Þakklátur Íslendingum fyrir að hafna Kínverjum

04.09.2019 - 17:57
Mynd: RÚV / RÚV
„Bandaríkin eru þakklát fyrir þá afstöðu sem Íslendingar tóku þegar þeir höfnuðu samgöngufjárfestingum Kína á Íslandi,“ sagði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, eftir fundi sína með forseta Íslands og utanríkisráðherra í Höfða í dag. Þá sagðist hann vonast til þess að Íslendingar haldi áfram samstarfi við Bandaríkjaher.

Pence ávarpaði blaða- og fréttamenn fyrir utan Höfða eftir fundi sína í dag. Þar var hann meðal annars spurður til hvaða aðgerða ætti að grípa til að bregðast við umsvifum Kína og Rússlands á norðurslóðum.

„Ég vil byrja á að ítreka það sem ég sagði við utanríkisráðherra í dag,“ sagði Pence. „Bandaríkin eru þakklát fyrir þá afstöðu sem Íslendingar tóku þegar þeir höfnuðu samgöngufjárfestingum Kína á Íslandi. Við trúum því virkilega að það sé afar mikilvægt að við eflum böndin milli ríkjanna í þessum heimshluta. Að Ísland skyldi grípa til þessara ráða var mikilvægt skref sem við fögnum ákaft. En það er engin spurning að Kínverjar hafa fært sig upp á skaftið á norðurslóðum bæði í efnahagslegum og strategískum skilningi, og umsvif Rússa á norðurslóðum hafa staðið í mörg ár en þau færast í vöxt. Nú er tíminn til þess að styrkja okkar bandalag og okkar samstarf í varnarmálum og til að hafna fjárfestingaátaki Kínverja, „Belti og braut“, eins og Íslendingar gerðu nýlega,“ sagði Pence, en þar vísar hann til innviða- og fjárfestingaverkefnisins „Belti og braut“ sem Kínverjar hafa staðið fyrir undanfarin ár, og miðar að því að efla samgöngur til og frá Kína. Fjölmörg ríki hafa samþykkt að taka þátt í verkefninu, en það hafa Íslendingar ekki gert. Ekki er þó vitað til þess að Íslendingar hafi hafnað því að taka þátt í verkefninu.

„En aftur, eins og ég sagði í dag, þá hvet ég Íslendinga einnig til að bera kennsl á þau djúpstæðu vandamál sem koma upp þegar frjáls ríki taka upp tækni og búnað frá Huawei. Huawei er kínverskt fyrirtæki sem samkvæmt kínverskum lögum er skuldbundið til að skila af sér öllum gögnum sem það safnar til kínverska Kommunístaflokksins. Veruleikinn er sá að við teljum það ekki samrýmast öryggi frjálsra ríkja. Við teljum það ekki samrýmast friðhelgi og persónuvernd þeirra sem njóta frelsis í löndum eins og Bandaríkjunum og Íslandi,“ sagði Pence. 

„Ég hvatti utanríkisráðherra og hvet forsætisráðherra á eftir, til þess að ganga til liðs við okkur í því að biðja þjóðir í þessu bandalagi að hafna tækni frá Huawei. Bandaríkin taka skýra afstöðu um frjáls, sanngjörn og gagnkvæm viðskipti við Kína. Við vorum að tilkynna um nýja tolla gegn Kína. Trump forseti heldur áfram að taka skýra afstöðu þar til við sjáum Kína opna markaði sína og viðurkenna alþjóðlegar reglur um viðskipti sem gilda um samskipti Íslands og Bandaríkjanna og ríkja um allan heim. Við erum vongóð. En við setjum öryggið alltaf á oddinn. Það verður alltaf í forgangi að varðveita okkar öryggi og velsæld. Afstaða Íslands er góð og við vonum að Ísland haldi áfram að vinna að þessum málum í samstarfi við Bandaríkjaher og að Ísland taki fleiri ákvarðanir af þessum toga, sem ég fagna,“ sagði Pence.

Íslendingar eigi leiðtoga í Donald Trump

Herra varaforseti, hvað viltu að Bandaríkin geri, hvað viltu að Ísland geri komi til innrásar Rússa, eins og þið hafið lýst því, á norðurheimskautsvæðið?

„Við erum stödd á stað þar sem leiðtogi Sovétríkjanna hitti Bandaríkjaforseta á miklum óvissutímum. 40. forsetinn var leiðtogi sem var tilbúinn að segja: „Hingað og ekki lengra.“ Þegar Reagan og Gorbatsjov gengu út um þessar dyr skilst mér að Gorbatsjov hafi sagt: „Ég veit ekki hvað meira við getum gert.“ Sagan segir að Reagan hafi þá sagt: „Þú hefðir getað sagt já.“ Í dag, árið 2019, hafa Bandaríkin annan forseta sem er staðráðinn í því að gera öllum ljóst að við stöndum með bandamönnum okkar, eins og Íslendingum, og stöndum þeim við hlið til að tryggja sameiginlegar varnir og velsæld okkar,“ sagði Pence. 

„En Bandaríkjaforseti, Donald Trump, er líka tilbúinn að taka skýra afstöðu, rétt eins og fertugasti forsetinn gerði, og segja við Rússa að við ætlum að verja okkur og hagsmuni okkar á heimskautssvæðinu. Við vinnum að því að byggja upp samstarf við ríki eins og Ísland og alla bandamenn okkar í NATO til þess að tryggja öryggi Bandaríkjanna og bandamanna okkar þegar umsvif færast í aukana á norðurslóðum á komandi árum. En Donald Trump hefur líka gert Kínverjum alveg ljóst að tími gífurlegs fjárlagahalla, allt að 500 milljörðum dollara, milli Bandaríkjanna og Kína sé liðinn, að dagar hugverkaþjófnaðar og þvingaðra tækniflutninga séu á enda. Eins og Trump forseti sagði fyrir skömmu er tímabili efnahagsuppgjafar lokið. Nú höfum við forseta, eins og árið 1986, sem er tilbúinn til að taka skýra afstöðu. Ég man að árið 1986 olli það miklum áhyggjum um allan heim þegar Reagan forseti gekk burt frá fundinum hér. En sjáið hvað gerðist. Kommúnisminn féll, Berlínarmúrinn hrundi, íbúar Rússlands gátu hrist af sér kommúnismapláguna. Austur-Evrópuþjóðir öðluðust frelsi. Þetta var sögulegt afrek en það mátti allt rekja til staðfestu Bandaríkjaforseta og þess sem gerist þegar friðelskandi þjóðir standa saman. Það gleður mig að segja að Íslendingar, sterkir bandamenn og góðir vinir okkar í þau 75 ár sem Ísland hefur verið sjálfstætt ríki, að Íslendingar eiga slíkan leiðtoga í Donald Trump forseta og slíkan bandamann í Bandaríkjunum. Við erum með ykkur. Þakka ykkur fyrir,“ sagði Pence að lokum.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi