Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þessi hrepparígur er að hverfa“

12.11.2018 - 19:29
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Umferð til og frá Neskaupstað hefur aukist um þriðjung frá því að Norðfjarðargöng voru opnuð. Veitingamaður í Neskaupstað segir að fólk sæki þjónustu í auknum mæli milli staða og læknir segir miklu muna að losna við sjúkraflutninga yfir illfært Oddsskarð.

Í gær var ár liðið frá opnun Norðfjarðarganga og enn eru eftir ýmis handtök. Í dag voru starfsmenn Vegagerðarinnar að fjarlægja ljósaskiltið fyrir Oddsskarð en þar yfir þurftu íbúar á Austurlandi að fara til að komast á Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað. Jón Sen forstöðulæknir segir göngin gera mikið fyrir bráðveikt fólk. „Sjúkrabílar voru oft lengi á leiðinni yfir og það þurfti oft veghefilinn á undan til þess að ryðja. Oft þurfti líka björgunarsveitina til að hjálpa til. Það er býsna algengt að fólk fái einkenni um heilaáfall. Þar er tíminn alveg geysilega dýrmætur. Fólk þarf að komast inn á sjúkrahús sem allra fyrst í sneiðmyndatöku á höfðinu og að hefja meðferð án tafar. Fólk kemst fyrr til okkar og við höfum ekki lent í því að það hafi verið ófært á sjúkrahúsið þegar mikið liggur við,“ segir Jón.

Sjúkrahúsið er ekki eina stofnunin í Neskaupstað sem þjónar öllu Austurlandi, þar er líka Verkmenntaskóli Austurlands. Um 80 af nemendum skólans fara nú um göngin á hverjum degi og það er léttir að losna við skarðið. „Við fáum ekki hringingarnar: rútunni seinkar, ófært skarðið, tékkaðu eftir klukkutíma, heldur komst nemendur alltaf fram og til baka. Þannig að þeir ferðast með öruggari hætti og foreldrarnir eru öruggari. Við erum oft með unga krakka að keyra, krakka sem eru komnir með bílpróf og eru að koma sjálfir keyrandi í skólann. Þetta er gífurlegt öryggisatriði að vera ekki að senda þau yfir Oddsskarð yfir vetrartímann,“ segir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.

Göngin auðvelda mörgum lífið, ekki síst fólki sem sækir vinnu á milli byggðakjarna og fyrirtækjum sem áður þurftu að flytja allar vörur um Oddsskarð. Þótt styttingin hafi aðeins verið fjórir kílómetrar finna þjónustufyrirtæki í Neskaupstað mun eftir að göngin voru opnuð. Fólk er duglegra að nýta sér þjónustuna. „Fjarðabúar koma miklu meira og meira að segja Héraðsmenn sem áður voru kannski sjaldséð sjón. Í sumar var mikið meira af Íslendingum sem komu. Ég held að Norðfirðingar sérstaklega finni loksins fyrir því að við búum í sameinuðu sveitarfélagi. Við höfum alltaf verið út úr og ég finn að þessi hrepparígur er að hverfa og fólki finnst orðið bara sjálfsagt að skreppa á milli. Þetta eru engar vegalengdir. Fólki finnst ekkert mál að skreppa á menningarviðburði eða slíkt,“ segir Hákon Guðröðarson, veitingamaður hjá Hótel Hildibrandi í Neskaupstað.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV