Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þátttaka ungs fólks ekki minni heldur öðruvísi

25.10.2016 - 18:02
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Ungu fólki finnst kosningarétturinn mikilvægur en það lítur ekki endilega svo á að það sé borgaraleg skylda þess að kjósa. Þetta segir Ragný Þóra Guðjohnsen, aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ. Hún varði nýlega doktorsrannsókn sem fjallar um sýn ungra Íslendinga, fjórtán og átján ára, á borgaralega þátttöku og það hvað einkenni góðan borgara. Ragný telur ekki að dregið hafi úr borgaralegri þátttöku ungs fólks hér á landi, heldur birtist hún með öðrum hætti en áður.

Kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið dvínandi. Í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2014 nýtti einungis helmingur ungmenna undir þrjátíu ára aldri rétt sinn til að kjósa. 

„Það er áhyggjuefni. Í kjölfarið hefur fólk verið að skoða hvers vegna það er og hvort það þýði að ungt fólk hafi ekki mikinn áhuga á að taka þátt. Ég tel að skýringin sé frekar sú að þátttökumynstur unga fólksins er að breytast, áherslurnar liggja frekar annars staðar. Þeim finnst enn mikilvægt að nota rétt sinn til að kjósa. Þau eru kannski uppteknari af því að þetta er þeirra réttur, það hefur kannski orðið ákveðin gildisbreyting. Þau vilja taka þátt í ákveðnum málefnum sem þau hafa áhuga á, hafa meira frelsi til að nota réttinn þegar þau vilja en horfa kannski ekki á þetta sem borgaralega skyldu að kjósa.“

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Réttur eða skylda?

Er óformleg þátttaka jafn mikilvæg og formleg?

Ungt fólk hér á landi hefur upp á síðkastið sett ýmis mál á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar með óformlegum hætti, svo sem herferðum á samfélagsmiðlum. Hefndarklám og vald kvenna yfir eigin líkama var til dæmis á hvers manns vitorði eftir brjóstabyltinguna í fyrravor. En er hægt að leggja þátttöku í herferð á samfélagsmiðlum og þátttöku í starfi ráða eða samtaka að jöfnu? 

„Ef þú fylgir einhverjum ummælum af Facebook eftir þá getur það orðið að stórmáli sem endar í fréttunum um kvöldið eða umræðufundi sem almenningur getur mætt á. Það getur líka bara endað á Facebook. Stundum getur þessi óformlega þátttaka verið mjög merkingarbær fyrir unga fólkið, stundum ekki. Það sama á við um formlega starfið. Þú getur komið inn í það, tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi og farið út án þess að taka þátt í mikilli umræðu eða velta fyrir þér gildum stofnunarinnar. Við þurfum bara, hvort sem þátttakan er formleg eða óformleg, alltaf að hafa í huga að stækka þátttökuna þeirra með að bjóða þeim upp á umræðu, gefa þeim vettvang til þess að tjá sig og hafa áhrif.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Baráttan fyrir frelsun geirvörtunnar.

Berjast sem einstaklingar fyrir hagsmunum heildarinnar

Stundum er talað um sjálfhverfu kynslóðina. Vill ungt fólk í dag frekar að borgaraþátttaka þess sjáist og vill það síður vinna á bak við tjöldin? 

„Þeir sem hafa verið að skoða ástæður þess að það hefur orðið breyting á þátttökumynstrinu hjá ungu fólksins hafa meðal annars verið að skoða hvort það hafi orðið breyting á gildum þess. Það hefur verið umræða um að ungt fólk sé sjálfhverfara í dag, ekki jafn samfélagslega sinnað. Niðurstöður þessara rannsókna hafa bent til þess að ungt fólk hafi frekar að leiðarljósi það sem er kallað á ensku self-expression values eða sjálfstjáningargildi. Þau vilji tjá sig um það sem þau brenna fyrir og hafa ákveðið frelsi, meira frelsi en var. Þess vegna vilji þau síður skrá sig sem formlega þátttakendur í félögum eða pólitísku starfi. Þau velji sér frekar sín verkefni og þau tímabil sem þau eru virk á. Þetta endurspeglast í þátttökunni þeirra. Þetta rímar að mörgu leyti við þá umræðu en þetta getur líka verið jákvætt. Við sjáum að þetta unga fólk sem brennur fyrir ákveðnum málefnum getur komið ýmsu til leiðar. Í einstaklingsáherslu þeirra eru þau oft að berjast fyrir réttindum stóra hópsins, samfélagsins.“

Pólitísk þátttaka ungra Íslendinga fær falleinkunn

Í nýrri rannsókn sem unnin var á vegum Skrifstofu breska samveldisins kemur fram að Ísland sé eftirbátur nágrannaríkja þegar kemur að pólitískri og borgaralegri þátttöku ungs fólks. Rannsóknin nefnist Global youth development index, þetta er yfirlitsrannsókn sem tekur til stöðu ungs fólks í 183 ríkjum. Hverju og einu þeirra er gefin einkunn sem byggir á fimm meginstoðum; pólitískri þátttöku ungs fólks, heilbrigði, atvinnumöguleikum ungs fólks, menntun og borgaralegri þátttöku. Þegar á heildina er litið er staða Íslands sterk, það fær 7,7 stig af tíu. Þegar litið er til einkunnar í hverjum flokki kemur í ljós að Ísland stendur sérstaklega vel þegar kemur að menntun, er í sjötta sæti á heimsvísu, og mjög vel þegar kemur að heilbrigði og atvinnumöguleikum. Fyrir pólitíska þátttöku fær Ísland aftur á móti falleinkunn, 3,9, sem er nokkuð undir heimsmeðaltalinu 5,7. Einkunnin fyrir borgaralega þátttöku er litlu betri eða 5,4, þó einnig undir heimsmeðaltali.

 

Eftirbátur flestra Evrópuríkja

Í flestum ríkjum Evrópu telst pólitísk þátttaka ungs fólks mikil eða mjög mikil, þau státa af einkunnum á bilinu frá sex til níu. Ísland sker sig úr ásamt Póllandi, Tékklandi, Hollandi og nokkrum ríkjum á Balkanskaga. Ísland fellur betur í hópinn þegar kemur að borgaralegri þátttöku. Unga fólkið hér tekur þó minni þátt en ungt fólk í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Ísland sker sig ekki jafnmikið úr þegar kemur að borgaralegri þátttöku, skor Íslands þar er þó mun lægra en þeirra ríkja sem við berum okkur saman við, hún telst mikil í Svíþjóð og Danmörku og mjög mikil í Noregi, Finnlandi og Bretlandi. En hvað er það sem liggur þessum niðurstöðum til grundvallar? Í skýrslu um rannsóknina kemur fram að pólitísk þátttaka ungs fólks sé metin út frá þremur þáttum; hvort stjórnvöld í landinu hafi samþykkt stefnu um málefni ungs fólks á landsvísu, hvort ungmenni séu frædd markvisst um kosningaréttinn og loks því hversu hátt hlutfall ungmenna gefur upp pólitíska afstöðu í spurningakönnunum. Að hluta til má rekja lága einkunn Íslands til þess að hér á landi hefur ekki verið samþykkt formleg stefna í málefnum ungs fólks. Slík stefna hefur verið samþykkt annars staðar á Norðurlöndunum.

Hjálpa síður ókunnugum

Borgaraleg þátttaka er metin út frá því hversu hátt hlutfall ungmenna segist hafa unnið sjálfboðavinnu og hversu hátt hlutfall ungs fólks segist hafa rétt ókunnugum hjálparhönd. Ekki er spurt um annars konar þátttöku í starfi á vegum skóla, félagasamtaka eða íþróttahreyfinga. Ragný segir að þátttaka í sjálfboðastarfi sé mikil hér á landi og í nágrannaríkjunum en sjálfboðaliðastarfið fari frekar fram innan æskulýðsfélaga og íþróttafélaga en góðgerðarfélaga. Þessu sé öfugt farið á Bretlandi. Það skýri hugsanlega hvers vegna íslensk ungmenni segist síður hafa rétt ókunnugum hjálparhönd. 

„Þetta minnir okkur líka á að við þurfum að skapa unga fólkinu okkar fleiri tækifæri til þátttöku, til dæmis í góðgerðarstarfi. Það eru ekki mörg tækifæri fyrir börn og ungmenni á þessu sviði,“

Segir Ragný. 

Rannsókn Ragnýjar leiddi í ljós að viðhorf íslenskra ungmenna til borgaralegrar þátttöku var jákvæðara eftir því sem samkennd ungmennana var meiri, uppeldishættir foreldra skiptu sömuleiðis máli. Þá reyndist viðhorf ungmenna sem höfðu tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi mun jákvæðara en þeirra sem ekki höfðu gert það.

Unga fólkið vill meiri völd

Þau ungmenni sem Ragný ræddi við nefndu flest að þau myndu vilja fá fleiri tækifæri til þess að taka þátt í samfélaginu. 

„Það var mjög áberandi í þeirra svörum að þau kölluðu eftir því að fá fleiri tækifæri til að láta rödd sína heyrast og hafa þannig meiri áhrif. Það hafa orðið jákvæðar breytingar, með ungmennaráðum í sveitarfélögum og nemendaráðum í skólum. Þar hefur ungt fólk fengið tækifæri til að hafa áhrif á málefni ungs fólks. Við þyrftum að sjá fleiri slík tækifæri. Þá þyrfti að skapa þeim aukinn vettvang til þátttöku, þar sem þau fengju að láta rödd sína heyrast. Við hefðum getað gert það í auknum mæli núna, fyrir kosningar, að leyfa rödd unga fólksins að heyrast.“

Hún segir að í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla sé lögð áhersla á mikilvægi þess að efla borgaravitund og þátttöku ungs fólks. 

„Stefnumótunin liggur fyrir, hitt er svo annað, hvort við höfum tækifæri í starfinu frá degi til dags til að gera þetta. Það þarf að efla þekkingu þeirra og skilning á þessum borgaralegu málum og veita þeim tækifæri til að fara út á vettvang, þau tækifæri hafa verið of fá og jafnframt er held ég oft erfiðleikum bundið fyrir skólafólk að finna þessu stað í skólastarfi þar sem stundaskráin er þegar full en við þurfum að gera það einhvernveginn. Það hefur verið svolítið í lífsleiknitímum og innan ýmissa námsgreina en það þyrfti að virkja það betur.“

Þá nefnir hún að tækifærin séu víðar en í skólunum, svo sem í félagsmiðstöðvum skólanna, í íþrótta- og æskulýðsstarfi. 

„VIð þurfum kannski að hugsa um það, óháð því hvernig samfélagið er sett og hvar áherslurnar liggja, hvort að þær eru í íþróttastarfi hjá okkur, að setja samfélagsvitundina inn í þau verkefni sem eru efst á baugi hjá ungu fólki á hverjum tíma.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV