Þarf að hefja nýtt skógræktarátak

14.09.2017 - 12:36
Mynd: Rúnar Snær Reynisson Rúnar Sn / RÚV RÚV
Hafnfirðingurinn og skógræktarmaðurinn Jónatan Garðarsson hefur orðið vitni að miklu breytingum á gróðurfari á sinni ævi – þó ekki sé hann ýkja gamall. Þegar Jónatan fór með fjölskyldunni barnungur að Hvaleyrarvatni komu þau sér fyrir með nesti á einni torfu við vatnið. Engin tré voru sjáanleg. Ræktunarstarfið var þó hafið og á næstu árum óx þarna upp gróskumikill skógur.

Jónatan Garðarsson er gamalreyndur útisvistarmaður og hefur lengi starfað með Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar. Nú hefur hann tekið við formennsku í Skógræktarfélagi Íslands. Hann lýsti á Morgunvaktinni hvaða breytingar hafa orðið á Íslandi eftir að fór að hlýna að loknu kuldaskeiði, draga úr beit og skipulögð landgræðsla hófst og skógrækt. Enn er þó verk að vinna: „Ef við tökum saman allt kjarrlendi, allan ræktaðan skóg, þá þekur það innan við 2% af landinu.“ Þrátt fyrir að svona lítill hluti landsins er skógi vaxinn þá heyrist jafnvel stundum sagt að menn megi ekki fara offari í skógrækt – vernda þurfi sandana og auðnina. Jónatan segir að ræða þurfi andstæð sjónarmið. Skógræktarfólk vilji að skógræktin sé í sátt við landið. „Ástæðan fyrir því að ég kem inn í skógræktina á sínum tíma var að ég fór að malda í móinn yfir því að búið væri að planta trjám í gamlar þjóðleiðir og gamlar minjar. Þá var mér náttúrulega kippt inn – og ég kominn í stjórn áður en ég vissi af!“

 

Það eru ólíkar skoðanir á því hvort þessi eða hin trjátegundin hæfi landinu. Margir vilja ekki sjá grenitré á Þingvöllum eða aspir sem skyggja á sýn til fjalla. „Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að velta þessu fyrir okkur. Við eigum að gera skipulag, ekki planta trjám bara einhvers staðar. Við eigum ekki að fela minjar, eða skemma náttúruminjar. Ekki eyðileggja góð útivistarsvæði, þar sem eru t.d. góðar flatir. Það á ekki endilega að planta trjám í öll tún á Íslandi,“ segir nýr formaður Skógræktarfélags Íslands. Hann bendir á að áður en ráðist er í stærri framkvæmdir fari fram mat á umhverfisáhrifum. Svipað þurfi að gera varðandi skógrækt. „Það á að vega þetta og meta. Hvaða tegund eigi heima hvar.“

Skógurinn hreinsar loftið með því að binda kolefni og er því mikilvægur sem mótvægi við loftslagsbreytingar. En Íslendingar hafa á liðnum árum gefið eftir í þessum efnum. Eftir að átak var hafið með stuðningi ríkisins í kringum árið 1990 voru gróðursett yfir milljón trjáa á ári. Úr þessu dró í Hruninu og hefur ekki enn náðst að gróðursetja jafn mikið og áður. „Nú er betra ástand og það er mín skoðun og margra annarra að það ætti fara aftur í það að gróðursetja yfir milljón tré á hverju einasta ári. - Ég treysti á að stjórnmálamenn séu það vitrir að þeir átti sig á að þetta er bara hluti af því sem við þurfum að gera.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Jónatan Garðarsson - Morgunvaktin
Jónatan Garðarsson
odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi