Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur við fyrstu sýn að fornlurkurinn sé birki

20.10.2017 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Talið er að trjádrumbur sem kom undan Breiðamerkurjökli sé úr fornum birkiskógi frá því áður en jökullinn lagðist þar yfir og gæti verið mörg þúsund ára gamall. Sýni úr honum verða send til aldursgreiningar og árhringir taldir. Rótarhnyðja sem einnig fannst verður ekki sótt fyrr en í vetur eða vor. Hún virðist rótföst í setinu og gæti orðið merkur sýningargripur.

Fannst í fornum smávötnum

Sérfræðingar Vatnajökulsþjóðgarðs, Náttúrstofu Suðausturlands og Háskólaseturs Suðausturlands fóru nýverið að Breiðamerkurjökli en þar hafði fundist trjádrumbur í setlagi. Svæðið er innan þjóðgarðsins sem gaf leyfi fyrir rannsókninni. Blettir með setlögum á þessum stað eru taldir merki um smávötn til forna en elstu gróðurleifar í þeim reyndust 4600 ára gamlar. Drumburinn fannst í setlagi sem er sýnilegt í gljúfri sem afrennsli af jöklinum hefur grafið í jökulurðina. Gróðurleifar í þessu sama setlagi hafa reynst um 3000 ára gamlar.

Drumburinn rannsakaður og forvarinn

Snævarr Guðmundsson, sviðsstjóri hjá náttúrustofunni, stýrði leiðangrinum. Áður en drumburinn var tekinn kortlagði hann setlögin í kringum um hann nákvæmlega. „Það sem við viljum fá staðfest er hvað tré þetta er. Við teljum að þetta sé birki en við viljum fá það staðfest. Við viljum líka vita hvað hann hefur vaxið lengi þannig að við munum væntanlega saga úr sneið til að geta talið árhringina,“ segir Snævarr.  Þá verður sýni sent í svokallaða C14 aldursgreiningu. Drumbinum er haldið rökum svo hann þorni ekki og springi. Það verður svo ákveðið í samráði við sérfræðinga hvernig best sé að forverja hann.

Tekinn með áföstu setlagi

Talin var hætta á að drumburinn losnaði í næsta vatnsveðri. Járnkarli og öðrum stórum verkfærum var beitt til að brjóta setið í kringum drumbinn en Snævarr segir að það hafi verið nauðsynlegt vegna þess hve setlagið var þétt. Drumburinn hafi verið tekinn með setinu utan á og það skafið af við betri aðstæður innanhúss. Hann segir líklegt að drumburinn hafi borist á staðinn miðað við hvernig hann lá í setlaginu.

Rótarhnyðjan sótt með aðstoð sérfræðinga

Rótarhnyðja sem óvænt fannst í leiðangrinum var skilin eftir enda virðist hún vera rótföst í setinu en teknar voru úr henni flísar til greiningar. Hún gæti verið í hættu vegna umferðar ferðamanna sem skoða nálæga íshella og er til skoðunar hjá þjóðgarðinum að setja upp skilti með ósk um að fólk raski henni ekki. Snævarr segir líklegt að rótarhnyðjan verði sótt með aðstoð sérfræðinga í vetur eða næsta vor. „Til þess að leggja mat á hvernig best er að losa um hana. Ég hygg að sá bútur sé í raun og veru meiri sýningargripur heldur en þessi sem við losuðum um. Og það sem er athyglisvert við þann bút eða drumb er að hann virðist vera rótfastur í setlaginu. Með öðrum orðum að hann hafi verið að vaxa þarna,“ segir Snævarr.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV