Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þekkir hvern bílskúr og bakgarð í 104

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Þekkir hvern bílskúr og bakgarð í 104

24.04.2019 - 16:03

Höfundar

Á æskuslóðum sínum í Vogahverfinu bar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra út póst á yngri árum, las Nancybækurnar á Sólheimasafninu á rigningardögum og þekkti hvern krók og kima í hverfinu. Hún segist þó vera hætt að paufast í bakgörðum að kíkja á nágrannana.

Katrín Jakobsdóttir segir að munurinn á því hvernig maður skynjar staði sem barn annars vegar og fullorðin manneskja hins vegar sé merkilegur. „Það er svo skrýtið með svona æskuslóðir eins og Vogahverfið, því ég bý ekki þarna lengur, en eftir að móðir mín lést flutti ég tímabundið inn í gömlu íbúðina í gamla hverfið. Þá var ég komin með þrjú börn og mann og upplifði þetta allt öðruvísi. Ég fór að hjóla um og fattaði að ég þekkti hvern einasta bílskúr, hvern einasta slóða og bakgarð.“

Katrín kom í þáttinn Fram og til baka til Felix Bergssonar og sagði frá fimm stöðum sem hafa haft mikil áhrif á líf hennar. Hún rifjar meðal annars upp æskuslóðir sínar þar sem hún bjó frá því hún fæddist og þar til hún flutti að heiman á þrítugsaldri. Sem barn lék hún sér við kisurnar í hverfinu sem hún var með ofnæmi fyrir, sníkti fyrir stóru bræður sína og kynntist fólkinu í kring. 

Katrín segir að ítarleg þekking hennar á Vogahverfinu hafi helst orðið til þegar hún bar út póst. „Það var frábært starf, fyrsta alvöru starfið mitt. Maður er náttúrulega einn og í eigin hugarheimi en maður kynnist hverju einasta húsi, lúgu, bakdyrum, kjöllurum og fólkinu á bak við gardínurnar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Á Sólheimasafni las Katrín Nancybækurnar á rigningardögum.

Katrín flutti síðar í Vesturbæinn og býr þar enn, en hún segist hafa kynnst Vesturbænum á allt annan hátt en Vogahverfinu. „Ég er ekki lengur að paufast í bakgörðum að tékka á nágrönnunum enda væri það líka svolítið skrýtið að kona á fimmtugsaldri væri að því.“ 

Katrín segir að gamla hverfið hafi aðeins breyst og Laugardalurinn hafi til dæmis verið villtari þegar þar var enginn Húsdýragarður. „Sólheimasafnið sem er þarna, það er mikið búið að ræða húsnæðismál þess upp á síðkastið, þar var ég fastagestur. Ég las þar allar Nancybækurnar á rigningardögum.“ Katrín segir að þótt bréfberastarfinu hafi fylgt mikil einvera hafi hún kynnst ýmsu fólki. „Ég bar til dæmis út póst til Thors Vilhjálmssonar sem stóð úti í garði og spjallaði alltaf þegar ég kom. Sumir aðrir sem ég bar út til voru líka með alls kyns sérþarfir á borð við „vinsamlegast opnaðu hurðina og skildu póstinn eftir á þessari hillu“ og maður gerði það en sá aldrei neinn. Ég var gjarnan byrjuð að ímynda mér að þarna byggi einhver stórglæpamaður.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Katrín kynntist rithöfundinum Thor Vilhjálmssyni þegar hún bar út til hans sem barn.

Katrín segir að þótt langt sé um liðið síðan hún bjó í Vogahverfinu muni hún enn eftir krökkunum og fólkinu sem hún kynntist þar. „Besta vinkona mín frá því á leikskóla var í Goðheimunum og ég í Álfheimunum. Svo þekkir maður alltaf grunnskólakrakkana áfram.“ Katrín segir að í Vogahverfinu hafi ýmsir þjóðþekktir einstaklingar slitið barnskónum. „Það eru mörg skáldin alin þarna upp, Bubbi Morthens var þarna og Einar Már og fleiri.“

Felix Bergsson ræddi við Katrínu Jakobsdóttur á páskadagsmorgun. Hægt er að hlýða á viðtalið í spilaranum hér að ofan.