Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þakplötur fuku og rúður brotnuðu í rokinu

26.02.2019 - 11:15
Mynd með færslu
Björgunarfélag Hornafjarðar hefur staðið í ströngu í dag. Mynd:
Veður er of vont til þess að hægt sé að tryggja þakið á fiskimjölsverksmiðjunni á Höfn í Hornafirði. Erlingur Brynjólfsson verksmiðjustjóri segir að starfsmenn hafi orðið varir við töluverð læti um klukkan átta í morgun og var þakið þá farið að fjúka.

Erlingur segir að björgunarsveitir og lögregla bíði eftir því að veðrinu sloti því það sé of hættulegt að reyna að festa þakið sem stendur. „Veðrið er mjög slæmt, þó við séum ýmsu vön,“ segir Erlingur. Hann segir að húsið sé frekar hátt, um 13 metrar, og þakplöturnar langar og breiðar og því erfitt að eiga við þær. 

Hann segir að búið sé að loka ökuleiðum þar sem gæti verið hætta á foki. „Ef það er eitthvað fok þá fýkur það frá byggð, byggð er allavega ekki í neinni hættu,“ segir Erlingur. Ekki sé starfsemi í húsinu, því enn standi á loðnuvertíð. 

Rúður í fimm bílum sprungu í rokinu 

Félagar í Björgunarfélagi Hornafjarðar hafa bjargað ferðamönnum úr fimm bílum í Hvaldal. Þar hefur verið svo hvasst í morgun að rúður sprungu í bílunum. Jóna Margrét Jónsdóttir, sem er í svæðisstjórn björgunarfélagsins, segir að veðrið sé mjög slæmt, mikil úrkoma og mjög hvasst. „Við fengum fyrsta útkallið um klukkan hálf fimm í  morgun og þá var farið að fjúka þak og í Hvaldalnum, sem er hérna rétt hjá Hvalnesi, var bíll sem rúður voru farnar að springa í. Við fórum aftur heim og svo fór að versna hérna upp úr klukkan níu og nú eru bara að hrynja inn stanslaust nýjar beiðnir,“ segir Jóna Margrét. Ferðamönnunum var boðið í kaffi á næsta sveitabæ.

Malbik losnaði af vegi í hvassviðrinu

Um 25 björgunarsveitarmenn eru að störfum núna á Höfn og svo gæti farið að fleiri verði kallaðir út. Malbik er farið að losna af veginum þar sem komið er út úr Almannaskarðsgöngum. Við Þorgeirsstaði og Volasel er mikið af grjóti á veginum. Þegar björgunarsveitarfólk fór í Lón í morgun að bjarga fólki úr bílum var stórt grjót, sem hafði fallið úr hlíðinni, á miðjum veginum, að sögn Jónu Margrétar.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:57 og viðtali við Jónu Margréti bætt við.

Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti þaksins hefur þegar fokið.
Mynd með færslu
 Mynd:
Húsið er um 13 metra hátt og þakplöturnar langar og breiðar.
Mynd með færslu
Rúður brotnuðu í þessum bíl í hvassviðrinu í morgun.  Mynd:
Mynd með færslu
Við Almannaskarðsgöng. Malbik losnaði af veginum í óveðrinu. Mynd: