„Það er ekkert að því að kjósa strategískt“

23.05.2016 - 13:25
epa04737267 People pass a polling station sign in Brixton, south west London, England, 07 May 2015. Britain votes in a general election that will determine the next British government.  EPA/HANNAH MCKAY
 Mynd: EPA
Skoðanakannanir geta haft veruleg áhrif á opinbera umræðu í aðdraganda kosninga og eru sömuleiðis taldar geta haft áhrif á það hvort fólk kýs og hvað það kýs. Sum ríki hafa vegna þessa farið þá leið að banna fjölmiðlum og fyrirtækjum að birta skoðanakannanir dögum og jafnvel vikum fyrir kjördag. Markmiðið er að kjósendur hreinsi hugann og kjósi eftir eigin höfði. Stjórnvöld hugðust innleiða svona bann hér árið 2012 en frá því var horfið af praktískum ástæðum.

Kannanir geta haft afgerandi áhrif

Áhrif skoðanakannana eru margþætt. Sálfræðingar hafa lengi greint tilhneigingu meðal fólks til þess að taka undir sjónarmið meirihlutans en ekki hefur tekist að varpa nákvæmu ljósi á hvort og að hve miklu leyti þessara áhrifa gætir fyrir tilstuðlan skoðanakannana í aðdraganda kosninga. Í rannsókn David Rothchilds og Neil Malhotra sem birtist í tímaritinu Research and Politics, haustið 2014, kemur fram að skoðanakannanir geti haft afgerandi áhrif á niðurstöður kosninga, fyrir tilstuðlan þeirra geti fylgi þess frambjóðanda sem best mælist styrkst enn frekar. Rannsóknir á þessu fyrirbæri séu þó af skornum skammti. Rannsóknin tók til hóps kjósenda sem einungis hafði séð eina könnun, niðurstöðurnar bentu til þess að þeir sem ekki höfðu kynnt sér málin og myndað sér skoðun áður en þeir sáu könnunina væru líklegastir til að hoppa á meirihlutavagninn.

Mynd með færslu
 Mynd: freestock
Það getur verið erfitt að vera ósammála meirihlutanum.

Áhrif réttlæti ekki bann

Það hefur einnig verið fjallað um tilhneigingu fólks til þess að kjósa þann flokk eða frambjóðanda sem fær minnst fylgi, annað hvort af vorkunn eða sem mótvægi við meirihlutann. Svokölluð undirlægjuáhrif. Loks veita kannanir kjósendum færi á að kjósa strategískt. Ef það er til dæmis útlit fyrir að uppáhaldskandídatinn fái lítið fylgi, gæti viðkomandi ákveðið að velja þann sem honum fellur næst best við til þess að minnka líkur á því að frambjóðandi sem honum fellur alls ekki komist til valda.

„Ef fólk er svo vitlaust að kjósa bara þann sem hefur mest fylgi í skoðanakönnunum, þá hefur það samt sem áður umboð til þess að kjósa og við getum ekki stjórnað því hvaða upplýsingar það hefur til að ákveða hvað það kýs,“

segir Þorlákur Karlsson, rannsóknastjóri Maskínu og dósent í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann telur fráleitt, í siðuðu þjóðfélagi, að banna skoðanakannanir í aðdraganda kosninga. Svo framarlega sem upplýsingarnar séu réttar sé ekkert að því að veita kjósendum þær og ekkert að því þó þeir velji að kjósa strategískt á grundvelli þeirra. Hann segir rannsóknir ekki hafa sýnt nægilega fram á áhrif skoðanakannana á kosningahegðun og að jafnvel þó slík áhrif væru til staðar, réttlætti það ekki bann. 

Geta haft áhrif á kjörsókn

Chairman of the Independence Party Bjarni Benediktsson casts his ballot Saturday April 27, 2013, as Icelanders vote in a General Election.  According to polls the parliamentary election could return to power the center-right parties that led the country
 Mynd: AP Photo/Brynjar Gauti

Kannanir eru taldar geta haft jákvæð eða neikvæð áhrif á kjörsókn. Úrslitin liggja oft nánast fyrir, fyrirfram og ef einn flokkur eða frambjóðandi hefur afgerandi forystu telja stuðningsmenn óvinsælli flokka kannski að þeirra atkvæði skipti ekki máli og sitja heima, nú eða telja enn brýnna að mæta á kjörstað.

Skoðanakannanir móta umræðuna

Loks má nefna að í aðdraganda kosninga geta skoðanakannanir haft mikil áhrif á umræðuna. Skemmst er að minnast bresku þingkosninganna í fyrra. 

Þær sex vikur sem kosningabaráttan stóð yfir birtust 92 skoðanakannanir og niðurstöður flestra þeirra voru á skjön við það sem síðar kom upp úr kjörkössunum. Flest fyrirtækin spáðu því að mjótt yrði á munum milli stærstu flokkanna, Verkamannaflokks og Íhaldsflokks en raunin varð sú að Íhaldsflokkurinn sigraði með yfirburðum. Í kjölfar úrslitanna dundu ásakanirnar á forsvarsmönnum kannanafyrirtækjanna. Pistlahöfundur BBC segir orðspor þeirra hafa skaddast verulega, skeikular spár þeirra hafi afvegaleitt umræðuna í aðdraganda kosninganna, hún hafi að mestu snúist um hvaða flokkar kæmu til með að mynda samsteypustórn, síður um málefnin. 

Ekki kannanafyrirtækjum að kenna hvernig umræðan þróast

Þorlákur segir að ekki sé hægt að kenna kannanafyrirtækjum um hvernig umræðan þróast. 

„Þar liggur náttúrulega ábyrgðin á herðum fjölmiðla og stjórnmálamannanna sjálfra, þeir sem gera kannanir eru bara boðberi.“

Önnum kafnir hægri menn líklegri til að skella á

Athugun sem Breska skoðanakannanaráðið, British Polling Council, og markaðsrannsóknasamtökin, Market Research Society, stóðu fyrir leiddi í ljós að fyrirtækin töluðu of oft við fólk sem var líklegt til að kjósa Verkamannaflokkinn og of sjaldan við fólk sem var líklegra til að kjósa Íhaldsflokkinn. Eldra fólk og upptekið framafólk sem skellir á könnunarfyrirtæki sé líklegra til að kjósa Íhaldsflokkinn og það hafi síður lent í úrtaki. Tilraunir til að draga úr þessum skekkjum hafi áður borið árangur en ekki dugað til í kosningunum í fyrra. 

Fyrirtækin sögð hafa gerst sek um hjarðhegðun

Sérfræðingarnir sögðu að rangar ályktanir hafi verið dregnar um væntanlega kjörsókn þar sem frekar hafi verið rætt við áhugafólk um pólitík en þá sem síður höfðu áhuga. Loks töldu sérfræðingarnir að kannanafyrirtækin hefðu gerst sek um vissa hjarðhegðun, þau hafi veigrað sér við að birta niðurstöður sem voru á skjön við niðurstöður annarra fyrirtækja, þar af leiðandi hafi þau vegið niðurstöðurnar þannig að munurinn á könnunum þeirra og keppinauta þeirra væri sem minnstur. 

Oftast standast spárnar

Þorlákur segir kannanafyrirtækin leggja metnað sinn í að spá sem best fyrir um úrslit og taka tillit til skekkja, til dæmis þegar kemur að því hvaða aldurshópar séu líklegri til að svara netkönnunum. Oftast spái þau rétt fyrir um úrslit. Hér á landi hafi gengið sérlega vel í gegnum tíðina. Það geti þó alltaf eitthvað farið úrskeiðis en það skrifist þá yfirleitt á líkindafræðina. 

„Maður tekur úrtak úr þjóðinni, lítið brot hennar, og það getur bilað. Það er langlíklegast að maður hitti með þúsund svörum, mjög nákvæmt, kannski plús, mínus þrjú prósentustig en það getur gerst og gerist, nokkrum sinnum á öld að það feilar herfilega, og langlíklegast eru það lögmál líkindanna sem spila inn í þar.“  

Betra en að pólitíkusar geri sjálfir kannanir

Greinarhöfundur BBC veltir því fyrir sér hvort málefnin hefðu fengið meiri athygli, hefði skoðanakannananna ekki notið við en kemst að þeirri niðurstöðu að bann hefði ekkert að segja nú á öld internets og samfélagsmiðla. Þessum rökum hafa kannanafyrirtækin sjálf teflt fram. Kannanir hafi auðvitað sína galla en vandaðar kannanir frá alvöru fyrirtækjum séu þó mun skárri en kannanir frá viðvaningum nú eða pólitíkusunum sjálfum sem hafa tilhneigingu til þess að birta einungis kannanir sem koma þeim vel en stinga hinum ofan í skúffu. Slíkar kannanir myndu skjóta upp kollinum og berast til kjósenda þrátt fyrir bann.

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra þegar málið var til umræðu.

Stjórnvöld hættu við af praktískum ástæðum

Það var á grundvelli þessara raka sem íslensk stjórnvöld hættu við að leiða skoðanakannanabann í lög. Fjölmiðlalögunum var breytt árið 2013, frumvarp til breytinga innihélt nýtt ákvæði um að banna skyldi birtingu skoðanakannanna sjö dögum fyrir kosningar og að óheimilt yrði að vísa til annarra heimilda um skoðanakannanir.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar og formaður menntamálanefndar árið 2013, talaði fyrir þessum breytingum strax árið 2006.  

„Ég held að það mundi skapa heilbrigðara andrúmsloft dagana fyrir kosningar af því að skoðanakannanir stýra mjög umræðunni og stýra því að lokum t.d. hvernig einstökum flokkum gengur, sérstaklega litlu flokkunum sem mælast úti. Ef þeir mælast úti í öllum könnunum er líklegra að á bresti flótti. Ég held að andrúmsloftið yrði heilbrigðara ef menn skoðuðu það að banna birtingu kannana síðustu dagana fyrir kosningar.“

IMMI, alþjóðleg stofnun um tjáningar- og upplýsingafrelsi, gagnrýndi ákvæðið 
í umsögn sinni. 

„Ljóst er að bann af þessu tagi er einungis gagnlegt ef það er almennt virt, en með því að leggja bannið fyrir fjölmiðla en ekki almennt er verið að gefa samfélagsmiðlum meira athafnafrelsi en fjölmiðlum. Ekki væri heldur gagnlegt að útvíkka skilgreining fjölmiðils til að ná yfir samfélagsmiðla, eða reyna
að búa til almennt bann yfir slíkar frásagnir. Sem almenn regla, þá er réttara að reyna að laga vandamálin sem tengjast aðgengi almennings að
upplýsingum án þess að reyna að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum.“

Flestir sammála um skoðanamyndandi áhrif

Kveikjan að ákvæðinu var athugasemd frá ÖSE, öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, um að setja mætti fjölmiðlaumfjöllun í aðdraganda kosninga fastari skorður. Í júní árið 2012 ákvað meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar að fella ákvæðið brott. Í rökstuðningi kom fram nefndarmenn væru flestir sammála um að skoðanakannanir gætu verið skoðanamyndandi en þrátt fyrir það yrði erfitt að koma í veg fyrir að niðurstöður kannana spyrðust út með öðrum hætti en milligöngu fjölmiðla. Ákvæðið þarfnaðist nánari skoðunar. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, skipaði nefnd og fól henni að móta tillögur að reglum um kosningaumfjöllun fjölmiðla. Í skýrslu nefndarinnar er ekki tekin afstaða til þess hvort banna ætti skoðanakannanir. Fram kemur að ekki megi merkja að skoðanakannanir hafi haft afgerandi áhrif á kjósendur hér á landi. Kannanir geti þó haft mikil áhrif á opinbera umræðu og því sé mikilvægt að þær séu vandaðar og ekki til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna.

Reglur ekki jafn ítarlegar hér og í nágrannaríkjum

Í skýrslunni nefndarinnar segir að reglur hér á landi um skyldur fjölmiðla í tengslum við kosningar hafi ekki verið jafn ítarlegar og víða þekkist í nágrannaríkjunum. Bent er á mikilvægi þess að fjölmiðlar gæti að því að veita almenningi fullnægjandi upplýsingar, svo hann geti lagt mat á gildi frétta sem byggjast á niðurstöðum skoðanakannana, það eigi sérstaklega við skömmu fyrir kosningar. Nefndin lagði til að menntamálaráðherra kannaði hvort fjölmiðlar vildu í samstarfi við fræðimenn og sérfræðinga á sviði skoðanakannana skilgreina ákveðin gæðaviðmið um hvað teldist fagleg könnun og hvaða upplýsingar fjölmiðlar ættu að veita almenningi um kannanir sem þeir fjalla um. Viðmiðin hafa ekki verið skilgreind eða leidd í lög hér. Í íslensku fjölmiðlalöggjöfinni er þó að finna almenn ákvæði um hlutlægni og nákvæmni. 

Þess má geta að árið 1999 gaf Evrópuráðið út tilmæli þess efnis að settar yrðu reglur um hvernig skoðnakannanir eru settar fram í fjölmiðlum. Þær geti til dæmis falið í sér að almenningur fái alltaf upplýsingar um fjölda í úrtaki, skekkjumörk og hvenær könnun var gerð. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hildur Þórðardóttir forsetaframbjóðandi er mótfallin skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga.

Fjölmörg ríki banna skoðanakannanir

Rannsókn sem gerð var við háskólann í Hong Kong árið 2012 og tók til 83 ríkja leiddi í ljós að 38 átta þeirra takmörkuðu birtingar kannana í aðdraganda kosninga. Meðal þeirra eru; Kanada, Búlgaría, Hondúras, Spánn, Pólland, Noregur og Frakkland. Í flestum tilfellum er bannið stutt, einn til þrír dagar. Í Grikklandi er þó tveggja vikna bann og á Spáni fimm daga bann. Singapúr bannar skoðanakannanir í aðdraganda kosninga alfarið, lýðræðið er reyndar víða sterkara en þar. 

Telja að kannanir geti gefið ranga mynd

Þau ríki sem velja að takmarka tjáningar- og upplýsingafrelsi í aðdraganda kosninga telja að skoðanakannanir geti gefið ranga mynd og benda á að þeir sem framkvæma þær séu ekki alltaf óháðir. þau takmarka því rétt til tjáningar- og upplýsingafrelsis þar sem þau telja hann skarast við rétt borgara til þess að taka þátt í frjálsum kosningum. Flestir eru þó sammála um að í lýðræðisríkjum ætti sá tími sem bannið er í gildi að vera sem stystur, og bönnin hafa í seinni tíð verið að styttast. Þá velja mörg ríki að leggja heldur skyldur á herður fjölmiðla um að þeir hugi að gæðum kannana og veiti almenningi sem mestar upplýsingar um þær. Samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu má takmarka rétt borgara til tjáningafrelsis teljist það nauðsyn svo sem vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða til þess að vernda réttindi borgara.

Lífsseig umræða

Umræðan um kannanabann er lífsseig og skýtur reglulega upp kollinum hér á landi sem og annars staðar. Eftir bresku kosningarnar í fyrra lagði einn þingmaður Verkamannaflokksins til að bann yrði innleitt í bresk lög. Bann hefur verið til umræðu í Austurríki og búlgarska þingið hafnaði í síðustu viku frumvarpi um að banna skoðanakannanir alfarið í aðdraganda kosninga. Frumvarpið vakti mikla reiði meðal almennings í landinu sem sagði það brjóta gegn stjórnarskránni og tjáningarfrelsi borgara. Fyrri lög sem banna kannanir síðasta daginn fyrir kosningar verða áfram í gildi. 

Forsetaframbjóðendur á móti könnunum

Tveir forsetaframbjóðendur; Ástþór Magnússon og Hildur Þórðardóttir, hafa lýst því yfir að æskilegt væri að banna skoðanakannanir í aðdraganda kosninga. Hildur segir í pistli í Kjarnanum að fjölmiðlar beiti skoðanakönnunum markvisst til þess að stjórna almenningsálitinu og koma sínum frambjóðanda eða flokki á framfæri. Lýðræðið sé greinilega lengra komið í Bútan, Noregi og Grikklandi en hér á landi. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi