Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur ráðherra raska vegaáætlun án heimildar

05.03.2017 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi fjármálaráðherra, telur að samgönguráðherra hafi ekki heimild til að raska röð framkvæmda í samgönguáætlun.

Fjölmörgum framkvæmdum í vegakerfinu hefur verið slegið á frest vegna tíu milljarða króna niðurskurðar á samgönguáætlun. Innanríkisráðuneytið hefur ásamt Vegagerðinni unnið að forgangsröðun verkefna. Meðal þess sem er slegið á frest eru framkvæmdir á veginum um Berufjarðarbotn í nágrenni Djúpavogs, á Dettifossvegi, og á Uxahryggjavegi milli Þingvalla og Húsafells.

„Maður er auðvitað algjörlega rasandi yfir þessu, og sérstaklega þegar það kom nú fram að framkvæmdir í Berufjarðarbotni séu strikaðar út, þegar loksins var nú allt til staðar til að ráðast í þá langþráðu framkvæmd sem beðið hefur og beðið.“

Steingrímur segir að þingmenn kjördæmisins hafi alls enga aðkomu átt að þessu máli. Eðlilegt hefði verið að upplýsa þingmenn að minnsta kosti, svo þeir þyrftu ekki að heyra um þetta í fréttum.

„Ég skil ekkert í því hvernig ráðherrann telur sig geta tekið sér það vald að strika stórar nýframkvæmdir út, en láta svo aðrar halda óskertum fjárveitingum. Ég tel að hann hafi ekki heimild til að raska þannig innbyrðis framkvæmdaröð verkefna í samgönguáætlun.“

Steingrímur segir að það eina sem ráðherra gæti gert væri að minnka fé hlutfallslega jafnmikið til allra framkvæmda. Eðlilegast væri þó að ráðherra legði nýja samgönguáætlun fyrir Alþingi.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV