Það er til nóg af peningum!

Mynd með færslu
 Mynd:

Það er til nóg af peningum!

09.04.2014 - 16:05
Aðeins tvö prósent af hernaðarútgjöldum heimsins þyrfti til að útrýma hungri. Og meðan röskum fimm hundruð milljörðum bandaríkjadala að minnsta kosti er varið til niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti, myndu sjö hundruð duga til að stöðva loftslagsbreytingar af manna völdum.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur fjallar í Sjónmáli í dag um kostnað við stríð og hvernig þeir fjármunir gætu nýst til uppbyggilegri verkefna. 

Sjónmál miðvikudaginn 9. apríl 2014

------------------------------------------------------------  

Stríð og peningar

Í síðustu viku birti stofnunin Worldwatch Institute áhugaverðar tölur um árlegan kostnað þjóða heims vegna friðargæslu. Þessar tölur eru hluti af umfangsmikilli tölfræði sem stofnunin heldur saman um ýmislegt sem varðar umhverfi og velferð manna og birtist reglulega undir yfirskriftinni Vital Signs, sem í lauslegri íslenskri þýðingu gæti útlagst sem „mikilvæg teikn“ eða einfaldlega „lífsmörk“.

Samkvæmt tölum Worldwatch Institute er gert ráð fyrir að hvorki meira né minna en 7,83 milljörðum Bandaríkjadala verði varið til friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna á tímabilinu júlí 2013 til júní 2014. Þetta samsvarar rétt um 890 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Reyndar hefur þessi tala haldist svipuð síðustu 7 ár og farið á því tímabili hæst í 8,26 milljarða dollara eða í um 937 milljarða íslenskra króna.

Ef litið er á þróun útgjalda til friðargæslu allt frá því að hún var fundin upp í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, kemur í ljós að þau voru til þess að gera lítil á tímabilinu frá 1950 til 1990. Um það leyti fór talan í fyrsta sinn yfir einn milljarð dollara á ári. Síðan þá hefur árlegur kostnaður áttfaldast, en haldist nokkuð stöðugur síðustu 7 ár eins og áður var nefnt. Heildarútgjöldin til friðargæslunnar frá upphafi eru orðin samtals 124 milljarðar bandaríkjadala á þeim 65 árum sem liðin eru frá því að starfsemi af þessu tagi hófst á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það samsvarar 14.000 milljörðum íslenskra króna.

Nú kann einhver að halda að boðskapur þessa pistils sé sá að þjóðir heims verji allt of miklum peningum í friðargæslu. 124 milljarðar dollara eða 14.000 milljarðar íslenskra króna er jú engin smáupphæð. Til að setja þessa tölu í eitthvert samhengi, þá eru þetta til dæmis 23-föld fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2014, og árleg útgjöld til friðargæslu eru um 45% hærri en fjárlögin. En fjárlögin eru ekki eina áhugaverða viðmiðið í þessu samhengi. Ef við lítum þess í stað á útgjöld þjóða heims til hermála kemur allt annar veruleiki í ljós. Á árinu 2012 námu heildarútgjöld til hermála nefnilega hvorki meira né minna en 1.753 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar rétt tæpum 200.000 milljörðum íslenskra króna. Þeir 8 milljarðar dollara sem varið er í friðargæslu á einu ári duga þjóðum heims sem sagt ekki nema í 39 klukkustundir til að standa undir útgjöldum til hermála, það er að segja frá miðnætti á gamlárskvöld til kl 3 síðdegis 2. janúar!

Ein af niðurstöðunum úr allri þessari talnaleikfimi er að þjóðir heims leggja 224 sinnum meiri áherslu á ófrið en frið, alla vega ef áherslurnar eru mældar í útgjöldum til hermála annars vegar og friðargæslu hins vegar.  Það getur líka verið áhugavert að skoða þessar tölur í ljósi þess mikla fjárskorts sem virðist alls staðar ríkjandi þegar talið berst að þróunaraðstoð eða fjármögnun brýnustu verkefna á sviði umhverfis- og þróunarmála. Menn hafa til dæmis reynt að áætla hvað það myndi kosta að stöðva loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ein af hæstu tölunum sem sést hefur í því sambandi kom fram í Alþjóðaefnahagsráðinu (eða World Economic Forum) í janúar 2013, en þar var talað um 700 milljarða dollara á ári, sem samsvarar um 40% af árlegum útgjöldum til hermála.

Ef við gleymum nú öllu hernaðarbrölti um stund og rýnum aðeins betur í þessa 700 milljarða dollara sem Alþjóðaefnahagsráðið telur að það kosti að stöðva loftslagsbreytingarnar, þá má líka benda á að af tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni, OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ýmsum frjálsum félagasamtökum má ráða að árlega verji þjóðir heims að minnsta kosti 523 milljörðum dollara í niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti, þ.e.a.s. olíu, kolum og jarðgasi, en notkun þessa eldsneytis á einmitt stærstan þátt í loftslagsbreytingunum. Reyndar er talan 523 milljarðar lágmarkstala. Efri mörkin í þessum áætlunum hljóða upp á 1.900 milljarða. Það er óneitanlega dálítið sérstakt að niðurgreiða eldsneyti fyrst um þó ekki væri nema 523 milljarða dollara og horfa svo ráðalaus upp á 700 milljarða dollara fjárþörf til að koma í veg fyrir skaðann sem þetta sama eldsneyti veldur, svo að maður einfaldi nú myndina svolítið.

Ef við berum útgjöld til hermála saman við þær fjárhæðir sem áætlað er að þyrfti að leggja fram til að útrýma hungri í heiminum, þá kemur í ljós að tæp 2% af hernaðarsummunni myndu líklega duga sem árlegt framlag. Kostnaður við að útrýma hungri hefur nefnilega verið áætlaður um 30 milljarðar dollara á ári. Það er ekki stór tala í heimi sem hefur efni á hernaði fyrir 1.753 milljarða.

Ef nóg væri til af peningum mætti nota þá í ýmislegt fleira en að stöðva loftslagsbreytingar og útrýma hungri. Til dæmis væri upplagt að byrja á að útvega öllum jarðarbúum húsaskjól og hreint vatn og fara svo í að stöðva jarðvegseyðingu og eyðingu skóga. Ég hef ekki séð neina nýlega verðmiða fyrir þessi verkefni, en fyrir svo sem 10 eða 15 árum var því slegið fram að hvert þeirra um sig væri í mesta lagi álíka kostnaðarsamt eins og að útrýma hungri. Við getum því hugsað okkur dæmið einhvern veginn þannig að við þurfum 700 milljarða dollara á ári til að stöðva loftslagsbreytingarnar, 30 milljarða til að útrýma hungri, 30 milljarða til að útvega húsaskjól fyrir alla, 30 milljarða í hreint vatn, 30 milljarða til að stöðva jarðvegseyðingu og 30 milljarða til að stöðva eyðingu skóga. Svo skulum við reikna með að friðargæslan kosti áfram 8 milljarða dollara á ári. Þarna erum við komin með heildarkostnað upp á 858 milljarða dollara á ári. Það má telja vel sloppið, því að þetta eru ekki nema 49% af árlegum útgjöldum til hermála. Og við eigum samt eftir að nota 523 milljarðana sem fara í niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti.

Niðurstaða dagsins er í stuttu máli þessi: Það er til nóg af peningum. Þetta er bara spurning um að nota þá skynsamlega.