„Það á eftir að koma í ljós hversu skæð sýkingin er“

Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir
Kínversk stjórnvöld hafa staðfest að ný veira, sem nýlega greindist í landinu, getur borist manna á milli. Á annað hundrað hafa sýkst af veirunni og þrír látist. Upptök sýkingarinnar eru rakin til fiskmarkaðar í borginni Wuhan í suðurhluta Kína og hafa flest tilfellanna greinst þar í borg. Kínverska nýárið er handan við hornið og margir á faraldsfæti en stjórnvöld segjast hafa stjórn á aðstæðum.Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur ekki tilefni til að grípa til sérstakra aðgerða hér.

„Ef að veirur breyta sér á þann hátt að þær smitast auðveldlega á milli einstaklinga og eru auk þess alvarlegar og með hátt dánarhlutfall, þá erum við komin í nýjan veruleika sem þarf að bregðast við en við erum ekki þar með þennan sjúkdóm eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur. Tölurnar séu ekki það háar að það gefi tilefni til sérstaks viðbúnaðar. 

Markaðurinn lokaður vikum saman

Á þessum árstíma iðar fiskmarkaðurinn í Wuhan, höfuðborg Hubei-héraðs í suðurhluta Kína yfirleitt af lífi en ekki í ár. Markaðurinn hefur verið lokaður frá því í desember. Ástæðan er sú að nýja kórónaveirusýkingin er talin hafa átt upptök sín þar. Veiran veldur hita, kvefi, lungnabólgu og öndunarerfiðleikum. Það eru hvorki til bóluefni né lyf við henni. Um helgina greindust 136 ný tilfelli í Wuhan. Alls hafa rúmlega tvö hundruð greinst með veiruna og af þeim hafa þrír látist. 

epa08143670 A woman wears a mask while walking past the closed Huanan Seafood Wholesale Market, which has been linked to cases of a new strain of Coronavirus identified as the cause of the pneumonia outbreak in Wuhan, Hubei province, China, 20 January 2020. China reported on 20 January an additional death and surge of 139 new confirmed cases of the mysterious SARS-like virus linked to the Wuhan pneumonia outbreak, bringing the total number of cases to 198 with three deaths so far.  EPA-EFE/STR CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Grímuklædd kona gengur í gegnum fiskmarkaðinn.

Deskettir og drómatar

Kórónaveirur berast frá dýrum í menn og á fiskmarkaðinum voru til sölu lifandi dýr. Nýja veiran er sögð minna á SARS-veiruna en 650 létust í SARS-faraldrinum í Kína og Hong Kong skömmu eftir aldamótin 2000. Sars-veiran er kórónaveira sem smitaðist úr desköttum í menn og svo manna á milli. MERS-veiran sem geisaði á Arabíuskaganum árið 2012 var líka Kórónaveira og barst úr drómötum.

Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia
Desköttur.

Milljónir á faraldsfæti

Nýja árið gengur í garð þann 25. janúar. Nýárshátíðin er fjölskylduhátið, milljónir Kínverja leggja þessa dagana land undir fót, fara heim í hérað yfir hátiðirnar. Þau sem voru á heimferð í dag voru mörg með grímu.  Lestirnar eru jafnan troðfullar og margar stoppa í Wuhan sem er 11 milljóna manna borg. Þá safnast fjöldi fólks saman til að fylgjast með skrúðgöngum með tilkomumiklum furðuskepnum. Þetta er ákveðið áhyggjuefni í ljósi upplýsinga um að veiran geti smitast milli fólks.

Skima fyrir einkennum hjá flugfarþegum

epa08140315 Medical staff carry a patient into the Jinyintan hospital, where patients infected with a new strain of Coronavirus identified as the cause of the Wuhan pneumonia outbreak are being treated, in Wuhan, China, 18 January 2020 (issued 19 January 2020). China on 19 January 2020 reported 17 new cases of the new mysterious SARS-like virus linked to the Wuhan pneumonia outbreak that has killed two people and sickened at least 62, raising fears ahead of the Chinese New Year holidays where millions of people are expected to travel around the country.  EPA-EFE/STRINGER CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisstarfsfólk flytur sjúkling á spítala í Wuhan.

Flest tilfelli hafa greinst í Wuhan en veiran hefur líka greinst í öðrum stórborgum, svo sem Peking, Shanghai og Shenzen, þá hafa tilfelli greinst í Taílandi, Japan og Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Kína segjast hafa stjórn á aðstæðum. Spítalar hafa gert ráðstafanir og heilbrigðisráð kínverskra stjórnvalda hefur sent teymi til allra héraða landsins í því skyni að hamla útbreiðslu. Á nokkrum flugvöllum og lestarstöðvum eru farþegar skimaðir fyrir hita- eða kvefeinkennum. Þá hafa verið teknar upp skimanir á flugvöllum í nokkrum nágrannaríkjum og nokkrum borgum í Bandaríkjunum. Xi Jinping, forseti Kína, tjáði sig um sýkinguna í dag, sagði að setja þyrfti líf og heilsu borgara í fyrsta sæti og halda aftur af útbreiðslu veirunnar.

Heilbrigðisstarfsmenn hér upplýstir

Landlæknisembættið hefur upplýst Heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi um þessa nýju sýkingu og beðið þá að vera á varðbergi ef til þeirra leitar veikt fólk sem nýlega hefur dvalið í Suður- Kína. Fólki sem hefur dvalið þar, og þarf að leita læknis eftir komuna til Íslands er líka bent á að greina heilbrigðisstarfsfólki frá ferðum sínum.

Venjulegar kórónaveirur ekki hættulegar

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, vaktar útbreiðslu sýkingarinnar í Kína en telur ekki tilefni til að örvænta. Það eigi eftir að koma í ljós hversu skæð sýkingin er. „Það er vitað að þetta er nýtt afbrigði af þessari svokölluðu Kórónaveiru sem veldur þessum lungnabólgum. Kórónaveirur eru flokkur af veirum með mörgum undirtegundum sem getur valdið kvefeinkennum en á undanfarið árum hafa komið upp nýjar tegundir af þessum Kórónaveirum sem geta verið alvarlegri en venjulegar Kórónaveirur, SARS-veiran til dæmis og svo MERS-veiran sem kom upp á Arabíuskaganum árið 2012. Þær höfðu þann eiginleika að þetta voru nýjar veirur, þær smituðust á milli manna og voru alvarlegar en venjulega eru Kórónaveirur það ekki,“ segir Þórólfur.

Hvað varðar nýju veiruna segir Þórólfur að það virðist sem ekki sé mikil smithætta milli einstaklinga. Fólk sem hefur greinst með veiruna í öðrum héruðum Kína eða öðrum löndum hafi flest dvalið nýlega í Wuhan-borg. Menn séu á byrjunarreit og það eigi örugglega margt eftir að koma í ljós, bæði um hvort veiran smitist auðveldlega milli manna og hversu alvarleg hún sé.

epa08143667 Chinese residents wear masks while waiting at a bus station near the closed Huanan Seafood Wholesale Market, which has been linked to cases of a new strain of Coronavirus identified as the cause of the pneumonia outbreak in Wuhan, Hubei province, China, 20 January 2020. China reported on 20 January an additional death and surge of 139 new confirmed cases of the mysterious SARS-like virus linked to the Wuhan pneumonia outbreak, bringing the total number of cases to 198 with three deaths so far.  EPA-EFE/STR CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fólk á gangi í Wuhan-borg.

Búum ekki endilega í verri heimi

Til að greina veiruna þarf nýjar greiningaraðferðir. „Það má vel vera að það gerist, þegar menn fara að leita meira og beita nýjum aðferðum við að finna þessa veiru, að þá fari menn að finna meira. Þá er rétt að minna á það að við langflestum veirusýkingum, kvefi, öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, fær maður aldrei almennilega greiningu. Við erum að fara inn í nýjan heim þar sem menn eru að greina meira en áður og það þarf ekki að þýða að við búum í verri heimi en áður.

Smit milli manna ekki áhyggjuefni í sjálfu sér

SARS-veiran var skæð, dánartíðni af völdum hennar var um 30%. Þórólfur segir ekkert benda til þess að dánartíðni af völdum nýja sjúkdómsins sé sambærileg og þó í ljós komi að hann smitist milli manna þurfi það ekki að vera áhyggjuefni í sjálfu sér. „Þó hann smitist auðveldlega milil manna eins og venjulegar Kórónaveirur gera þarf það ekki að þýða neitt sérstaklega, þó nokkrir einstaklingar veikist alvarlega þá gerist það með fjölda margar aðrar veirur. Hins vegar þarf að skoða bæði hvort hún smitist auðveldlega milli manna og hvort hún valdi alvarlegum einkennum eða dauða, það væri mjög alvarlegt en þetta á eftir að koma betur í ljós, það er ennþá staðfest þrjú dauðsföll af völdum veirunnar og kannski eru þau fleiri en það er ekki mikill fjöldi miðað við dauðsföll af völdum smitsjúkdóma almennt. Þetta þarf bara að skoða dálítið betur.

Ekki til bóluefni

Það eru ekki til lyf eða bóluefni gegn veirunni. Þórólfur segir að tekist hafi að stöðva SARS-faraldurinn með því að beita einangrun og sóttkví. Hann segir að það þurfi að veita þeim sem veikjast alvarlega nú stuðning og umönnun. Þá þurfi hugsanlega að sinna þeim í einangrun.

„Ekki ástæða til dramatískra aðgerða“

Landlæknisembættið hvetur ferðamenn, einkum þá sem eiga leið um Suður-Kína, til þess að huga vel að hreinlæti, forðast að snerta dýr eða dýraafurðir forðast samskipti við fólk með kvefeinkenni. Þórólfur sér enga ástæðu til þess að taka upp skimanir á Keflavíkurflugvelli. Skimanir séu dýrar, mannaflsfrekar og hafi ekki gefist sérstaklega vel. „Maður getur sett mörg og stór spurningarmerki við árangurinn af svona aðgerðum. Þetta var gert í heimsfaraldrinum árið 2009, gafst mjög illa þrátt fyrir mikinn tilkostnað. Ég sé ekki alveg að það sé eitthvað sem við myndum grípa til eða hefðum tök á að grípa til. Það sem við höfum gert er að við höfum upplýst heilbrigðiskerfið bæði heilsugæsluna og spítalana um þessa sýkingu og beðið menn að vera á varðbergi ef þeir greina einstaklinga, sem hafa verið á ferðalagi í Suður-Kína, með svona sýkingu. Við höfum sett þetta líka á okkar heimasíðu og hvatt almenning til almennra hreinlætisaðgerða.“

Hann segir ekki ástæðu til að hvetja til ferðabanns til Suður-Kína eða takmarka viðskipti. Þá sé engin ástæða til þess að setja upp skilti á Keflavíkurflugvelli vegna þess fjölda kínverskra ferðamanna sem sækir landið heim. „Ég tel enga ástæðu til að ráðast í neinar dramatískar aðgerðir, Kína er stórt land, þetta er lítill hluti af Kína og ég tel ekki ástæðu að fara út í slíkt, ekki nema staðan breytist eitthvað og sjúkdómurinn verði eitthvað öðruvísi. “

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi