Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur ríkið enn geta náð til sín Arion banka

Mynd: RÚV / RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að enn sé hægt að virkja forkaupsrétt ríkisins á Arion banka, þrátt fyrir að búið sé að selja 29% hlut til erlendra aðila. Þetta sé eitt af fjölmörgum skrefum sem þurfi að stíga til að endurskipuleggja fjármálakerfið.

Sigmundur Davíð fór yfir helst áherslur Miðflokksins í þættinum Forystusætinu. Hann fagnaði því að margir flokkar töluðu um að minnka eigið fé bankanna, en ekki væri sama hvernig það yrði gert. Hann nefndi ekki nákvæma upphæð sem hann vildi taka út úr bönkunum, forgangsraða þyrfti verkefnum og það færi eftir þeim hvernig þetta yrði gert. Hann sæi þó ekki fyrir sér að öll upphæðin yrði tekin út á einu og sama árinu.

Hann sagði að Arion banki væri aðeins einn liður í umfangsmiklum breytingum á fjármálakerfinu. Aðspurður hvers vegna hann teldi ríkið geta fengið bankann til sín á undirverði, sagði hann að það væri vegna snjallra fyrirvara sem settir voru í stöðugleikasamkomulagið. Nú kæmi það í bakið á vogunarsjóðum að hafa ætlað að selja sjálfum sér bankann á undirverði, þess vegna gæti ríkið stigið inn nú. Hann sagði þó að tíminn til að gera það væri að renna út.

Eitt af því sem Miðflokkurinn vill gera er að afhenda þjóðinni einn þriðja af Arion banka í formi hlutabréfa. Hann segir að verðmæti hvers hlutar gæti verið á bilinu 150-200 þúsund, en hann hafi ekki viljað nefna einhverja ákveðna tölu til að fólk væri ekki að gera væntingar um ákveðna upphæð. Þetta loforð sé aðeins einn þáttur í viðamikilli stefnu um endurskipulagningu fjármálakerfisins og hafi ekki endilega verið hugsað sem það sem vekja ætti mesta athygli.

Mynd: RÚV / RÚV
Þátturinn í heild sinni.

Hugmynd Miðflokksins um Ísland allt felur í sér sóknaráætlun í byggðamálum sem Sigmundur segir hafa setið á hakanum. Þessari áætlun eigi að stýra frá forsætisráðuneytinu og segir hann að sumir gætu litið svo á að hér sé um miðstýringu að ræða. Hún sé þó nauðsynleg sökum þess hversu flókið og mikilvægt verkefnið sé. Sjálfur sé hann reiðubúinn til að taka þetta að sér, en ábyrgðin sé mikil og sá sem standi ekki undir henni þurfi að svara fyrir það í kosningum.

Sigmundur var einnig spurður út í ummæli sín um málsókn gegn þremur íslenskum fjölmiðlum sem hann boðaði í byrjun október. Hann sagði að nokkrir miðlar hefðu birt fyrirsagnir sem væru rangar og að hann vildi gefa þeim tækifæri til að leiðrétta þær. Vonandi yrði það niðurstaðan enda besta leiðin til að ljúka málinu. Hann sagði hins vegar hvorki hvaða fyrirsagnir þetta væru né í hvaða miðlum. Varðandi lögbann á fréttir Stundarinnar og Reykjavík Media sagði hann að málið væri óheppilegt og að það hefði truflað kosningabaráttuna.

„Meginatriðið er þetta. Fjölmiðlar verða að hafa sem allra mesta möguleika á því að nálgast upplýsingar og miðla þeim áfram, en þeir þurfa líka að segja satt.“

baldvinb's picture
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárstjóri