„Þakka fyrir það sem vel er gert“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þakka fyrir það sem vel er gert“

19.06.2015 - 14:45

Höfundar

Fjölmenni kom saman í Hólavallagarði í Reykjavík í dag til að minnast baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur en hún var ein af fjórum konum sem fyrstar settust í bæjarstjórn á Íslandi.

„Þessi krans er fyrst og fremst táknrænn þakklætisvottur til Bríetar sem hefur skilað okkur samtímakonunum réttindum sem okkur ber að nýta,“ segir Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, sem lagði blómsveig á leiði Bríetar.

„Bríet var auðvitað ekki ein, þetta er táknræn athöfn hér en formæður okkar hafa virkilega unnið mikilvægt starf og við höfum öðlast mjög mikilvæg réttindi sem við erum að fagna í dag og sérstaklega núna á þessu aldarafmælinu er gaman. En þetta er árleg athöfn og við munum halda henni áfram."

Sóley svarar því aðspurð að hún haldi að Bríet hafi ekki verið mikil blómakona. „Ég held að hún hefði heldur viljað að við gerðum eitthvað annað en ég er á því að við eigum að gera bæði. Við eigum að þakka fyrir það sem vel er gert og halda baráttunni áfram."