„Það er alveg sama hvað gerist, ekkert breytist“

20.11.2019 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Í dag er ár liðið frá því að sex þingmenn, fjórir úr Miðflokknum og tveir úr Flokki fólksins, sátu að sumbli á Klausturbar í miðbæ Reykjavíkur og létu gamminn geisa.

Bára Halldórsdóttir sat á næsta borði og hlýddi á tal þingmannanna sem fóru ófögrum orðum um til að mynda aðra þingmenn, konur og öryrkja. Bára tók samtalið upp, lak því síðar til fjölmiðla og úr varð Klaustursmálið - sem er að mörgu leyti fordæmalaust í íslenskri stjórnmálasögu. Fátt annað komst að í umræðunni um langa hríð og málið vakti upp margvíslegar spurningar um persónuvernd og siðareglur þingmanna. Fjölmenn mótmæli voru haldin og leiklestur á upptökunum fyrir fullum sal Borgarleikhússins.

Bára ætlaði fyrst um sinn að taka samtalið upp í gríni. „En svo fóru þeir að tala dýpra og dýpra um hluti sem voru algjörlega út úr kú og virkilega slæmir ef þeir ef þeir eru í stjórnarstöðum og þá ákvað ég bara að halda áfram að taka þá upp.“

Brutu siðareglur Alþingis

Fjórir þingmenn MIðflokksins leituðu til Persónuverndar í desember í fyrra og óskuðu eftir því að það yrði rannsakað hvort Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal þeirra, hefði átt sér samverkamenn. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að upptakan hefði brotið í bága við persónuverndarlög, meðal annars vegna lengdar hennar.  Báru var hins vegar ekki gert að greiða sekt þar sem Persónuvernd taldi að þingmenn nytu minni einkalífsverndar en aðrir sem almannapersónur.

Mynd með færslu
 Mynd:
Klaustursþingmennirnir sex.

Þingmennirnir létu einnig reyna á málið fyrir dómstólum og óskuðu eftir því að gagnaöflunarvitnaleiðslur færu fram vegna hugsanlegrar málsóknar á hendur Báru. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu og taldi ekkert benda til þess að hún hefði átt sér vitorðsmenn. Landsréttur staðfesti svo þann úrskurð. 

Forsætisnefnd Alþingis fellst síðar á mat siðanefndar Alþingis að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur Alþingis með ummælum sínum á Klausturbar. Hinir þingmennirnir fjórir reyndust ekki brotlegir. 

Sjá einnig: Klausturmálið: Hvað hefur gerst?

Mynd með færslu
 Mynd:
Mótmæli á Austurvelli.

Klausturgate - ári síðar

Bára stendur fyrir málþingi í dag undir yfirskriftinni Klausturgate - ári síðar. Þar hyggst hún veita þolendum rödd og rými til að tjá sig og að ræða Klaustursmálið og eftirmál þess, með sérstakri áherslu á áhrif á öryrkja, fatlaða og hinsegin fólk. Á meðal þeirra sem taka þátt í málþinginu er það fólk sem þingmennirnir gerði að umtalsefni sínu.  Hún segir að ýmsan lærdóm megi draga af málinu. 

Hana óraði ekki fyrir þeim gríðarlegu viðbrögðum sem upptakan vakti. Þrátt fyrir alla umfjöllunina segir hún þo lítið hafa breyst, og þær breytingar sem hafi átt sér stað séu of hægar. 

„Þetta mál skilur eftir sig tilfinninguna um það að það er alveg sama hvað gerist, ekkert breytist. Það skilur eftir sig fólk á þingi sem á erfitt með að vera á þingi áfram og það skilur eftir sig sjúkrahúsreikninga og fjárhagstap fyrir mig.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Skýra þurfi lög og regluverk

Bára segir kerfið ekki hafa tekið á málinu eins og skyldi. Þær reglur sem til staðar séu hafi brugðist, sem sé ekki gott.

„Við þurfum betri löggjöf eða reglur inn í þingið til þess að starfsmenn þar upplifi starfsöryggi á vinnustað, við þurfum lög um uppljóstrara og kannski að uppræta þessa þagnarmenningu sem er á Alþingi.“

Hefðirðu tekið sömu ákvörðun í dag, svona eftir á að hyggja, að taka samtalið upp og leka því til fjölmiðla? 

 „Já, af því að mér finnst það bara vera skylda mín sem íslensks borgara sko. Ég meina þetta er eitthvað sem skiptir okkur öll máli.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi