Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Telur lög um staðgöngumæðrun ótímabær

11.11.2015 - 09:02
Birgir Jakobsson landlæknir.
 Mynd: RÚV
Birgir Jakobsson, landlæknir, telur að verði frumvarp heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun að lögum muni það auka kostnað og flækjustig heilbrigðisþjónustunnar. Ekkert hinna Norðurlandanna hafi leyft staðgöngumæðrun sem endurspegli þau flóknu læknisfræði-, siðfræði-, og samfélagslegu álitaefni sem við sé að glíma.

Þetta kemur fram í umsögn landæknis við frumvarpið. Verði það samþykkt á Alþingi getur sambúðarfólk fengið leyfi til staðgöngumæðrunar en óheimilt verður að greiða sérstaklega fyrir það.

Í umsögn Birgis segir að íslensk heilbrigðisþjónusta eigi við margvíslegar áskoranir að etja. Það sé mat embættisins að þetta frumvarp sé ekki rétt forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu í dag.

Birgir vísar enn fremur til svara embættisins við spurningum velferðarráðuneytisins frá árinu 2013. „Embættið komst þá að þeirri niðurstöðu að innleiðing á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni væri ekki tímabær. Að mati landlæknis er þessi afstaða óbreytt í dag.“

Áður höfðu bæði Samtökin '78 og Barnaverndarstofa gert athugasemdir við frumvarpið. Samtökin '78 telja að frumvarpið mismuni á óbeinan hátt hinsegin fólki og Barnaverndarstofa spurði hvort það væri yfirhöfuð hægt að „setja skynsamlega löggjöf um staðgöngumæðrun.“