Þakklæðning fauk út á sjó

14.02.2020 - 09:01
Myndin var tekin af húsinu við Jörfagrund í morgun. - Mynd: Ásta Jónína Ingvarsdóttir / aðsend mynd
Aftakaveður er á Kjalarnesi og hafa björgunarsveitir sinnt útköllum þar. Þakklæðning fauk út á sjó og ekki er öruggt að vera þar á ferli, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Hluti þaks á fjölbýlishúsi við Jörfagrund fauk og rúður í bílum og húsum hafa brotnað. Halldóra Jakobína Jónsdóttir, íbúi á Kjalarnesi, segir að illviðrið sé það versta sem hún hafi upplifað og hún hefur búið þar í mörg ár. Það sama segi fólk sem sé barnfætt á Kjalarnesi.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Jónína Ingvarsdóttir - aðsend mynd

Útköllin hafa verið um 200 á landsvísu í nótt hjá björgunarsveitunum. Davíð telur að um 500 manns hafi verið á vaktinni á vegum björgunarsveitanna í nótt. Flestar hafa tilkynningarnar verið því þakplötur hafa fokið og rúður brotnað. 

Versta veðrið er að ganga yfir höfuðborgarsvæðið og segir Davíð best að halda kyrru fyrir inni við. Engin ástæða sé til þess að ana út í þetta veður. Starf björgunarsveitanna og annarra viðbragðsaðila hefur gengið vel í nótt og segir Davíð ljóst að fólk hafi lært af óveðrinu í desember. Þá segir hann vert að hrósa almenningi fyrir að hafa farið eftir fyrirmælum.