Sigmundur Davíð fór yfir helst áherslur Miðflokksins í þættinum Forystusætinu. Hann fagnaði því að margir flokkar töluðu um að minnka eigið fé bankanna, en ekki væri sama hvernig það yrði gert. Hann nefndi ekki nákvæma upphæð sem hann vildi taka út úr bönkunum, forgangsraða þyrfti verkefnum og það færi eftir þeim hvernig þetta yrði gert. Hann sæi þó ekki fyrir sér að öll upphæðin yrði tekin út á einu og sama árinu.
Hann sagði að Arion banki væri aðeins einn liður í umfangsmiklum breytingum á fjármálakerfinu. Aðspurður hvers vegna hann teldi ríkið geta fengið bankann til sín á undirverði, sagði hann að það væri vegna snjallra fyrirvara sem settir voru í stöðugleikasamkomulagið. Nú kæmi það í bakið á vogunarsjóðum að hafa ætlað að selja sjálfum sér bankann á undirverði, þess vegna gæti ríkið stigið inn nú. Hann sagði þó að tíminn til að gera það væri að renna út.
Eitt af því sem Miðflokkurinn vill gera er að afhenda þjóðinni einn þriðja af Arion banka í formi hlutabréfa. Hann segir að verðmæti hvers hlutar gæti verið á bilinu 150-200 þúsund, en hann hafi ekki viljað nefna einhverja ákveðna tölu til að fólk væri ekki að gera væntingar um ákveðna upphæð. Þetta loforð sé aðeins einn þáttur í viðamikilli stefnu um endurskipulagningu fjármálakerfisins og hafi ekki endilega verið hugsað sem það sem vekja ætti mesta athygli.