Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Þarf að leiða fram þingvilja

28.08.2013 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti Alþingis telur að Alþingi þurfi með formlegum hætti að samþykkja breytta stefnu varðandi aðildarviðræður Íslands við ESB. Forsætisnefnd Alþingis fundaði í gær um yfirlýsingar utanríkisráðherra, þess efnis að ríkisstjórnin sé óbundin af samþykktum fyrra þings um málið.

Forsætisnefnd Alþingis fundaði í gær vegna þeirra yfirlýsinga Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, að ríkisstjórnin sé ekki bundin af ályktun fyrra þings um að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.

Gunnar Bragi sagði í viðtali við RÚV í síðustu viku að engin ákvörðun hefði verið tekin um að leggja til við Alþingi að viðræðum yrði slitið en að lagaálit, sem unnið hafi verið fyrir hann í utanríkisráðuneytinu, segði að ríkisstjórnin væri ekki bundin af fyrri ákvörðunum um þetta mál.

Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að almennt falli þingsályktanir ekki niður eftir kosningar með nýju þingi, en að annað geti átt við um ályktanir sem fari gegn vilja nýs meirihluta.

„Eins og allir sjá hvað þetta mál áhrærir, að samþykkt Alþingis frá 2009 er mjög í ósamræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Þá þarf auðvitað að leiða fram þennan þingvilja með formlegum hætti og ég teldi eðlilegast að gera það með þingsályktunartillögu sem Alþingi tæki þá afstöðu til,“ segir Einar Kristinn. 

Kristján Möller, fyrsti varaforseti Alþingis, telur að ummæli utanríkisráðherra hljóti að vera byrjendamistök. Hann minnir á að starfað hafi verið eftir mörgum stefnumótandi þingsályktunum þó meirihluti sitjandi þings kunni að hafa verið þeim andvígur. Dæmi um slíkt hafi verið ákvörðun Alþingis frá 1999 um að hefja aftur hvalveiðar sem og ályktun um aðild Íslands að NATO.

„Mitt mat er það að það sé sameiginlegur skilningur allra í forsætisnefnd að þessu verði ekki breytt nema með nýrri þingsályktunartillögu og nýrri atkvæðagreiðslu. Það þýðir það að utanríkisráðherra hefur verið rekinn til baka með þessa geðþóttaákvörðun og vitleysishugmynd að gera þetta einhliða á sínu skrifborði,“ segir Kristján Möller.