„Þá er orðið of seint að snúa drengnum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þá er orðið of seint að snúa drengnum“

07.01.2020 - 10:57

Höfundar

„Hvernig verður manneskja til sem verður aðalhvatamaður í þessu eftir alla þessa afhjúpun á grimmd sem beindist ekki síst gegn gyðingum?“ spyr rithöfundurinn Sjón í skáldsögu sinni um uppgang nýnasisma á Íslandi eftir síðari heimsstyrjöldina.

Sjón sendi fyrir jólin frá sér skáldsögu sem fjallar um hugmyndir og veruleika íslenskra nasista í lok sjötta áratugar. Bókin nefnist Korngult hár, grá augu og segir frá Gunnari Kampen, ungum manni sem elst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og gerist hliðhollur nýnasisma. Gunnar stofnar andgyðinglegan stjórnmálaflokk eftir seinni heimsstyrjöldina en hann á sér fyrirmynd í íslenska nasistanum Bernhard Haarde sem var aðalhvatamaður að stofnun Þjóðernissinnaflokks Íslands og lést ungur líkt og Gunnar í bókinni. „Ég er sannfærður um að þessi tiltekni ungi maður kveikti hugmyndina hjá mér en ég vil taka fram að persónan í bókinni er ekki nákvæm endurgerð á þeim manni. Ég breyti allri fjölskyldugerð og í raun veit ég ekki mikið um hann umfram þá grunnteikningu sem ég náði mér í,“ sagði Sjón við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1. Hann hefur lengi haft áhuga á seinni heimsstyrjöldinni og þeim hugmyndum sem uppi voru í kjölfar hennar en hann er sjálfur fæddur árið 1962 um það leyti sem sagan gerist. Í grúski sínu um nasisma á Íslandi á þessum tíma rakst hann meðal annars á upplýsingar um lítinn hóp þjóðernissinna í athyglisverðum reiðhjólaklúbbi í Vesturbæ og birtist sá klúbbur í sögu Sjóns sem mikill örlagavaldur í lífi hins unga Gunnars Kampen sem heillast af hugsjónum klúbbfélaga.

Sjón stóð frammi fyrir erfiðri áskorun þegar hann hóf að skrifa bókina sem fólst í að segja söguna frá sjónarhóli manneskju sem hann er sjálfur innilega ósammála. Hann fullyrðir að mikilvægt sé, alltaf þegar höfundur skrifar skáldsögu, að honum takist að standa með aðalpersónunni og hann hafi því lagt upp með það flókna verkefni að segja sögu hans án þess að dæma hann. „Það var í raun ekki fyrr en ég áttaði mig á því að aðalpersóna bókarinnar, og sá maður sem var fyrirmynd hans, deyr mjög ungur frá þessu verkefni. Þá vissi ég að ég gæti gert eitthvað við þetta þar sem ég var kominn með andhverfu hetjusögunnar,“ segir hann.

Bókin hefst á því að farið er yfir nokkra atburði úr æsku Gunnars og þá kemur brátt í ljós að hugmyndir nasismans voru enn allt um lykjandi. Þrátt fyrir að styrjöldinni hafi verið lokið þá hafi hugsjónin ekki horfið heldur hafi fólk sem aðhylltist nasisma einfaldlega farið leynt með skoðanir sínar um sinn. Þegar ungur maður fór að sýna þessum hugmyndum áhuga á þessum tíma hafi enn verið nóg af eldra fólki sem var tilbúið til að hvetja hann áfram í baráttu sinni.

Bernhard Haarde, fyrirmynd Gunnars, kemst líkt og Gunnar í samband við lykilfólk í nasistahreyfingunni á heimsvísu þegar hann skrifast á við fólk á borð við Savitri Devi sem gjarnan var kölluð amma nýnasismans og George Lincoln Rockwell sem var liðsforingi í bandaríska sjóhernum og stofnandi Bandaríska Nasistaflokksins. „Hann setur sig í samband við fólk um allan heim og safnar liði fyrir alveg ömurlegan málstað. Það var þessi mótsögn í manninum sem berst fyrir hugsjón og deyr frá henni sem fékk mig til að skoða hvernig þessi náungi varð til.“

Gunnar skrifast á við þetta fólk en hlýtur einnig mikinn stuðning frá vinalega nágranna sínum, Lúther, sem fer fyrir þjóðernissinnaða reiðhjólaklúbbnum Sleipnis sem er í nágrenninu og reynist einnig vera þýskuskóli. Gunnar á í stirðu sambandi við föður sinn en er áhugasamur um Lúther og félagsskap hans. „Þegar á reynir er þessi Lúther alltaf til staðar fyrir hann sem góður nágranni,“ segir Sjón. Þegar hins vegar Lúther snýst hugur er ungi maðurinn þegar of djúpt sokkinn í hugmyndafræðina til að átta sig. „Þegar Adolf Eichmann réttarhöldin hefjast í Ísrael og hversdagsleiki hins illa verður ljós þá snýst Lúther en þá er orðið of seint að snúa drengnum.“

Rætt var við Sjón í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lágstemmd bók um kræsilegan efnivið

Bókmenntir

Fólkið sem tignaði Hitler