Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þeir sem segja ljóta hluti hafa ekki hlustað

Mynd: RÚV / RÚV

Þeir sem segja ljóta hluti hafa ekki hlustað

19.10.2019 - 13:00

Höfundar

Þrátt fyrir neikvæða umfjöllun og þrálátar gagnrýnisraddir sem fylgt hafa Reykjavíkurdætrum síðan þær komu fyrst fram eru þær eru ekki af baki dottnar. Glænýtt lag með þeim verður frumflutt í Pabbahelgum á sunnudag og plata frá þeim er tilbúin úr hljóðblöndun og væntanleg í verslanir og á streymisveitur í vor.

Nýjasta plata rappettanna í Reykjavíkurdætrum er tilbúin glóðvolg úr hljóðblöndun. Rappararnir iða í skinninu að fá að opinbera lögin fyrir landanum og heiminum en þurfa að sitja á sér því platan kemur ekki formlega út fyrr en í vor. Fyrsta lagið verður þó frumflutt í þættinum Pabbahelgar á sunnudag og þá fá landsmenn smjörþefinn af því sem koma skal. Þuríður Blær og Steinunn Jónsdóttir heimsóttu Morgunútvarpinu og sögðu frá plötunni og þrálátri gagnrýni um að þær séu of mikið að trana sér fram eða ekki nógu góðar eða málefnalegar.

Fyrsta platan sem allar gera saman

„Reykjavíkurdætur voru upprunalega meira klan en hljómsveit. Hópurinn samanstóð í raun af mismunandi tónlistarkonum sem gáfu út ólíkt efni undir hatti Reykjavíkurdætra en nú erum við loks að gera plötu sem við vinnum saman frá A til Ö,“ segir Þuríður Blær spennt og viðurkennir að erfitt sé að bíða fram á vor með að spila plötuna.

Plötuna tóku þær upp í Berlín þar sem þær dvöldu saman og segja þær að hún sé allt öðruvísi en efnið sem hefur komið frá þeim hingað til. Ástæðan fyrir seinagangi útgáfunnar er sú að umboðsmaðurinn telur sig þurfa tíma til að skaffa erlendum dreifingaraðilum áður en það er hægt að opinbera hana. „Við vorum með íslenskan dreifingaraðila en núna herjum við aðalega á alþjóðlegan markað,“ útskýrir Þuríður en hljómsveitin hefur ítrekað komið fram erlendis og fengið jafnvel betri viðtökur en hér heima. Það má því teljast eðlilegt skref fyrir þær að horfa út fyrir landsteinana í þessum efnum. 

Sér ekki fyrir sér Röggu Hólm í japönsku stelpubandi

Sveitin hefur spilað mikið í Osló og hefur verið vel tekið þar og víða um Evrópu en Þuríður segist óska þess að þær dreifi enn meira úr sér. „Draumurinn minn er að fara til Japan í K-Pop fíling. Það er nefnilega minn draumur að vera í K-pop bandi og er alltaf að reyna að ýta okkur þangað. Ég get þó ekki séð fyrir mér til dæmis Röggu Hólm sem er öll tattúveruð koma fram í pínupilsi eins og ég vil gera,“ segir hún og hlær.

„Hef sjálf verið með fordóma“

Nýverið varð fjaðrafok þegar Anna Svava gerði lítið úr Reykjavíkurdætrum í uppistandi sínu. Hún gaf þar í skyn að rapp Reykjavíkurdætra væri krúttlegt eins og vaxlitamynd eftir lítið barn sem kynni ekki að teikna. Í kjölfarið fór mikil umræða í gang um gæði og erindi sveitarinnar, umræða sem ekki er ný af nálinni en getur verið mjög meiðandi og ósanngjörn að mati rapparanna. „Þeir sem segja ljóta hluti um Reykjavíkurdætur eru oft fólk sem hefur aldrei hlustað á okkur en myndar sér skoðun út frá einni stöðuuppfærslu, myndbandi eða frétt,“ segir Þuríður.

Hún minnist á fregn sem birtist í morgun þess efnis að 80% alþingiskvenna hafi orðið fyrir kynbundnu andlegu ofbeldi. Þuríður segir það bæði sláandi en að tölurnar komi sér því miður ekki á óvart. „Ég las þetta undir stöðuuppfærslu frá Sóleyju Tómasdóttur sem sagði að allar konur sem hafa rödd og nota hana gegn feðraveldinu verði fyrir sérstakri tegund af ofbeldi og hrekjast í kjölfarið úr starfi,“ segir Þuríður. Hún segist tengja við efni fréttarinnar enda hafa þær fengið yfir sig flóð af neikvæðum athugasemdum og orðið fyrir ítrekuðu aðkasti fyrir að vera rappandi konur með meiningar, stundum með þeim afleiðingum að það verður erfitt að standa upp og halfa áfram. „Ef við værum með að gera okkar efni einar á báti þá væri minna hlustað á okkur, við værum með minni rödd en að sama skapi yrðum við ekki fyrir eins miklum ofsóknum. Það er ógnandi að vera í hópi sem stendur saman.“

Þuríður segist þó að einhverju leyti geta skilið óttann. „Ég hef sjálf verið með fordóma fyrir konum sem eru að reyna að koma sér á framfæri og sé eftir því núna.“

Allt varð vitlaust eftir Kastljósið og Gísla Martein

Geisladiskum með Eminem og Rottweilerhundum var mikið snúið í geislaspilara Þuríðar á hennar yngri árum svo hún átti sér fyrirmyndir í rappheiminum áður en hún byrjaði en segist samt hafa verið alveg blaut á bakvið eyrun þegar þær tróðu fyrst upp í Kastljósi. „Ég samdi bara rapp í bakherberginu og hafði enga hugmynd um að ég væri að færa einhver gildi með því sem ég var að gera. Svo varð allt vitlaust,“ rifjar hún upp.

Mörgum er einnig minnisstætt þegar flokkurinn rappaði í þætti Gísla Marteins og gekk framaf Ágústu Evu Erlendsdóttur sem yfirgaf settið fljótlega eftir að þær mættu. „Það varð allt brjálað eftir þátt Gísla Marteins þó ætlunin hafi ekki verið að ögra,“ segir Steinunn.

„Fram að þessu höfðum við lengi verið stimplaðar sem femínísk hljómsveit og það var sett mikil ábyrgð á okkar herðar. Á sama tíma var okkur úthýst fyrir að vera með boðskap,“ segir hún. Þær ákváðu því að einbeita sér að nýjum umfjöllunarefni og fóru að leggja áherslu á djamm og fyllerí í textum sínum. „Meira að segja í viðtölum reyndum við að beina umræðunni í aðra átt þegar við vorum spurðar um femínisma. Við sögðum: Spurðu mig heldur um tónlistina.“

Föttuðu ekki að þær væru að ögra

Þær segjast þó aftur vera byrjaðar að fagna því að vera femínistar á ný og séu óhræddar við að líta á sig sem femíniskt band. „Þegar kona kemst í sviðsljósið í samfélaginu þá er oft sett á hana mikil ábyrgð og hún krafin um að vera fyrirmynd fyrir börnin,“ segir Þuríður og nefnir Sölku Sól sem dæmi. „Strákar lenda ekki eins í þessu, það segir til dæmis enginn við Herra Hnetusmjör að hann megi ekki reykja á almannafæri. Salka Sól mætti það hinsvegar aldrei.“

Vandinn segja þær felast meðal annars í því að stelpur hafi ekki leyfi til að vera fjölbreyttar. „Við erum alls ekki eins. Ég vil til dæmis vera í japönsku stelpubandi en Ragga Hólm er einhver lessa úti í bæ,“ segir Þuríður.

Hún segir fólk því þreytast á að reyna að setja þær í box. „Ég fann rosalega fyrir því að ég væri stelpa þegar fólk varð brjálað yfir að ég væri að rappa í Kastljósinu. Ég sá það ekki þannig, ég sá bara sjálfa mig sem rappara sem væri ekki góð en þó að gera þetta. Svo urðu allir svo reiðir. Ég fattaði ekki að ég væri að ögra.“

Nýjasta lag sveitarinnar verður frumflutt í þættinum Pabbahelgar á sunnudaginn. Hún er hljóðblönduð af Sölku Valsdóttur sem er yngsta Reykjavíkurdóttirin sem semur taktana og sér um upptökur á plötunni sem kemur út í apríl. Lagið kemur opinberlega út í nóvember en næsta lag af plötunni kemur út í janúar. „Þetta er allt mjög vel skipulagt af umboðsmanni okkar,“ segir Steinunn kímin að lokum.

Rætt var við Steinunni og Þuríði Blæ í Morgunútvarpinu og má hlýða á innslagið í spilaranum efst í fréttinni. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Reykjavíkurdætur - Beatles og aðrir bítlar

Tónlist

Reykjavíkurdætur hljóta nýju MMETA verðlaunin

Tónlist

Reykjavíkurdætur tilnefndar til verðlauna ESB