Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Það varð trúnaðarbrestur innan þingflokksins“

24.09.2016 - 19:32
Mynd:  / 
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, segir að síðasta vor hafi orðið trúnaðarbrestur innan Framsóknarflokksins. Hún vill að Framsóknarflokkurinn fái tækifæri til að ræða um hugsjónir sínar og verk, en ekki einhvern einstakling. Því telur hún tímabært að skipta um formann.

„Það varð trúnaðarbrestur innan þingflokksins, við þjóðina, traustið sem var til staðar hvarf og þingflokkurinn þurfti að taka ákvarðanir, segja það að það þyrfti að breyta hvað varðar forsætisráðherra og að leggja áherslu á það að við vildum halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi og klára ákveðin verkefni,“ segir Eygló í sjónvarpsfréttum en viðtalið má sjá hér að ofan.

Hún segir að flokkurinn hafi lagt ríka áherslu á það að Sigmundur fengi tækifæri til að endurheimta það traust sem hann glataði. „Við höfum séð það að það hefur ekki gengið eftir,“ segir hún.

Hún tók fram að Framsóknarflokkurinn hefði aldrei fyrr í sögunni notað heimildir til að boða til flokksþings með þeim hætti sem nú var gert.

„Við viljum mjög gjarna fá að tala um okkar verk. Við viljum fá að tala um okkar verk á þessu kjörtímabili, við viljum fá að tala um það hvað við stöndum fyrir og hvað við viljum gera fyrir þjóðina á næsta kjörtímabili. Við viljum fá að tala um hugsjónir og verk framsóknarflokksins en ekki einhvern einstakling,“ segir Eygló.

 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV