hér að neðan má glöggva sig á sigurstranglegustu lögum kvöldsins.
 


Það efast fáir um að Duncan Laurence komist áfram upp úr undanúrslitum kvöldsins með lagi sínu Arcade, en veðbankar spá því að það séu 36% líkur á sigri lagsins. Það eru þrefaldar sigurlíkur sænska lagsins sem kemur inn í annað sæti en sænska lagið er með 12% vinningslíkur. Margir hafa brotið heilann um gífurlegar vinsældir lagsins sem er nokkuð lágstemmt, laust við frumleika og glimmersprengjur en afar útvarpsvænt. Sviðsetningin þykir ennfremur nokkuð fábreytileg en Duncan situr við píanóið á sviðinu á meðan hann raular lagið. Lagið fjallar eins og margir vinsælir slagarar um hjartasár, en Duncan endurtekur í sífellu að það að elska þig sé tapað spil.


Svíþjóð teflir fram ástarlagi í ár, en John Lundvik flytjandi lagsins segir titil þess ákveðna þversögn. Þó lagið heiti Of seint fyrir ástina fjallar það einmitt um að það er aldrei of seint að elska. John virðist sannarlega ekki sammála Hataramönnum um hver sigri í glímunni á milli ástar og haturs. John Lundvik til halds og traust er hópur gospelsöngkvenna sem kalla sig Mömmurnar. Það er einróma álit alls hópsins að um leið og þau hittust fyrst hafi þeim orðið ljóst að þau væru sem ein fjölskylda.


Flytjandi rússneska lagsins, Sergey Lazarev, er öllum Eurovision-aðdáendum kunnur en hann flutti framlag Rússlands árið 2016 í Stokkhólmi, lagið „You are the only one.“ Lagið sigraði í símakosningunni, en eftir að atkvæði dómnefndar voru kunngjörð var ljóst að Sergey hefði hafnað í þriðja sæti. Margir Rússar voru sárir yfir niðurstöðunni og ekki bætti úr skák að sigurlagið þetta árið var lagið 1944 sem fjallaði á gagnrýninn hátt um eftirminnileg átök á Krímskaga þegar 240.000 Tatarar voru nauðungafluttir landsvæðinu í síðari heimsstyrjöld. Tatarar sneru margir aftur eftir fall Sovétríkjanna en sættu ofsóknum eftir að Krímskagi var innlimaður í Rússland 2014. Lagið þótti af mörgum á mörkum þess að vera of pólitískt en stórn Eurovision úrskurðaði að það bryti ekki í bága við lög keppninnar og Jamala sigraði.

Sergey er mættur aftur með lagið Scream en sviðsetning lagsins hefur vakið verðskuldaða athygli. Söngvarinn verður speglaður á sviðinu svo margar útgáfur af honum birtast og syngja lagið af miklum eldmóði í eldingum og regni.


Aserar bjóða upp á grípandi poppsmell í ár, en þar er á ferð enn einn sigurstranglegi karlsöngvarinn í keppninni, með lagið Truth. Lagið er fjörlegur poppsmellur í anda nafnanna Justins Bieber og Justins Timberlake, en þrátt fyrir að vera fjörugt fjallar lagið um erfiðan skilnað og biturleika eftir ástarsamband. Aserbaísjan sigraði í keppnni nokkuð óvænt árið 2011 með laginu Running scared, en lagið hlaut fæst atkvæði nokkurs sigurlags í sögu keppninnar enda var hún óvenju jöfn það árið. Einhverjir vilja halda því fram að það sé aftur komið að Aserbaísjan að sigra, en lagið er núna í sjöunda sæti í veðbönkum.


Luca Hänni fjallar um það í framlagi Sviss í ár hvernig konan sem hann hefur augastað á fái hann til að dansa ósiðlega. Helga Möller var á meðal dómara í forkeppninni í Sviss og barðist fyrir sigri Luca því henni þótti engin spurning að hann bæri af öðrum atriðum. Svisslendingar hafa rokkað upp og niður veðbankalistann síðustu daga en sitja núna í níunda sæti með þetta smellna popplag sem er að sögn íslensku sérfræðinganna í FÁSES eins konar endurvinnsla á kýpverska framlaginu í fyrra. Þó lagasmíðin sé ekki djúp þá eru heimamenn bjartsýnir í ár en Svisslendingar hafa 11 sinnum setið eftir með sárt ennið án þess að komast úr undankeppninni og hafa ekki sigrað síðan Celine Dion sigraði fyrir hönd Sviss með laginu Ne partez sans moi fyrir rúmum 30 árum.


Þó íslensku keppendurnir verði ekki á meðal þeirra sem stíga á svið í kvöld er ljóst að keppnin ætti að vera bæði fjörleg og spennandi. Margir Íslendingar sitja líklega við skjáinn í kvöld og glöggva sig á því hverjir verða helstu keppinautar Hatara á laugardag.

Tengdar fréttir

Pistlar

Hatari, hvenær kemur bomban?

Tónlist

Þökkuðu Dominos og Deutsche Bank stuðninginn

Tíu tíst sem benda til þess að Hatrið sigri

Menningarefni

DR segir íslenska atriðið klikkað