Tengja við ánægjuna af því að vera í kroppnum

Mynd: Anna Richardsdóttir / Anna Richardsdóttir

Tengja við ánægjuna af því að vera í kroppnum

15.01.2020 - 14:20

Höfundar

Dansarinn og gjörningalistamaðurinn Anna Richardsdóttir hefur kennt og unnið með dans og hreyfingu í fjölda ára. Hún lærði dans í Þýskalandi á sínum yngri árum og hefur síðan ferðast víða og kynnst dansmenningu ólíkra landa. Nýverið bjó hún í ár á Spáni þar sem hún kynntist aðferðum sem hún nýtir sér í danskennslunni.

Aðferðin sem Anna kynntist á Spáni nefnist gaga-tækni og var þróuð af ísraelska danshöfundinum Ohad Naharin. Hún segir að aðferðin hafi talað hratt til sín og speglað mjög margt sem hún hefur verið að gera í gegnum tíðina.

Síðan hefur hún þróað áfram margt úr þessari tækni og býður nú upp á námskeið í því sem hún kallar flæðidans. Námskeiðin heldur hún reglulega í jóga- og gongsetrinu Ómi á Akureyri. Tímarnir henti öllum, hvort sem þau eru vön dansi eða ekki. 

„Þannig var það líka úti í Barcelona. Það voru prófessjónal dansarar að mæta í tíma með fólki sem hafði aldrei dansað, og allt þar á mili. Og öll nutum við þess ofboðslega að vera að gera þetta, vegna þess að grunnurinn í þessum flæðidansi, eins og ég er að kynna hann á Akureyri, er að tengja við ánægjuna af því að vera í kroppnum. Að tengja við eitthvað innra ferðalag sem þú ferð í og nánast að tengja við hreyfinautnina - nautnin og ánægjan af því að vera að hreyfa sig,“ segir Anna.

Í tímunum leiðir Anna þátttakendur áfram í stöðugu dansflæði í heilan klukkutíma. Allt byggist þetta á ánægjunni af því að finna kroppinn og dvelja í honum. En kemur það fólki á óvart hvernig líkami þeirra hreyfir sig í dansflæðinu? Sérstaklega fólk sem er ekki vant að hreyfa líkamann mikið.

„Já, ég hugsa það. Fólk verður hissa hvað það á mikið af litlum vöðvum á mörgum stöðum inni í kroppnum, sem hægt er að fara í, og vinna með og skemmta sér á. Staðurinn á milli lífbeinsins og setbeinanna. Hvenær ertu að leika þér að því að stækka og minnka það bil? Eða fyrir aftan hálsinn, hvenær ertu að kanna það svæði? Þannig að þetta eru svona könnunarleiðangarar og ferðalög.“

En hefur svona dansflæði góð áhrif á andlega líðan?

„Já, ég kem allavega rosalega glöð út þegar ég er búin að dansa. Ég held að það hafi góð áhrif á andlega heilsu, bæði að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt og dýpka sig í einhverju sem tengist hreyfingu og tjáningu. Og það er mikil sköpun í þessum dansi og hún er af hinu góðu fyrir andlegt heilbrigði, myndi ég halda,“ segir Anna.

Talað var við Önnu Richarsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Viðtalið í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Leiklist

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann

Bókmenntir

„Þá er orðið of seint að snúa drengnum“

Bókmenntir

Lykillinn að hafa það sem leiðinlegast

Dans

„Íslendingar dansa ekki eftir takti“