Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tesla stefnir Grimes og Azealiu Banks

Mynd með færslu
 Mynd:

Tesla stefnir Grimes og Azealiu Banks

18.01.2019 - 18:12

Höfundar

Héraðsdómstíll í Norður-Kaliforníu hefur samþykkt stefnu á hendur tónlistarkonunum Grimes (Claire Boucher) og Azealiu Banks í tengslum við yfirstandandi lögsókn á hendur Elon Musk af hálfu hluthafa fyrirtækisins. Tónlistarkonunum hefur verið gert að varðveita gögn sem tengjast tístum frá Musk sem hluthafar Tesla telja hafa skaðað fyrirtækið.

Þá hefur Business Insider, the New York Times og vefmiðlinum Gizmodo einnig verið stefnt. Stefnurnar eru tilskipanir til hlutaðeigandi um varðveislu gagna, þar á meðal skilaboða á Twitter og Instagram og annara hugsanlegra sönnunargagna sem tengjast lögsókninni, sem tilgreint er í stefnunni að sé „afskaplega auðvelt að eyða.“

Hlutaðeigandi hafa ekki verið kölluð til að bera vitni fyrir dómi, samkvæmt frétt Business Insider. Grimes, Banks og Elon Musk hafa ekki tjáð sig við fjölmiðla um málið. Lögsókn Tesla er hópmálsókn af hálfu fjárfesta í Tesla sem saka Musk um að hafa farið með röng og misvísandi ummæli á Twitter í ágúst 2018. Þar sagðist hann íhuga afskráningu fyrirtækisins af markaði.

Saka Musk um blekkingar

Kveðið er á um að tíst Musk síðan í ágúst hafi blekkt hluthafa sem í framhaldinu töldu ranglega að hann hefði tryggt fjármagn til að taka fyrirtækið af markaði fyrir 420 dali á hlut. Tístið olli 11% lækkun á virði hlutabréfa í fyrirtækinu. Musk réttlætti tístið í bloggi þar sem hann segir að sjóður í eigu Sáda sem á 5% hlut í Tesla hefði ítrekað boðið honum frekara samstarf. Ef rannsakendur komast að þeirri niðurstöðu að Musk hafi farið með ýkjur varðandi eðli þeirra viðræðna gæti það skapað grundvöll fyrir lögsókn vegna markaðsmisnotkunar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Elon Musk

Grimes var í sambandi með Musk þegar tístið var birt og hafði þá nýlega ferðast með honum til Kína. Azealia Banks segist hafa verið gestur í húsi í eigu Musk í Los Angeles þegar hann birti tístið og segist hafa verið þar að bíða eftir Grimes vegna fyrirhugaðs tónlistartengds samstarfs.

Azaelia Banks talin lykilvitni

Banks segist hafa séð Musk „í sníkjum“ á eftir fjárfestum, segir í frétt The Guardian um málið. Hún hélt einnig fram við sama tækifæri að Musk hafi verið undir áhrifum sýru þegar hann skrifaði tístið. Musk hélt því fram að þau hefðu aldrei hist. Þá segir í stefnunni að Banks hafi reynst lykilvitni í málinu.

„Boucher [innsk blm. skírnarnafn Grimes] og Banks voru í nánum tengslum við Musk áður og eftir að tístið var birt og er ástæða til að halda að þær hafi undir höndum mikilvæg sönnungargögn sem gætu varpað ljósi á fyrirætlanir Musk.“ sagði Adam M. Apton, lögfræðingur stefnenda í samtali við Business Insider.

Banks bað Musk opinberlega afsökunar í lok ágúst þar sem hún tjáði eftirsjá og samkennd vegna þeirra erfiðleika sem hann hafði gengið í gegnum þá undangengnu viku. Samband Banks og Musk hefur þó verið stormasamt í gegnum ferlið og má fylgja sögunni að fimmta janúar náðu deilur þeirra hámarki þegar lögfræðiteymi Musk dró áreiðanleika Banks í efa í skýrslu vegna hóplögsóknarinnar. Banks brást við með hótunum og sagðist við það tækifæri hafa undir höndum „meiri skít á Musk.“

Ekki fyrsta tístið sem ögrar

Annar armur af sama máli varðar Bandaríska verðbréfaeftirlitið (Securities and Exchange Commission), sem höfðaði mál gegn Musk í september í fyrra á þeim forsendum að hann væri að blekkja fjárfesta, vegna sama tísts. Að enginn grundvöllur væri fyrir því sem þar var haldið fram og að ólga á mörkuðum í kjölfarið hafi skaðað fjárfesta, segir í kærunni.

Í beinu framhaldi komst Musk aftur í heimsfréttirnar þegar hann síðan hrósaði „Skortsalaauðgunarstofnun“ (Shortsellers Enrichment Commission) fyrir vel unnin störf. Sú stofnun er ekki til en upphafsstafir uppdiktuðu stofnunarinnar eru þeir sömu og hjá bandaríska verðbréfaeftirlitinu. Talið er að með tístinu hafi Musk ætlað að ögra eftirlitinu, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa loksins náð samkomulagi um lyktir í málinu. Hlutabréf í Tesla féllu um 4,4% á fyrsta sólarhringnum eftir að tístið var birt.

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Space X segir upp 10% starfsmanna

Fólk í fréttum

Musk reynir að snúa sig út úr meiðyrðamáli

Tækni og vísindi

Háhraðaneðanjarðargöng fyrir fólksbíla

Erlent

Musk ákærður fyrir villandi upplýsingar