Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þakkarræða Unnar Jökulsdóttur

Mynd: RÚV / RÚV

Þakkarræða Unnar Jökulsdóttur

31.01.2018 - 11:58

Höfundar

Unnur Jökulsdóttir rithöfundur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í gærkvöldi í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir bók sína Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Unnur hefur dvalið og starfað á Mývatni í 12 ár og lýsir í bókinni innviðum vatnsins og þeim áhrifum sem það og Mývantssveit í heild hefur haft á hana. Hér birtist þakkarræða Unnar frá verðlaunafhendingunni.

Kæri forseti Íslands, góðu gestir.

Það er heiður að vera hér í kvöld og taka við þessari viðurkenningu fyrir bókina Undur Mývatns.

Ekki síst er ég glöð Mývatns vegna og þakklát öllum þeim lífverum sem með tilveru sinni, daglegu streði og flóknu örlögum hafa orðið að söguefni í bókinni.

Þakkir fá líka Mývetningar og aðrir fræðimenn svæðisins sem hafa örlátir ausið úr viskubrunnum sínum.

Mig langar líka að þakka yfirlesurum, Kristín Bjarnadóttir skáld, sem er fyrsti lesari, svo undurblíð og hvetjandi, og Ásta Kristín Benediktsdóttir bókmenntafræðingur las með röntgenaugum heimamannsins. Allt teymið á Forlaginu er frábært en sérstaklega þakka ég samt Sigríði Rögnvalds ritstjóra og Alexöndru Buhl hönnuði.

En umfram allt er það Árni Einarsson, sem kynnti mig fyrir þessum undrum Mývatns, opnaði fróðleikskistur sínar og málaði myndirnar af fuglunum, sem prýða bókina.

Draumarnir sem ég bar í brjósti fyrir þessa litlu bók hafi ræst svo fallega og hún hefur fundið sína lesendur. Fyrir það er ég líka þakklát. 

Bókin Undur Mývatns fjallar um náttúru og lífríki Mývatns og Laxár, hún fjallar um kraftana sem stýra náttúrunni og samhengið og jafnvægið sem þar þarf að ríkja til að allt gangi vel og allt sé gott og rétt og lífvænlegt.

Til að vernda náttúruna þarf að þekkja hana og skilja hana. Elska hana og dá.

Áður fyrr var oft litið svo á að náttúruvernd stæði í vegi fyrir framförum. Nú er ríkjandi skoðun að engar framfarir verði án náttúruverndar.

Við erum nefnilega huti af náttúrunni. Hún er umlykjandi og allt um kring og inní okkur sjálfum. Án hennar erum við ekkert.

Takk fyrir mig .

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Þakkarræða Áslaugar Jónsdóttur

Bókmenntir

Þakkarræða Kristínar Eiríksdóttur

Bókmenntir

Áslaug, Kristín og Unnur fá bókmenntaverðlaunin

Bókmenntir

„Eins og að horfa í stjörnukíki út í geiminn“