Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur tillögur ráðherra gagnast fjölmiðlum

Mynd: RÚV / RÚV
Tillögur menntamálaráðherra um stuðning til einkarekinna fjölmiðla er fyrsta skref ríkisins í þá átt að taka fjölmiðlun alvarlega sem atvinnugrein, að dómi Sigmundar Ernis Rúnarssonar, dagskrár- og ritstjóra Hringbrautar, sem fagnar tillögunum. Þær fela meðal annars í sér að dregið verði úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði.

Rætt var við Sigmund í Silfrinu í morgun og sagði hann að þetta væri í fyrsta sinn síðan ljósvakamiðlun var gefin frjáls hér á landi fyrir 33 árum að ráðherra reynir að bæta hag greinarinnar með beinum hætti. Sigmundur segir ljóst að fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði bitni á öðrum miðlum en að sama skapi þurfi að virða rétt auglýsenda, sem það vilja, til að auglýsa á RÚV. 

„Ég vona að þessar tillögur, sem á eftir að útfæra, verði til þess að efla vandaða fjölmiðlun. Þær eiga að styrkja fagið á þeim góðu forsendum sem þar eru til staðar. Það verður þó erfitt að útfæra þær þannig að allir fái eitthvað,“ sagði Sigmundur. Hann benti á að Danska ríkisútvarpið væri ekki með auglýsingar og að það dæmi sýndi að hægt væri að halda úti öflugu ríkissjónvarpi sem selur ekki auglýsingar. 

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, var einnig gestur í Silfrinu í dag. Hann kvaðst vera æ meira á þeirri skoðun að það væri misráðið að hrófla við auglýsingatekjum RÚV. Fjölmiðlanefnd hafi skilað af sér greinargerð á dögunum þar sem lagst var gegn fyrirætlunum sem þessum. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að efla rekstur einkarekinna fjölmiðla. Það er mjög mikilvægt fyrir lýðræðið. Bág staða fjölmiðlunar er ekki vegna þess að ríkisútvarpið er svo stórt. Staða einkarekinna fjölmiðla er bág um allan heim,“ sagði Guðmundur Andri.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir