Telur þingmönnunum ekki sætt á Alþingi

29.11.2018 - 15:14
Mynd:  / 
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að ekki sé hægt að horfa fram hjá ásökunum á hendur Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, flokkssystur sinni á umdeildri upptöku sem tekin var á barnum Klaustur í síðustu viku. „Þarna eru þingmenn, fyrrverandi ráðherra og ég get ekki séð það fyrir mér að þessir menn haldi áfram að starfa hér á Alþingi Íslendinga, þessari elstu og æðstu stofnun landsins,“ segir Oddný.

Á upptökunni er Albertína er sökuð um að vera gerandi í MeToo sögu.
Þingflokksformaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segist vera hálf óglatt að lesa og hlusta á umfjöllun um upptökuna. „Ég held að allur þingheimur sé í hálfgerðu áfalli. Einhvern veginn hélt ég að þó að vinnustaðamenning gæti verið misjöfn og allt það þá hélt ég að þó að fólk hefði það ekki í sér að taka svona um annað fólk. Þetta nýjasta nær þeim hæðum að maður skilur ekki hvað hrærist í kollunum á þessu fólki,“ segir Bjarkey og vísar í ummæli sem féllu um Albertínu.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segist ekki hafa undan að melta þetta. „Mig skortir bara orð. Maður þarf tíma til að melta þetta held ég. Ég veit ekki hvort það er hægt að tala um maður er kominn á byrjunarreit aftur. Okkur skortir verkfæri til að vinna á þessu,“ segir Hanna Katrín.

DV og Stundin hafa undanfarin sólarhring birt samtöl úr upptöku sem tekin var á barnum Klaustur í Reykjavík í síðustu viku þar sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins láta falla niðrandi og alvarleg ummæli um aðra þingmenn, sér í lagi konur.