Rætt var við Lilju á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir að eftir að málið kom upp hafi hún reynt að halda áfram og sinna sínum skyldum eins vel og hún mögulega geti. Málið snúi einnig að því hvaða virðingu fólk beri fyrir hvert öðru. „Ég held að það hafi komið mjög vel í ljós að þjóðinni var algjörlega misboðið. Ef við eigum að taka kannski eitthvað jákvætt út úr þessu þá held ég að þau sterku viðbrögð, hvernig þjóðin fæst við þetta, hún segir bara: „Nei, takk, við erum ekki á þessari vegferð.“
Þannig að mögulega skilar þetta mál okkur eitthvað áfram, svona til lengri tíma litið? „Já, ég vil meina það og ég held að við eigum að reyna að taka það út úr þessu og ég held að þjóðin hafi sýnt mjög sterk viðbrögð og fyrir það er maður þakklátur.“