Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Telur sig ekki ómissandi

04.03.2012 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti forseta, fimmta kjörtímabilið í röð. Nái hann kjöri, hættir hann hins vegar hugsanlega áður en næsta kjörtímabil rennur út.

Ólafur tilkynnti um ákvörðun sína í orðsendingu til fjölmiðla skömmu eftir hádegið í dag - hann segist hafa gefið skýra yfirlýsingu í áramótaávarpinu um að hann ætlaði að hætta en um síðustu helgi kom fram að hann myndi endurskoða þá ákvörðun.

Hann segist hafa fundið fyrir talsverðum þrýstingi til að gefa aftur kost á sér, vegna óvissu um stjórnskipan landsins og embætti forsetans.

„Og eftir þónokkra umhugsun, þá var það niðurstaða mín að verða við þessum óskum. Þó með þeim fyrirvara að þegar vonandi allt verður orðið stöðugra og kyrrð hefur færst yfir, bæði hvað varðar stjórnskipun og stöðu mála í landinu, hafi menn á því skilning að ég muni ekki sitja út allt næsta kjörtímabil og forsetakosningar færu þá fram fyrr en ella.“

Sem myndi þýða að næsti forseti yrði kjörinn til skemmri tíma, eða til 2016. Það væri í fyrsta sinn sem það gerðist í sögu lýðveldisins - reyndar hefur ákvörðun á borð við þá sem Ólafur Ragnar tilkynnti í dag aldrei áður verið tekin af sitjandi forseta.

Ein ástæða þess að hann ákveður að bjóða sig aftur fram, er það sem hann segir vera átökin um fullveldi Íslands. Þar á hann við umræðuna um aðild að Evrópusambandinu.

„Ég tel að forsetinn geti ekki setið hjá þegar kemur að því að taka ákvörðun um framtíðarskipan fullveldis Íslands, því hann er æðsti kjörni fulltrúinn sem það fullveldi hefur leitt fram á völlinn.“

Ólafur áréttar í yfirlýsingu sinni mikilvægi þess að standa vörð um málstað þjóðarinnar á alþjóðavettvangi - en segir sjálfur að hann sé ekki ómissandi.

„Ef stór hluti þjóðarinnar finnur aðra leið, fram á veginn, þá tel ég að það væri bara gott. Ég tel mig á engan hátt ómissandi, þvert á móti, og myndi glaður þá ganga af velli, þakklátur fyrir það traust sem þjóðin hefur sýnt mér á langri vegferð.“

Aths. ritstj.: ranghermt er að næsti forseti yrði kjörinn til skemmri tíma, eða til 2016. Láti forseti af embætti áður en kjörtímabili hans lýkur, er boðað til kosninga til næsta fjögurra ára kjörtímabils.