Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þekking sem á erindi við heiminn“

21.02.2019 - 10:13
Mynd:  / 
„Ég er alveg sannfærð um það að víða um landið er þekking sem á erindi út í hinn stóra heim," segir Anna Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Evris, sem myndað hefur nokkurs konar brú fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki á erlenda markaði. Evris og samstarfsaðilum hefur tekist að koma á fimmta tug íslenskra fyrirtækja inn í styrkjakerfi Evrópusambandsins. Styrkirnir nema rúmum 11 milljónum evra. Rætt var við Önnu Margréti Guðjónsdóttur á Morgunvaktinni á Rás 1.

Í næstu viku ætla starfskonur Evris að kynna þá möguleika sem er að finna í styrkjakerfi Evrópusambandsins og liggur leiðin bæði til Ísafjarðar og Reyðafjarðar. Margir hafa verið að þróa einhverja vöru í bílskúrnum en þurfa meira afl til að ná flugi. „Við viljum ná í þessa þekkingu," sagði Anna Margrét Guðjónsdóttir á Morgunvaktinni. þar lýsti hún að styrksumsókn væri í raun gæðaferli. Það þarf að vanda undirbúning og skerpa áherslur.

Ekki hljóta allar hugmyndir brautargengi. Í síðustu viku náðist hinsvegar sá merki áfangi að þrjú fyrirtæki sem eru í eigu og rekin af konum komust í gegnum nálarauga Evrópusambandsins. Hópur íslenskra kvenna var kominn alla leið til Brussel að kynna sig og vörur sínar, sem unnar eru úr íslenskum jurtum: „Þetta þykir mér stórkostlegur árangur og er mjög stolt af því." Það er nefnilega þannig að hingað til hafa karlarnir verið nokkuð ráðandi í nýsköpunarstarfinu. Konurnar sem ætla að gera verðmætar heilsuvörur úr íslenskum jurtum eru að sanna það að þetta „eitthvað annað" skiptir máli.  „Þarna fer saman þeirra góða menntun, hugvit og þekking."

Mynd með færslu
 Mynd:
Anna Margrét Guðjónsdóttir
odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður