Tendrað á síðasta trénu sem kemur frá Ósló

Mynd með færslu
Dagur ásamt Khamzy þegar þau felldu saman jólatréð fyrir utan Ósló. Mynd: Dagur B. Eggertsson - Facebook

Tendrað á síðasta trénu sem kemur frá Ósló

29.11.2015 - 10:30

Höfundar

Söguleg stund verður á Austurvelli síðdegis í dag en þá verða ljósin tendruð á síðasta jólatrénu sem flutt er til landsins frá Ósló. Borgirnar hafa ákveðið að sendingum jólatrjáa frá Noregi verði hætt en í staðinn mun norska höfuðborgin gefa Reykjavík tré úr Heiðmörk. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Khamshajiny Gunaratnam, varaborgarstjóri í Ósló, munu skoða framtíðarjólatréð í Heiðmörk í hádeginu.

Óslóartréð hefur verið órjúfanlegur hluti af jólahefð Reykjavíkur en Norðmennirnir hafa gefið borginni jólatré frá árinu 1951. Það vakti því mikla athygli þegar borgarstjórinn í Ósló greindi frá því í fyrra að norska höfuðborgin ætlaði ekki að gefa Reykjavíkurborg tré - það væri dýrt, flókið og óumhverfisvænt.

Fabien Stang,borgarstjóra í Ósló, snerist síðan hugur og á sjálfan þjóðhátiðardag Íslendinga ákvað viðskiptaráð borgarinnar að Reykjavík skyldi fá sitt jólatré.  Stang sagði að komið hefði í ljós að Íslendingar ættu ekki eins góð jólatré og þeir hefðu haldið. Tréð sem kom frá Ósló þau jólin lifði þó ekki af óveður sem gekk yfir landið í byrjun desember og í staðinn kom jólatré úr Heiðmörk. 

Eftir nokkuð hik og hlátrasköll á tveggja manna söginni þá skotgekk að fella Oslóartréð með hinni mögnuðu Khamsy, sem er...

Posted by Dagur B. Eggertsson on 4. nóvember 2015

Dagur og Gunaratnam ætla þó ekki bara að tendra ljósin á jólatrénu. Þau ætla einnig að koma við í minningarlundi um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í Útey við Norræna húsið þegar þau snúa aftur úr Heiðmörk. 

Gunaratnam, sem er af tamílsku bergi brotnu, var ein þeirra sem lifði af árásina í Útey. Hún reyndi að synda til lands eftir að öfgamaðurinn Anders Behring Breivik hóf að skjóta á ungliða Verkamannaflokksins.