Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þarf að borga skuld WOW til að fá vélina sína

31.03.2019 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Eigandi tveggja véla, sem voru í rekstri WOW air en eru nú á Keflavíkurflugvelli, hefur haft samband við Isavia og er áformaður fundur eftir helgi, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Önnur vélanna, TF-GPA, var kyrrsett eftir að WOW hætti starfsemi  og samkvæmt upplýsingum fréttastofu þarf eigandi vélarinnar annaðhvort að borga skuld WOW við Isavia eða leggja fram viðeigandi tryggingu. Engar kvaðir hvíla aftur á móti á hinni vélinni, TF-SKY.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst nemur skuld WOW við Isavia á bilinu 1,5 til 1,8 milljörðum íslenskra króna. Þegar eigandi vélarinnar hefur gert upp við Isavia mun hann að öllum líkindum lýsa kröfu upp á sömu upphæð í þrotabú WOW. Miklir hagsmunir eru í húfi en vélin sem er kyrrsett kostar á bilinu 15 til 18 milljarða íslenskra króna. 

Báðar vélarnar eru í eigu Air Lease Corporation sem var stofnað fyrir níu árum af bandaríska milljarðamæringinum Steve Hazy. Hann er einn af ríkustu mönnum heims en í fyrra átti félagið hans og leigði 271 flugvél, að því er fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV