Það þýðir ekkert að bíða bara heima hjá sér

Mynd: Auður Lóa - www.audurloa.com / www.audurloa.com

Það þýðir ekkert að bíða bara heima hjá sér

27.02.2018 - 16:00

Höfundar

Íslensku myndlistarverðlaunin voru veitt í síðustu viku. Sigurður Guðjónssson var valinn myndlistarmaður ársins fyrir innsetningar sem hann setti upp á sýningu í St, Jósefsspítala í Hafnarfirði en Hvatningarverðlaun hlaut Auður Lóa Guðnadóttir. Víðsjá heimsótti Auði Lóu á vinnustofuna.

„Hér er ég að bardúsa eitt og annað og gera líf mitt erfitt,“ segir Auður Lóa brosandi þegar útvarpið kemur í heimsókn á vinnustofu hennar sem hún er með út í bílskúr hjá foreldrum sínum. Brátt verða þrjú ár síðan að Auður Lóa útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands. „Ég vinn bara nánast einungis  „fígúratívt“ sem er ekkert endilega voðalega vinsælt eða  „kúl“ í dag,“ segir Auður hlæjandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Auður Lóa - www.audurloa.com - www.audurloa.com
Menn og dýr úr pappamassa, efni sem veitir ekki alveg fulla stjórn.

Pappamassi og tölvumús

Innblásturinn getur komið víða að. Frá skrauti, styttum og ýmsum manngerðum hlutum og jafnvel úr myndheimi internetsins. Auður Lóa notar oft pappamassa til að búa til skúlptúra sem stundum eru agnarsmáir og það er yfirleitt stutt í húmorinn og einhvern fáranleika lífsins í verkum hennar.

Auður Lóa segist leitast eftir því að hafa ekki alveg fulla stjörn í listsköpun sinni.   „Ég nota til dæmis pappamassa því að það er erfitt að stjórna honum og vera nákvæmur og sama má segja um tölvumúsina sem ég nota til að teikna með. Þetta tekur valdið frá mér og maður nær ekki að gera alveg nákvæmlega það sem maður vill.“

Mynd með færslu
 Mynd: Auður Lóa - www.audurloa.com - www.audurloa.com
Kettir í peysum.

Að reyna á sig

Auður Lóa segir að hugurinn stefni á meira nám í myndlist, en þó ekki strax.„Akkúrat núna er bara svolítið að reyna að finna mína rödd og að reyna hvað það er sem ég get. Ég vil prufa að vera sjálfstætt starfandi listamaður í Reykjavík sem getur verið dálítið strembið og maður þarf rosa mikið að búa til sín eigin tækifæri. Það þýðir ekkert að bíða bara heima hjá sér og vonast til að tækifærin komi til manns. “

Í viðtalinu hér fyrir ofan má heyra Auði Lóu Guðnadóttur lýsa verkum sínum og vinnubrögðum á vinnustofunni.