Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Telur sig ná markmiði um innköllun

26.03.2012 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd:
„Hér er um að ræða eitt mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þegar hún og Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra kynntu frumvarp að nýjum lögum um stjórn fiskveiða. Steingrímur sagðist telja að aukin gjaldtaka væri fyllilega réttlætanleg.

Jóhanna sagði að í frumvarpinu væri um að ræða kerfisbreytingar og taldi hún að það myndi sæta miklum tíðindum. Í frumvarpinu væri byggt á jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðun. Með frumvarpinu væri verið að opna greinina meira en hingað til hafi verið. „Það sem skiptir máli er að arðurinn rennur í miklu meira mæli til þjóðarinnar með þessum tillögum en verið hefur áður,“ sagði Jóhanna og vísaði til hækkunar veiðigjalds og takmarkana á leiguframsali. Jóhanna sagði að með frumvarpinu væri stjórnin að ná fram markmiðum sínum um innköllun og endurráðstöfun veiðiheimilda. 

Jóhanna sagði að arður af þessum breytingum sem stendur til að gera á stjórn fiskveiða og gjaldtöku myndi að einhverju leyti renna til atvinnuuppbyggingar, til samgöngumála á næsta ári og til eflingar rannsókna- og tækniþróunarsjóðs. Jóhanna sagðist einnig vona að deilum um stjórn fiskveiða myndi ljúka með þessu frumvarpi.

 

Sameign þjóðarinnar tryggð

Rámur sjávarútvegsráðherra, sem sagðist í upphafi kynningar sinnar vona að fólk heyrði í sér þrátt fyrir að hann hefði valið þennan dag til að missa röddina, sagði að reynt væri að ganga frá því í eitt skipti fyrir öll að auðlindin væri sameign þjóðarinnar og ríkið ráðstafaði henni.

Steingrímur sagði að valin hefði verið leið nýtingarleyfa. Núverandi handhafar fái færi á að ganga inn í það fyrirkomulag. Nýtingarleyfi koma inn í frumvarpi í stað hugmyndar um nýtingarsamninga. Steingrímur sagði á blaðamannafundinum þar sem frumvarpið var kynnt að það væri gert vegna þess að almennt veiti ríkið réttindi eins og veiðiheimildir með leyfum. Hann sagði að eftir sem áður fæli þetta í sér samkomulag ríkis og nýtenda.

 

Veiðigjald næmt fyrir sveiflum

Steingrímur sagði að valin hefði verið sú leið að hafa tvískipt veiðigjald, annars vegar grunngjald sem allir greiddu og hins vegar tekjutengt gjald. Þannig væri byggt á að fanga auðlindarentuna sem hefði verið mjög góð í sjávarútvegi undanfarið. „Gjaldið er mjög næmt fyrir afkomu greinarinnar, fylgir henni upp og niður,“ sagði Steingrímur. Þannig gæti veiðigjaldið skilað ríkissjóði miklum viðbótartekjum í góðu árferði en því sem næst engum ef illa áraði í sjávarútvegi. Steingrímur sagði að með hliðsjón af lægri tekjusköttum ríkissjóðs af útgerðinni samhliða því að auðlindagjaldið hækkaði mætti gera ráð fyrir ellefu til þrettán milljarða tekjuaukningu á ári

Steingrímur sagði að ef horft væri yfir sjávarútveginn í heild og afkomu hans í gegnum árin væri gjaldtakan fyllilega réttlætanleg, ef menn telja að hluti arðsins af auðlindinni ætti að renna til þjóðarinnar. Steingrímur sagði eðlilegt að fólk spyrði sig hvort þjóðin ætti ekki rétt á að njóta góðs af rentunni þegar vel áraði en væri þá á móti að greiðslurnar lækkuðu mjög í slæmu árferði. Grunngjaldið skilar fjórum milljörðum í ríkissjóð á ári samkvæmt frumvarpinu og sagðist Steingrímur vona allar útgerðir gætu greitt það gjald.

Steingrímur sagði að í frumvarpinu væri vald að nokkru leyti flutt frá ráðherra til þingsins. „Þegar kvótasetja á nýja tegund í framtíðinni leggur ráðherra fram frumvarp um það á Alþingi, hann ákveður það ekki sjálfur.“ Eins sagði Steingrímur að dregið væri úr valdi sjávarútvegsráðherra til útgáfu reglugerða.

 

Lögðu áherslu á sátt

Aðspurð hvort þingmenn hefðu gert fyrirvara við stuðning sinn við frumvarpið lögðu Steingrímur og Jóhanna áherslu á að sátt hefði verið um málið í þingflokkum sínum. Jóhanna sagði að þingmenn Samfylkingar hefðu ekki komið með almenna fyrirvara, ef eitthvað væri um slíkt sneri það að einstökum greinum. Steingrímur sagði að þingmönnum hefði ekki gefist mikill tími til að skoða fylgiskjöl frumvarpsins.