Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þeir virðast finna allar smugur í kerfinu“

Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / Ingvar Haukur Guðmundsson
Smálán og skyndilán eru ein helsta ástæða þess að fólk leitar sér aðstoðar hjá Umboðsmanni skuldara, segir Sara Jasonardóttir, verkefnastjóri fræðslu- og kynningarmála hjá embættinu. Hún segir þetta mikið áhyggjuefni, sem fari vaxandi. Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdarstjóri Neytendasamtakanna, segir þau hafa fengið á borð til sín ófá slík mál. „Þetta er einhvern veginn ekki eitt, þetta er allt“, segir hún.

Fólk oft komið í ógöngur

Umsóknum um greiðsluaðlögun hefur fjölgað hjá Umboðsmanni skuldara á árinu. Sara segir að fólk sé oftast komið í ógöngur þegar það leiti þangað. Það sé þá búið að nýta alla möguleika og taka of mikið af smá- og skyndilánum, og oft komið á vanskilaskrá, segir hún. „Þetta er aðallega ungt fólk sem leitar til okkar af þessum ástæðum,“ segir Sara.

Dæmi séu um að fólk taki skyndi- eða smálán á einum stað og noti það til að greiða annað slíkt lán sem þegar er komið á eða yfir gjalddaga. Brynhildur segir að oft séu þetta lán að upphæð 10-20 þúsund króna sem svo hrúgist upp. Fólk fari þá að taka lán til að borga af hinum lánunum. Svo bætist á kröfuna háir ólögmætir vextir, dráttarvextir og innheimtukostnaður, segir hún.

Háir vextir fylgi lánunum

Smá- og skyndilán eru lán sem svokölluð fjártæknifyrirtæki bjóða upp á og eru utan við hefðbundna bankastarfsemi, útskýrir Sara.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við fréttastofu nú á dögunum að allt að 35.000 prósent vextir hvíli á slíkum smálánum, umfram seðlabankavexti. Hins vegar kveði lög á um að veita megi lán með að hámarki 50 prósenta vöxtum auk seðlabankavaxta. 

Brynhildur segir að þetta séu okurvextir sem séu ólöglegir. Auk þessa séu lánin innheimt af mikilli hörku. „Þeir virðast finna allar smugur í kerfinu,“ segir að hún. Hún segir að dæmi séu um að fólk sé sett á vanskilaskrá vegna vangreiddra smálána, en óheimilt sé að gera slíkt vegna ólögmætrar kröfu. Því hvetji þau alla sem hafi verið settir á vanskilaskrá vegna smálána að gera athugasemd við það.

Brynhildur segist ekki vita um neitt annað dæmi um neytendavöru eða þjónustu á markaði sem sé ólögleg en fái að viðgangast. „Þetta athafnaleysi í kringum þetta allt saman að ganga ekki í málið og uppræta þetta það veldur okkur miklum vonbrigðum,“ segir hún.

Umboðsmaður skuldara hefur talað opinberlega um þennan vanda. Þau segja að margt þurfi að koma til svo hægt sé að leysa hann. Sara segir að takmarka þurfi markaðssetningu slíkra lána og frekari fræðslu þurfi svo fólk sé betur í stakk búið til þess að taka upplýsta ákvörðun.

Stofna þurfi miðlægan skuldagrunn

Auk þess hefur umboðsmaður lagt til að stofnaður verði miðlægur skuldagrunnur. Eins og staðan er nú skila upplýsingar um lán frá slíkum skyndi- og smálánafyrirtækjum, sér ekki á skattframtöl í flestum tilfellum, segir Sara.

Miðlægur skuldagrunnur myndi veita yfirsýn yfir umfang starfsemi slíkra fyrirtækja, segir Sara. 

Það myndi þýða að slík fyrirtæki gætu séð hvort fólk er þegar með lán annars staðar og þau gætu þannig lánað á ábyrgari hátt, segir hún. Þetta gæti því takmarkað vandann og komið í veg fyrir að fólk geti gengið lána á milli.