Katrín Jakobsdóttir segir að munurinn á því hvernig maður skynjar staði sem barn annars vegar og fullorðin manneskja hins vegar sé merkilegur. „Það er svo skrýtið með svona æskuslóðir eins og Vogahverfið, því ég bý ekki þarna lengur, en eftir að móðir mín lést flutti ég tímabundið inn í gömlu íbúðina í gamla hverfið. Þá var ég komin með þrjú börn og mann og upplifði þetta allt öðruvísi. Ég fór að hjóla um og fattaði að ég þekkti hvern einasta bílskúr, hvern einasta slóða og bakgarð.“
Katrín kom í þáttinn Fram og til baka til Felix Bergssonar og sagði frá fimm stöðum sem hafa haft mikil áhrif á líf hennar. Hún rifjar meðal annars upp æskuslóðir sínar þar sem hún bjó frá því hún fæddist og þar til hún flutti að heiman á þrítugsaldri. Sem barn lék hún sér við kisurnar í hverfinu sem hún var með ofnæmi fyrir, sníkti fyrir stóru bræður sína og kynntist fólkinu í kring.
Katrín segir að ítarleg þekking hennar á Vogahverfinu hafi helst orðið til þegar hún bar út póst. „Það var frábært starf, fyrsta alvöru starfið mitt. Maður er náttúrulega einn og í eigin hugarheimi en maður kynnist hverju einasta húsi, lúgu, bakdyrum, kjöllurum og fólkinu á bak við gardínurnar.“