Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Það sem stjórnvöld hafa hamast í hefur versnað

08.12.2019 - 15:15
Mynd: Skjáskot / RÚV
„Það sem var látið í friði frá 2013 og bara falið kennurum er annað hvort að standa í stað eða batna,“ segir Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, um gengi íslenskra barna í PISA-könnuninni. „Það sem stjórnvöld eru búin að vera að hamast í allan tímann er að versna.“

Samkvæmt nýjustu PISA-könnuninni er lesskilningur íslenskra barna undir meðaltali OECD-ríkja og hefur honum hrakað frá árinu 2000. Þriðjungur drengja nær ekki grunnhæfni í lesskilningi. Færni í náttúruvísindum er minni meðal íslenskra barna en jafnaldra þeirra annars staðar á Norðurlöndum. Færni í stærðfræði er betri nú en í síðustu könnun.

Niðurstöður PISA-könnunarinnar og staða íslenskra menntamála voru til umræðu í Silfrinu í dag. 

Ragnar Þór sagði að ekki væri gerður nægur greinarmunur á tæknilegri lestrarkennslu ungra barna og því að kenna þurfi læsu fólki dýpri hugtakaskilning. Hann sagði að þetta yrði ekki leyst með lestrarátökum. 

Núna fyrst að sjá langtímamarkmið

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri sagði að kröfurnar sem væru gerðar til nemenda væru ekki miklar. Hún kvartaði undan áherslum í kennslu. „Við erum ekki með nógu skýr langtímamarkmið. Með fullri virðingu fyrir aðgerðum fyrri ráðherra þá erum við í fyrsta skipti að sjá langtímamarkmið núna. Skammtímamarkmiðin hjá Illuga [Gunnarssyni] í hvítbókinni sem setti þó mjög margt á dagskrá voru alveg óraunhæf. Þú setur ekki óraunhæf markmið á skólana. Þau segja þá bara að þetta sé alveg vonalaust og gera ekki hlutina.“ Því verði að bæta starfsaðstæður kennara og kenna þeim betur að kenna íslensku.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Ragnar Þór Pétursson.

Betra að telja lesnar bækur en mæla leshraða

Hermundur Sigmundsson prófessor sagði að ekki væri nóg að gera góðar áætlanir heldur yrði að fylgja þeim eftir. „Reykjavíkurborg er komið með flott plan fyrir menntamál en hvað gera þau í skólunum? Það þurfum við að fara að skoða betur. Hvað er í gangi í hverjum skóla og í hverri kennslustund? Erum við að fylgja eftir og nota þau fræði sem við vitum að eru mikilvæg?“

Í norskum skólum er að finna út bækur á ellefu erfiðleikastigum, tuttugu á hverju stigi, sagði Hermundur. Þessar bækur nýtast við lesturinn. Hann sagði ekkert slíkt hér að finna. 

Aðspurður um mælingu á leshraða sagðist Hermundur ekki kannast við þetta annars staðar á Norðurlöndum. Hann vísaði til orða finnsks sérfræðings. Sá sagði að ekki ætti að mæla leshraða heldur hversu margar bækur barnið hefði lesið síðasta mánuðinn og hvaða þrjár bækur því hefði þótt skemmtilegastar.

Mynd: Skjáskot / RÚV