Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Það versta sem ég hef séð undanfarna mánuði“

17.10.2017 - 15:00
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Víti við Kröflu.  Mynd: Daði Lange Friðriksson
Bílastæði og göngustígar við Víti í Mývatnssveit eru í niðurníðslu og miklar gróðurskemmdir eru þar umhverfis. Starfsmaður Landgræðslunnar segir þetta verstu aðkomu við ferðamannastaði sem hann hefur séð undanfarna mánuði.

Landgræðslan hefur undanfarna mánuði tekið þátt í alþjóðlegu verkefni þar sem meðal annars er gerð úttekt á gönguleiðum og áningastöðum um allt land, í því skyni að afla gagna um ástand þessara staða og finna leiðir til úrbóta þar sem þeirra er þörf.

Segir ástandið fara hratt versnandi

Davíð Arnar Stefánsson, verkefnastjóri, segir aðkomuna að Víti í Mývatnssveit þá verstu sem hann hefur séð í þessari úttekt. „Já, aðkoman að Víti er það versta sem ég hef séð á undanförnum mánuðum. Ég held að það sé alveg á hreinu og mér heyrist á fólki sem þekkir vel til á þessum stað að þessu hraki hratt þessa mánuðina.“  

Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Arnar Stefánsson
Davíð segir bílastæðin greinilega of lítil

Bílum ekið yfir viðkvæman gróður  

„Þarna eru bílastæði sem virðast hreinlega vera of lítil, því það er ekið þarna ansi víða og hreinlega bara út um víðan völl. Og við stæðin er eitt stærðarinnar svað, í afskaplega viðkvæmu gróðurumhverfi,“ segir Davíð.

Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Arnar Stefánsson
Hellulagður göngustígur mjög illa farinn

Göngustígar illa farnir og leir út um allt

„Göngustígarnir sjálfir, sem eru upp með börmunum sitt hvoru megin við Víti, eru afar illa farnir og úttroðnir,“ segir Davíð. „Leirkenndur jarðvegurinn þolir þetta álag, sem er þarna, afskaplega illa.“ Þá sé hellulagður göngustígur frá bílastæðinu og upp að Víti mjög illa farinn og útataður í leir.

Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Arnar Stefánsson
Djúp hjólför

Lítil umhirða og svæðið almennt illa á sig komið

Og almennt segir hann að umhirða um þetta svæði sé greinilega mjög lítil og landeigendur og aðrir, sem þarna eiga hlut að máli, virðist ekkert hirða um að bæta ástandið. „Þetta svæði er illa á sig komið og umhirða augljóslega alls ekki nægjanlega góð. Og full ástæða til þess að benda á það,“ segir Davíð.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV