Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þarf að setja tjáningu auknar skorður?

03.06.2016 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atburðirnir við Ýmishúsið vöktu mikla eftirtekt í vikunni. Það er að ýmsu að hyggja í umfjöllun fjölmiðla um minnihlutahópa, sérstaklega þá sem eiga undir högg að sækja. Virkir í athugasemdum þurfa líka að vanda sig. Flest hatursglæpamál sem borist hafa lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu undanfarið varða hatursfull ummæli um múslima sem fallið hafa í netheimum. Blaðamaður Guardian segir kommentakerfi af hinu góða. Að við eigum að fagna þeim en jafnframt hafa á þeim ákveðna stjórn.

 

Ásakanir um fáfræði gengu á báða bóga

Í vikunni voru meðlimir Menningarseturs múslima bornir út úr Ýmishúsinu og einn úr þeirra hópi veittist að framkvæmdastjóra Stofnunar múslima, sem á húsið. Allt náðist á myndband. Í kommentum við fréttir um atburðina tókust tveir meginhópar á. Meðlimir annars þeirra sögðu múslima ógn við íslenskt samfélag og meðlimir hins fordæmdu það sjónarmið. Ásakanir um fáfræði gengu svo á báða bóga.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Við Ýmishúsið á miðvikudag.

„Nú þegar öll Evrópa logar í illdeilum þessa framandi fólks þá vilja sumir Íslendingar ólmir kalla þennan ófögnuð yfir okkur, eins og við höfum ekki við nóg að slást nú þegar?“

„Verjum Ísland, látum það ekki fara niður sama skólpræsið og Svíþjóð er að sogast ofan í.“

„Það á að troða öllum múslimum inn í þetta ógeðslega hús og læsa og sprengja það svo til helvítis, Icelandic power.“

Hefði viljað sjá öðruvísi fjölmiðlaumfjöllun

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi og mannfræðingur, fer fyrir hatursglæpaverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

 

„Ég skil það, ef fjölmiðlar telja eitthvað fréttnæmt, að þeir vilji birta fréttir um það, að sjálfsögðu, en ég hefði kosið að fréttaflutningurinn hefði verið með öðrum hætti og það hefði meira tillit verið tekið til þessara einstaklinga sem voru þarna. Maður spyr sig að því hvort það hefðu verið myndbirtingar í fjölmiðlum ef um hefði verið að ræða átök á milli innfæddra, etnískra Íslendinga, hvort andlitin hefðu verið blörruð í það minnsta? En ég ætla ekki að fella neina dóma um hvernig fjölmiðlar starfa, það er ekki mitt hlutverk en persónulega hefði ég kosið að það hefði verið farið varlegar í þessa umræðu.“

Segir Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi sem fer fyrir hatursglæpaverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmiðlar verði alltaf að velta fyrir sér hvaða afleiðingar framsetning frétta getur haft.

Gagnrýndir fyrir að geta þjóðernis

Eyrún bendir á að ECRI, Evrópuráð gegn fordómum og umburðarleysi, hafi gagnrýnt íslenska fjölmiðla fyrir að geta sérstaklega þjóðernis og uppruna brotamanna í fréttum, það er í þeim tilfellum þar sem þeir eru ekki íslenskir. Þetta geti leitt til þess að almenningur fái á tilfinninguna að fólk af erlendum uppruna fremji frekar afbrot en fólk af íslenskum uppruna.

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA

Gervinhattadiskur.
 Mynd: David Ritter - RGBStock

Þetta feli ekki í sér þöggun

En eiga þá fjölmiðlar að ritskoða sig eða tala undir rós?

„Ég er ekki að meina að við eigum að vera með þöggun, tala undir rós eða vísvitandi leyna þjóðerni brotamanna. Ég bara velti því upp, og það væri gott að taka þá umræðu, hvort það sé nauðsynlegt.“

Mikilvægt að vinna traust minnihlutahópa

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf að beina sjónum sínum sérstaklega að hatursglæpum í janúar. Síðan hafa fulltrúar hennar unnið að því að mynda tengsl við minnihlutahópa og vinna traust þeirra. Reynsla annarra Evrópulanda hefur nefnilega verið sú að meðlimir minnihlutahópa veigri sér við að tilkynna hatursglæpi og sumir vantreysti lögreglunni. Almennt vantar upp á að hatursglæpir séu tilkynntir. 

„Aðeins lítill hluti hatursglæpa rata inn á borð lögreglu og ef það eru skoðaðar þolendakannanir í Evrópulöndum og þær bornar saman við tölfræði lögreglu kemur þetta skýrt í ljós. Ég get nefnt dæmi frá Bretlandi, á sama tíma og það voru tilgreind 240 þúsund hatursglæpir í þolendakönnun komu 80 þúsund hatursglæpir inn á borð til lögreglu.“

Áskoranir fylgja lögreglustörfum í fjölbreyttu samfélagi

Eyrún segir ýmsar nýjar áskoranir fylgja lögreglustörfum í fjölbreyttu samfélagi. Lögreglan sé að vakna til vitundar um að hún þurfi að spegla samfélagið. 

„Hún þarf að hafa þekkingu á öllu samfélaginu, vera fróð um samfélag sitt og fá samfélagslega fræðslu í námi þannig að þau þekki til ólíkra trúarbragða, siða hefða og annað slíkt.“

Þannig hefur lögreglan til dæmis leitað til Samtakanna 78 og beðið fulltrúa þeirra að fræða lögregluna um málefni hinsegin fólks. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

 

Netverjar hneyksluðust á sokkunum

Margir hneyksluðust á því á kommentakerfum að lögreglumenn hefðu farið úr skónum áður en þeir fóru inn í moskuna, múslimar ættu ekki að fá sérmeðferð, aðrir sögðu það virðingarvott. Þegar einn meðlima Menningarseturs múslima réðst gegn framkvæmdastjóra Stofnunar múslima, sem á húsið, með steypustyrktarjárni þurftu lögreglumennirnir að bregðast skjótt við og hlupu því út á sokkaleistunum. 

„Þarna féllu laganna verðir heldur betur í áliti hjá mér. Þarna má sjá hversu hræddir menn er orðnir við að fá á sig rasista stimpilinn. Láta virkilega hafa sig úr skónum. Þvílíkir aumingjar og undirlægjur.“

„Þetta er nú meiri fíflagangurinn að fara úr skónum er ekkert annað en undirgefni undir ISLAM eru Sharía lög í þessu landi eða hvað?“

Nýjustu málin varða öll múslima

Frá áramótum hafa flest hatursglæpamál sem borist hafa lögreglunni varðað hinsegin fólk. Nú liggja níu mál á borði hatursglæpafulltrúa lögreglunnar, fjögur eða fimm til viðbótar eru komin til ákærusviðsins. Meirihluti nýrra mála á borði Eyrúnar varða meint hatursbrot gegn múslimum. Það bendir hugsanlega til þess að lögreglunni hafi tekist að ná til þess hóps og vinna traust hans. Flest þessara mála tengjast hatursfullri tjáningu á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum en það eru líka alvarlegri mál á borð við líkamsárásir. 

Erfitt að hafa bara einn dóm

Enn sem komið er hefur aðeins einn dómur fallið um hatursfulla tjáningu hér á landi, hann var staðfestur af Hæstarétti árið 2000. Sá dæmdi viðhafði niðrandi ummæli um þeldökkt fólk í fjölmiðlum. 

„Það er náttúrulega erfitt að hafa bara einn dóm, þó hann sé skýr að öllu leyti því tjáning er svo mismunandi og getur verið svo margskonar. Það væri gott ef fleiri dómar hefðu fallið í þessum málum þannig að við gætum verið öruggari með hvar við drögum línuna.“

Þarf að ritskoða kommentakerfin betur?

Á næstunni skýrist hvort málin sem á borði Eyrúnar liggja fá meðferð innan dómskerfisins. En hvað finnst henni um kommentakerfin? Þurfa fjölmiðlar að ritskoða umræðu þar í meiri mæli?

„Mögulega þurfa fjölmiðlar eitthvað að endurskoða verklagsreglur ef það verður dæmt í þessum málum. Það er þá þeirra að ákveða hvernig það verður. Í síðustu viku sat ég fyrirlestur hjá bandarískum félagsfræðiprófessor sem er búinn að skoða þessi mál mikið í Bandaríkjunum. Hann segir að fyrirtækin séu í raun komin fram úr lagarammanum. Þau eru farin að setja sér ákveðnar viðmiðunarreglur og reglur til að takmarka hatursfulla tjáningu því þau hafa upplifað að auglýsendur og fyrirtæki vilja ekki auglýsa vörur sínar á vettvangi þar sem fer fram rasískt tal.“

Takmörkum við ekki nóg?

Eyrún bendir á að skýr ákvæði séu í stjórnarskrá og almennum hegningalögum um að takmarka megi tjáningarfrelsi við vissar aðstæður svo sem til að vernda almennt siðgæði, réttindi fólks og mannorð. Menn eru frjálsir skoðana sinna en þurfa að ábyrgjast þær fyrir dómi.

„Það má setja skorður á tjáningu manna og það er þá hugsað með þeim hætti að það sé réttur hvers einstaklings í lýðræðissamfélagi að þurfa ekki að umbera fordómafulla tjáningu gegn sér. Það er ekki aðeins verið að horfa til einstaklingsins þegar tjáning er takmörkuð heldur líka samfélagsins í heild því þegar hatursfullri tjáningu er beitt gegn minnihlutahópum geta þeir orðið jaðarsettir, beittir þöggun og sjálfkrafa þá ekki hluti af þessu lýðræðislega samfélagi.“

Hún segir að hér á landi sé stjórnarskrárvarinn réttur til tjáningar fólki mjög hugleikinn. Við séum ekki nógu meðvituð um takmörkunarheimildirnar. 

Ekki innleitt sérstaka refsihækkunarheimild

Ólíkt mörgum Evrópulöndum hefur Ísland ekki innleitt refsihækkunarheimild í hegningarlög um að hækka megi refsingu ef glæpur er framinn að öllu eða einhverju leyti vegna neikvæðra viðhorfa eða fordóma brotamanns í garð þess sem fyrir glæpnum verður. Strangt til tekið tengjast hatursglæpir því einungis tveimur greinum hegningarlaganna og flest mál á borði Eyrúnar tengjast þeim greinum. Í annarri þeirra er fjallað um að ekki megi smána og rægja einstaklinga eða hópa vegna þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, kynþáttar, kynhneigða eða kynvitundar og í hinni segir að ekki megi neita fólki um þjónustu eða hefta aðgengi þess að opinberum samkomustöðum á grundvelli sömu þátta. Eyrún segir að það hafi komið til umræðu að innleiða þessa refsihækkunarheimild gerist það liggi allur hegningalagabálkurinn undir. Hún segir þó að inn á borð hatursglæpafulltrúa hafi borist mál, sem tengjast annars konar brotum sem talin eru hafa verið framin á grunni fordóma. Ekkert þessara mála hefur enn sem komið er farið í gegnum dómskerfið og því óljóst hvernig þau koma til með að fara. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Kate Lyons, blaðamaður á Guardian.

Rannsökuðu 75 milljónir kommenta

Breska blaðið Guardian vann nýlega viðamikla rannsókn á því í hvaða samhengi hatursfullar athugasemdir birtust helst í kommentakerfinu á vefsíðu þeirra. Hún er í raun sú fyrsta sinnar tegundar. Rannsakendur fóru yfir 75 milljónir kommenta sem skrifuð voru á 10 ára tímabili, frá árinu 2006, og greindu sérstaklega þau sem svokallaðir spjallstjórar miðilsins höfðu fjarlægt vegna neikvæðs innihalds. Í ljós kom að slík komment birtust einkum við greinar sem skrifaðar höfðu verið af konum eða fólki sem tilheyrir minnihlutahópum. Af þeim tíu blaðamönnum sem fengu helst að heyra það í kommentakerfinu voru átta kvenkyns, þrír samkynhneigðir og fimm þeldökkir. Samt er fréttastofa Guardian frekar hefðbundin, segir Kate Lyons, einn þeirra blaðamanna sem kom að verkefninu, meirihluti starfsmanna er karlkyns. Konur sem skrifuðu fréttir um málaflokka sem karlkyns blaðamenn sinna í meiri mæli; svo sem íþróttafréttir, fengu líka að heyra það. Kate ályktar sem svo að einhverjum karlkyns lesendum finnist þær vera að seilast inn á yfirráðasvæði karla og spilla því. Þeir vilji vernda þetta svæði. 

Stórkostleg samfélög verða til á kommentakerfinu

Stundum er því haldið fram að kommentakerfi séu rætin og neikvæð í eðli sínu. Lyons tekur ekki undir það. Margir séu virkir í athugasemdum á síðunni, það skapist stórkostleg samfélög, neðan línu, eins og hún kallar það, þetta sé gjarnan jákvæður vettvangur fyrir skoðanaskipti. Það séu þó ákveðnir eldfimir málaflokkar þar sem umræðan geti farið úr böndunum. Innflytjendamál, málefni flóttamanna, samskipti Ísraels og Palestínu, svo eitthvað sé nefnt.

Kommentum fjölgað verulega

Hjá Guardian starfa spjallstjórar sem hafa eftirlit með spjallinu og fjarlægja niðrandi athugasemdir. Þeir fá sendar tilkynningar áður en fréttir um viðkvæm málefni eru birtar svo þeir geti fylgst sérstaklega með umræðum við þær. Upp á síðkastið hefur athugasemdunum fjölgað svo mikið að forsvarsmenn miðilsins hafa ekki við að ráða inn nýja spjallstjóra, því er ekki hægt að bjóða lesendum að skrifa komment við hverja einustu frétt. 

 

Stafli af dagblöðum.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock

Sumir sleppa því að skrifa um rasisma og mismunun

En getur umræðan haft hamlandi áhrif á blaðamenn miðilsins. Hverfa þeir frá því að fjalla um ákveðin mál vegna þess að þeir vita að viðbrögðin í kommentakerfinu kunnu að verða harkaleg? Lyons segir að hugsanlega hafi athugasemdirnar áhrif, ekki á fréttir um málefni flóttamanna eða innflytjenda heldur hafi blaðamenn athugasemdirnar frekar í huga þegar þeir skrifa persónulega pistla. Sumir eru búnir að gefast upp á því að skrifa um reynslu sína af mismunun vegna kyns eða litarháttar. Sumar konur séu til dæmis hættar að skrifa um femínisma þar sem iðulega sé grafið undan því sem þær segja og þær minntar á að margar konur eigi nú erfiðara en þær, enn séu konur umskornar og þær seldar mansali. Þetta sé bara væl. Greinar um rasisma fái oft svipuð viðbrögð. Það þreyti fólk. Lyons segir þetta alvarlegt mál.  

Fagna beri kommentakerfum

Þrátt fyrir hatur og neikvæðni telur Lyons að það beri að fagna kommentakerfunum. Þau sjónarmið sem þar komi fram séu oft til þess fallin að efla blaðamennsku. Internetið hafi breytt fjölmiðlun til frambúðar, grasrótin hafi fengið aukið vægi, blaðamenn séu ekki háir herrar þeir eigi í virkum samskiptum við lesendur sína og fái viðbrögð við greinum sem þeir skrifa þegar í stað. 

Þýðir lítið að loka kommentakerfinu

Veruleikinn sé breyttur, vissulega sé hægt að loka kommentakerfinu en það sé ekki hægt að skrúfa fyrir umræðuna á miðlum á borð við Facebook, Reddit eða Twitter. Þar falli mun harðari athugasemdir. Það kann reyndar að breytast á næstunni, Facebook, Youtube og Twitter skrifuðu nýlega undir samning við Evrópusambandið um að berjast gegn hatursáróðri á vefsvæðum sínum. Til þess þarf þó sennilega her spjallstjóra, segir Lyons. Þetta verður erfitt verkefni. 

22 þúsund athugasemdir

Klukkan fjögur í dag höfðu 22 þúsund athugasemdir verið birtar á vef Guardian. Þar af höfðu spjallstjórar eytt tæplega fjögurhundruð. Persónulegar árásir líðast ekki og hatursáróður ekki heldur. En er alltaf auðvelt að greina þau ummæli sem falla í þessa flokka frá harðri gagnrýni. Getur verið að ummæli þeirra sem eru færir um að setja fram harða gagnrýni á fágaðan hátt fái frekar að standa á meðan ummæli þeirra sem nota skammaryrði eru fjarlægð. Lyons segist ekki öfunda spjallstjórana. Spjallstjórarnir fylgi þó skýrum verklagsreglum, reyni að fara sér að öllu með gát og stöðva ekki rökræður sem eigi rétt á sér. Hún segir að vissulega séu sum skilaboð fjarlægð samstundis, innihaldi þau ákveðin orð, önnur þurfi að lesa yfir. Spjallstjórarnir séu  engin flón, þeir greini inntakið í skilaboðunum. 

Tók viðtöl við virka í athugasemdum

Lyons tók viðtal við nokkra virka í athugasemdum, það var hluti af rannsókninni. Reyndur athugasemdasmiður sem hún ræddi við sagði að hann upplifði ákveðna ábyrgðartilfinningu, hann reyndi að ráðleggja þeim sem kæmu nýir inn og tjáðu sig með óæskilegum hætti og lentu í því að kommentum þeirra var eytt. Honum fannst mikilvægt að allir fengju að tjá sig. Lyons vonar að umræðan færist á hærra plan, það að óæskilegum athugasemdum sé eytt verði ekki til þess að frekar verði þaggað niður í þeim sem ekki búa yfir mikilli menntun eða reynslu af því að tjá sig opinberlega. 

Hvernig vef viljum við?

Yfirskrift verkefnis Guardian var: Hvernig vef viljum við? Lyons er umhugað um internetið. Hún segir mikilvægt að velta því fyrir sér hvort netið, eins og það er í dag, falli okkur í geð. Hvort það þurfi ekki að hafa ákveðnar grunnreglur og viðmið um hvernig skuli tjá sig þar, til að vefurinn verði öruggur staður. Bendir á að við getum mótað netið í stað þess að flækjast í því. 

Eyrún myndi einnig vilja sjá breytingar. Hún segir mikilvægt að við förum að íhuga betur hvað við látum út úr okkur í netheimum, við eigum ekki að gera greinarmun á því sem við segjum við fólk þar og því sem við segjum við það augliti til auglitis. 

Myndavél, aðdráttarlinsa, ferðatölva og kaffibolli.
 Mynd: Pixabay
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV