Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur snúið að breyta reglum um jarðakaup

18.07.2019 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV
Snúið verður að setja skorður á jarðakaup útlendinga, segir Magnús Leópoldsson fasteignasali, en vissulega þurfi utanumhald. Hann segir jarðaverð nú ekki langt frá því sem var fyrir hrun. 

Forsætisráðherra sagði í fréttum í gær að breiður pólitískur vilji væri til að takmarka jarðakaup auðmanna. Hún hefur falið sérfræðingi að gera tillögur um breytingar á lögum, sem hægt væri að leggja fyrir Alþingi í vetur. Í skýrslu starfshóps um eignarhald á bújörðum í fyrrahaust eru meðal annars tillögur um að setja búsetuskilyrði á jarðir, skilyrði um landnýtingu og að takmarka stærð landa í sömu eigu. 

„Það verður örugglega mjög snúið að ná utan um það en eflaust eru til einhverjar leiðir til þess svona að gera þetta erfiðara. Þetta eru miklar skorður þá settar á þessar fasteignir, þetta eru auðvitað bara fasteignir. Menn myndu væntanlega ekki vilja að það yrði sett á fasteignirnar þeirra í Reykjavík eitthvað slíkt,“ segir Magnús Leópoldsson fasteignasali hjá Fasteignamiðstöðinni.

Hann hefur áratugum saman sérhæft sig að hluta að minnsta kosti í jörðum, segir að hlutfall útlendinga sem kaupi jarðir sé mjög lágt. Markmið þeirra séu jafnólík og Íslendinga, sumir sækist eftir náttúrufegurð, ferðaþjónustumöguleikum eða veiðihlunnindum. Jarðaverð hefur helduð hækkað eftir mikla dýfu eftir hrun: 

„Ég gæti trúað því að það sé ekkert langt frá því að vera núna eins og það var fyrir hrun. Það sé svona búið að ná sér aftur.“

Dýrasta jörðin, sem er til sölu hjá honum núna, er á um 300 milljónir en sú ódýrasta á innan við 20 milljónir. 

„Það þarf að hafa eitthvað utanumhald um þetta. Við þurfum auðvitað mest að hugsa um það að halda landinu í byggð.“