Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þekktur hjartalæknir stýrir nýju sjúkrahúsi

21.07.2016 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: http://www.burbankscapital.com/
Pedro Brugada, þekktur hjartalæknir, verður einn stjórnanda nýja einkarekna sjúkrahússins sem rísa á í Mosfellsbæ. Brugada kom hingað til lands í vor til að kynna sér aðstæður. Hann heimsótti meðal annars Klíníkina í Ármúla þar sem hann hyggst opna skurðstofu í haust.

Brugada er meðal annars þekktur fyrir að uppgötva eina tegund hjartagalla sem nefnd í höfuðið á honum, svokallað Brugada-heilkenni.

Opnar skurðstofu í haust

Að sögn Ásdísar Höllu Bragadóttur, stjórnarformanns Klíníkurinnar, þá ætlar Brugada að opna, ásamt öðrum hjartalæknum, skurðstofu þar í október til að þróa sína þjónustu og kynnast íslenskum aðstæðum.

Ásdís Halla segir að búið sé að gera við hann tímabundinn leigusamning en hún gerir ráð fyrir að þegar sjúkrahúsið í Mosfellsbæ verði tilbúið muni hann færa starfsemi sína þangað. Ásdís Halla sagði Klíníkina ekki tengjast sjúkrahúsinu að öðru leyti, ekki sé gert ráð fyrir að starfsmenn hennar færi sig þangað né komi Klíníkin að fjármögnum eða öðrum þáttum sjúkrahússins.

Merki Klíníkurinnar á heimasíðu Burbanks Capital

Mosfellsbær samdi í morgun við MCPB ehf. um leigu á lóð undir 30 þúsund fermetra byggingu sem á að hýsa einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel en MCPB ehf. er að mestu í eigu Burbanks Holding að því er fram kemur í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Athygli vekur að á heimasíðu Burbanks Capital, sem tengist Burbanks Holding, meirihlutaeiganda MCPB ehf, er mynd af starfsmönnum Klíníkurinnar sem og merki fyrirtækisins. Ásdís Halla segir að líklega sé Brugada að auglýsa þessa nýju starfssemi sína með þessu en skurðstofan sem hann ætli að opni beri einmitt nafnið P. Brugada Heart Department sem er sama nafn og sjá má á heimasíðunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Burbanks Capital
Á heimasíðu Burbanks Capital má sjá myndir af starfsfólki Klínikunnar í Ármúla.

Átti fund með heilbrigðisráðherra

Í viðtali við Morgunblaðið fyrr á þessu ári sagði Bugada að fyrst í stað muni starfssemi hans felast í meðhöndlun erlendra sjúklinga sem hingað koma. Þó ætli hann að leggja mikla áherslu á samstarf við íslenska hjartalækna. Þá átti hann fund með heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni.

Tengist öðru sjúkrahúsi sem átti að rísa í Mosfellsbæ

Upphaflega stóð til að sjúkrahúsið myndi rísa í Garðabæ en af því varð ekki. Haraldur Sveinsson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir að eigendur MCPB ehf. hafi komið að máli við sig í síðustu viku til að ræða mögulegan lóðaleigusamning. Hlutirnir hafi gengið hratt fyrir sig, samningur hafi verið handsalaður fyrr í vikunni og undirritaður í morgun. Mosfellsbær hafi verið búinn að skipuleggja lóðina undir starfssemi sjúkrahúss og hótels og öll þróunarvinna hafi verið unnin í tengslum við samninga sem gerðir voru við annað fyrirtæki, Prima Care, sem áformaði uppbyggingu á lóðinni. 

Framkvæmdastjóri Prima Care var Gunnar Ármannsson. Gunnar situr í stjórn MCPB ehf.