Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur sig ekki mega starfa með Villiköttum

15.02.2019 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: facebook.com/villikettir
Átak til að fækka villiköttum á Fljótsdalshéraði hefur vakið hörð viðbrögð hjá félaginu Villiköttum á Austurlandi. Sveitarfélagið hafnaði samstarfi við félagið sem vill finna heimili fyrir kettina.

Villikettir á Austurlandi notast við aðferð sem þeir kalla fanga, gelda, sleppa til að sporna við offjölgun villikatta án þess að aflífa þá. Fram kemur á Facebook-síðu samtakanna að kettirnir séu teknir úr sambandi svo þeir fjölgi sér ekki. Þeir séu ormahreinsaðir, bólusettir og reynt er að mannvenja þá og finna þeim heimili. Takist það ekki sé þeim sleppt aftur en gefið og séð til þess að þeir geti komist í skjól og séu við góða heilsu.

Villikettir hafa samið við sex sveitarfélög um aðstoð við villta ketti, en Fljótsdalshérað hafnaði samstarfi við Villiketti á Austurlandi. Þess í stað ætlar sveitarfélagið að leggja út gildrur. 18. febrúar til 8. mars á að halda heimilisköttum inn á nóttunni og þeir villikettir sem nást í gildrurnar verða deyddir með svæfingu. Félagið Villikettir vildi fá að taka við þessum köttum en því var hafnað.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að sveitarfélagið fari að lögum. Eftir samráð við Heilbrigðiseftirlit og Matvælastofnun sé ljóst að því sé ekki heimilt að stofna til samstarfs við Villiketti á þeim forsendum sem rætt hafi verið um. Í bréfi frá fulltrúa Matvælastofnunar segir að villikettir flokkist sem hálfvillt dýr og beri að koma til nýs eiganda eða aflífa. Ekki sé heimilt að sleppa dýrum sem alist hafa upp hjá mönnum út í náttúruna. Félagið Villikettir geti ekki tryggt þeim þá velferð sem krafist er í reglugerð um gæludýr. Þá er eyrnamerkingaaðferð sem Villikettir lögðu til sögð ólögleg.

Villikettir á Austurlandi segja að á því ári sem samtökin hafa starfað hafi 54 kettir fengið aðstoð og flestir fundið heimili. Aðeins hafi þurft að sleppa sex köttum aftur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV