Gífurleg vonbrigði yfir að sonurinn yrði ekki hetjutenór
Þremur árum síðar kemur út platan Stuð sem inniheldur ódauðlega diskósmelli á borð við TF Stuð og Ljúfa líf sem var fyrsta lagið sem Palli heyrði með sjálfum sér í útvarpi sem hann hringdi ekki inn og bað um sjálfur. Það var stór stund í lífi söngvarans að geta hækkað í útvarpinu og hlýtt á sjálfan sig. Stoltur spilaði hann plötuna fyrir foreldra sína sem kveiktu ekki á diskóinu, allavega ekki um leið. „Mamma var að prjóna og pabbi reykti vindil. Þau horfðu bæði bara í gaupnir sér og gátu ekki horft framan í mig,“ rifjar hann upp og skellihlær. „Þeim fannst ég vera að kasta hæfileikum mínum á glæ og urðu fyrir gífurlegum vonbrigðum með að ég yrði ekki hetjutenór. Þau botnuðu ekkert í þessu diskóbulli og föttuðu alls ekki húmorinn.“
„Diskóið kemur mér í gegnum daginn“
Páll Óskar ákvað í kjölfarið að hugsa sinn gang og komst að því að sá sem mætir slíkri andstöðu við það sem hann skapar frá sjálfum foreldrum sínum þarf að vera sterkur á svellinu. „Ég hugsaði með sjálfum mér: Vitiði, ég tengi við diskóið og diskóið gerir mig glaðan. Diskóið kemur mér í gegnum daginn og er tónlist lífsgleðinnar.“ Hann hélt því áfram að búa til þá tónlist sem hann sjálfur elskaði og þjóðin hreifst með og hrífst enn. Mörgum árum síðar kveikti faðir hans þó á perunni. Móðir þeirra Páls og Diddúar lést árið 1995 en faðir þeirra var farinn að hlusta á diskótónlist sonar síns og njóta hennar áður en hann kvaddi árið 2002.
Kann öll lögin enn utanbókar
Afmælistónleikar Páls verða í Háskólabíói og situr Páll sveittur um þessar mundir ásamt góðu fólki við að útsetja líf sitt. „Ég ætla að taka allt gamla draslið og syngja lög sem ég hef ekki sungið í tuttugu og fimm ár,“ segir hann spenntur. „Það er svo gaman að fara yfir þetta gamla dót og það kemur mér mest á óvart að ég kann þetta allt saman utanbókar enn þá þú veist, réttið mér bara míkrófóninn.“
Ástríða tónlistarmannsins fyrir tónleikahaldi fer vaxandi með ári hverju. „Ég hef alltaf elskað að troða upp en nú þegar maður er kominn á þennan aldur elska ég það bara meira því núna kikkar inn eitthvað þakklæti fyrir það að fá að vera hérna. Þetta er ekki sjálfgefið. Ég er að vinna vinnu þar sem atvinnuöryggið er núll og þú verður að halda þér við og enduruppgötva sjálfan þig.“
Enn að taka upp og búa til nýja tónlist
Fimmtugur er Páll Óskar alls ekki af baki dottinn og lofar hann aðdáendum sínum því að það er meira á leiðinni. „Ég er ekki búinn. Ég er enn að taka upp og vinna með góðu og spennandi fólki og ég ætla að vona að ég geti frumflutt eitt eða tvö lög á tónleikunum,“ segir hann leyndardómsfullur. „Bestu fréttirnar eru svo að þessi lög eru enn góð. Maður hefur ekki stjórn á því hvernig lög eldast en ég er rosalega þakklátur fyrir að mörg af þessum lögum eru enn að öðlast eigið líf. Stanslaust stuð frá árinu 1996 virkar enn þá og ég ætla að hafa svo gaman af þessu,“ segir hann að lokum.
Rætt var við Pál Óskar í Popplandi á Rás 2.