Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þak og hjólhýsi fóru á flug á Vesturlandi

14.02.2020 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót
Á Vesturlandi fór að hvessa snemma í morgun. Vegir voru meira og minna lokaðir fram yfir hádegi, rafmagni sló víða út og björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast. Einn slasaðist þegar þakplata fauk á hann í Hvalfirði. Hann var sóttur og færður á Sjúkrahús í Reykjavík.

Í Svínadal í Hvalfirði skall veðrið á með hvelli. Þar varð snemma rafmagnslaust og það var ekki komið aftur á fyrr en um miðjan dag.

Þak fauk af skúr í sumarbústaðabyggð í dalnum í heilu lagi. Það lenti rúma fimmtíu metra frá og hlutir úr skúrnum fuku á við og dreif.

Á Þórisstöðum í Svínadal varð töluvert tjón. Átta bílar og sex hjólhýsi tóku af stað, mörg þeirra lentu á hliðinni eða hvert á öðru og rúður sprungu. Fjórir voru í hjólhýsunum þegar veðrið skall á en þeim varð ekki meint af.

Jón Valgeir Pálsson býr á Þórisstöðum.

„Veðrið byrjaði hérna fjögur í nótt og kannski upp úr fimm þá var bara orðið snælduvitlaust veður. Þá fór ég í eftirlitsferð og þá var bara allt farið af stað,“ segir hann.

Á Þórisstöðum eru líka um sjötíu hjólhýsi og fellihýsi geymd í skemmu. Þakið byrjaði að flettast af henni í morgun og var enn að fjúka þegar fréttamann bar að garði í fylgd teymis frá Björgunarfélagi Akraness.

Jón Valgeir segist ekki hafa upplifað hvell sem þennan áður.

„Ekki svona svakalegan hvell. Þetta var það versta sem ég hef séð.“

Rúta frá fyrirtækinu Skagaverk á Akranesi fór á hliðina í rokinu. Fyrirtækið er nálægt sorphirðunni á Akranesi þar sem rusl fór á flug og rúður sprungu í tveimur bílum.

Veðrið var snælduvitlaust að sögn Gunnars Þórs Gunnarssonar rútubílstjóra og ekki stætt að vera úti.

„Það fór allt af stað hérna á ruslahaugunum og það flugu bara rúm og kör og þvottavél og allt mögulegt hérna yfir. Maður sér bara hvernig bílarnir fóru,“ segir Gunnar.