Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Það er alveg rifist út af gríni“

Mynd: Margrét Seema Takyar / Margrét Seema Takyar

„Það er alveg rifist út af gríni“

12.11.2017 - 11:45

Höfundar

Handritið að áramótaskaupinu var klárað fyrir helgi en áætlað er að tökur hefjist í næstu viku. Það er Dóra Jóhannsdóttir leikkona sem er yfirhandritshöfundur í ár, en þetta er í fyrsta skipti sem hún skrifar skaupið.

Með henni í handritshópnum eru Anna Svava Knútsdóttir sem hefur unnið að fjórum áramótaskaupum og er mesti reynsluboltinn, Saga Garðarsdóttir sem hefur skrifað eitt skaup, og svo Dóri DNA og Bergur Ebbi Benediktsson sem eru að koma að skaupskrifum í fyrsta skiptið. „Svo er Arnór Pálmi Arnórsson leikstjóri sem leikstýrði Ligeglad, Hæ Gosa, og fullt af góðu gríni,“ segir Dóra Jóhannsdóttir í viðtalið við Síðdegisútvarpið.

Fundir handritsteymisins eru að sögn Dóru mjög skemmtilegir, en ekki alveg lausir við átök. „Það er alveg rifist út af gríni, það er mjög fyndið. „Þetta er víst fyndið!“ kallar einhver og „Sannaðu það!“ öskrar annar.“ Hópurinn hittist reglulega og fer skipulega yfir árið til að rifja upp helstu atburði sem gætu nýst þeim sem eldiviður á grínbálið. „En sumt sem stóð kannski hæst er núll fyndið. Vil ekki nefna dæmi, en það er sumt sem er alveg, „Ókei ég vil tækla þetta, en það er bara of myrkt.“ Þetta er erfitt en við reynum við allt,“ segir Dóra.

„Tilfinningin hjá okkur er mjög góð og við erum sátt við verkið,“ segir Dóra um handritið sem þau hafa nú sett punkt fyrir aftan. „Við getum breytt setningu og setningu hér og þar, en það mega ekki verða algjörir viðsnúningar. Vonandi að fólk hagi sér bara og geri ekkert mjög fáránlegt eða fyndið, verði bara kurteist heima hjá sér,“ segir Dóra að lokum. 

Rætt var við Dóru Jóhannsdóttur í Síðdegisútvarpinu.