Þessi keppa um að komast í Eurovision

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þessi keppa um að komast í Eurovision

11.12.2015 - 20:15

Höfundar

Tólf lög keppa um að verða framlag Íslands í Eurovision söngkeppninni í Stokkhólmi í vor. Flytjendur laganna tólf eru reynsluboltar og nýliðar í bland. Mesti reynsluboltinn er án efa Pálmi Gunnarsson sem söng Gleðibankann þegar það lag var valið fyrsta framlag Íslands í Eurovision árið 1986.

Lagið Kreisí er eftir Karl Olgeirsson og textinn er eftir hann og Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur. Sigga Eyrún flytur lagið. Þau eru ekki ókunnug söngvakeppninni; nokkur lög úr þeirra smiðju hafa áður komist í undankeppnina. 

Þetta er ekki eina lag Karls Olgeirssonar því hann á einnig bæði lag og texta lagsins Óvær. Flytjandi þess er Helgi Valur Ásgeirsson. 

Erna Mist og Magnús Thorlacius sömdu bæði lag og texta lagsins Ótöluð orð og ætla að flytja það sjálf. 

Þórunn Erna Clausen á lagið og texta lagsins Hugur minn er. Flytjendur lagsins eru tveir; Erna Hrönn Ólafsdóttir og Hjörtur Traustason, nýkrýndur sigurvegari söngkeppninnar The Voice á Skjáeinum.

Júlí Heiðar Halldórsson á lagið Spring yfir heiminn, en texta þess samdi hann með Guðmundi Snorra Sigurðarsyni. Sá síðarnefndi flytur lagið ásamt Þórdísi Birnu Borgarsdóttur. 

Alma Guðmundsdóttir, oft kennd við stúlknahljómsveitina Nylon, hefur snúið sér í auknum mæli að lagasmíðum. Hún samdi lagið Augnablik með James Wong og textann sömdu þau með Öldu Dís Arnardóttur sem jafnframt flytur lagið. 

Karlotta Sigurðardóttir flytur lagið Óstöðvandi. Lagið er eftir Kristin Sigurpál Sturluson, Ylfu Persson og Lindu Persson. Ylfa, Linda og Alma Rut Kristjánsdóttir sömdu textann.

Ingólfur Þórarinsson, einnig þekktur sem Ingó veðurguð, á bæði lag og texta við lagið Fátækur námsmaður. Hann flytur einnig lagið. 

Elísabet Ormslev, sem hefur vakið mikla athygli í The Voice, flytur lagið Á ný. Lag og texti er eftir Gretu Salome Stefánsdóttur.

Það er ekki eina lagið sem Greta Salome á í keppninni því hún samdi einnig lag og texta við Raddirnar sem hún flytur sjálf.

Sigríður Eir Zophoniasardóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir sömdu lag og texta við lagið Ég sé þig. Þær flytja líka lagið. 

Pálmi Gunnarsson flytur síðan lagið Ég leiði þig heim. Lag og texti er eftir Þóri Úlfarsson. 

30 ára þátttökuafmæli

30 ár eru frá því að Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovisonkeppninni. 

Fyrri undankeppnin fer fram í Háskólabíói laugardaginn 6. febrúar 2016 og sú seinni viku síðar. Úrslitakeppnin fer fram í Laugardalshöll.