Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Það er óþarfi að örvænta“

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

„Það er óþarfi að örvænta“

27.04.2018 - 10:46

Höfundar

Við eigum að geta tryggt stöðu islenskunnar í heimi gervigreindar fjórðu iðnbyltingarinnar, ef við skipuleggjum okkur vel og sjáum til þess að það verði nægt framboð af íslensku efni. Þetta segir Jón Guðnason, dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður Gervigreindarseturs H.R. Hann orðaði þetta þannig á Morgunvaktinni á Rás 1: „Það er óþarfi að örvænta.“

En verkefnin eru ærin framundan. Það er margt að gerast á sviði máltækni og tækniþróunin er hraðfara, gervigreind verður stöðugt umfangsmeiri og þróaðri. „Ég reyni að hugsa sem minnst um það, en ég geri mér grein fyrir því á næstum hverjum degi að við erum í miðri byltingu,“ segir Jón Guðnason.

Hann segist eiginlega ekki þora að svara spurningum um það hvað gerist á næstu árum. Þróunin er hröð. Unnið er að því máltæknilega verkefni að færa íslenskt talmál yfir á skrifað mál. Talgreinir er forritaður þannig að hann skilji talað orð - og hann verður sífellt færari í því hlutverki.  „Talmál er eðlilegasti samskiptamáti okkar, þar komum við mestum upplýsingum á framfæri.“ Og til að geta greint talmál og skrifað það niður þarf flókna tækni og mikla þekkingu af mörgum fræðisviðum. Það sem er í húfi er að tæknibúnaður af ólíku tagi geti skilið íslensku. Að við getum talað við tækin á tungu forfeðranna.  „Við þurfum að vinna hörðum höndum að því að koma íslenskunni inn í þennan heim líka.“

Jón Guðnason segir að það sé ekki stærsta vandamálið að gera íslenskuna gjaldgenga í allri þessari tækni. Eitt sé að hafa máltækni, annað að hafa nóg af efni á íslensku til að færa yfir í tækniheiminn.  „Þá er með máltækninni hægt að koma þessu íslenska efni alveg eins vel til skila og því enska.“