Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur litlu breyta að fjölga kennslustundum í íslensku

04.12.2019 - 09:25
Mynd: RÚV / RÚV
Árangur íslenskra nemenda í PISA-könnun kallar á víðtækar aðgerðir til að efla læsi, bæta orðaforða og málskilning segir menntamálaráðherra og það verkefni verði að nálgast í samvinnu við skólasamfélagið, sveitarfélög og heimili í landinu.

Niðurstöður PISA-könnunar sem lögð var fyrir í fyrra og kynntar á þriðjudag sýna að lesskilningi barna sem eru við það að ljúka grunnskóla hefur hrakað frá því sem var árið 2009 en litlu munar miðað við síðustu kannanir. Þeim sem ekki ná grunnviðmiðum hefur fjölgað, sérstaklega hjá drengjum, í þeirra hópi eru 19% stúlkna og 34% drengja. Íslenskum nemendur gekk almennt verr en jafnöldrum þeirra annars staðar á Norðurlöndum í lesskilningi. Íslensku nemendurnir hafa bætt sig í stærðfræði frá því sem var árið 2015 og eru yfir meðaltali OECD landa en undir því sem var 2003. Þeir eru undir meðaltali þeirra í skilningi á náttúruvísindum. Staða Íslands í hópi Norðurlandanna hefur dalað frá því um áramót þegar Íslendingar tóku fyrst þátt. 

Íslensk börn ekki agalausari en íslenskt samfélag

Þessar niðurstöður gáfu Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra tilefni til að brýna menn til dáða og kynna  aðgerðir sem grípa á til að efla læsi og bæta orðaforða. Aukin þjálfun kennara og fjölbreyttari kennsluaðferðir voru þar nefndar en líka  að fjölga kennslustundum í íslensku verulega, endurskoða íslenskukennslu og að auka væntingar til nemenda. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra nefndi sérstaklega að miklu oftar þyrftu kennarar hér að bíða eftir því að kæmist á ró í skólastofunni og yrðu fyrir truflunum frá nemendum en annars staðar. Þau Sigrún Edda Eðvarðsdóttir formaður Heimilis og skóla og Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands ræddu um niðurstöðurnar í Speglinum.  

Gagnast lítt að fjölga kennslustundum ef inntaki er ekki breytt

Sigrún Edda sagði að niðurstöðurnar væru Heimili og skóla líkt og mörgum öðrum vonbrigði og nauðsynlegt væri að bregðast við. Ragnar Þór sagði að þvörsögnin í þessu væri að hér hefði verið stanslaust lestrarátak í gangi og menn hefðu reyndar verið að um árabil án þess að miðaði. Ógnvænlegast væri ef málumhverfi íslenskra barna hnignaði eða þau að slitna úr tengslum við það. Ef sú væri ástæða þyrfti að bregðast öðru vísi við og víðar en í skólum.  Um agaleysi í skólum segir Ragnar að íslensk börn séu ekkert agalausari en íslenskt samfélag almennt. Ef ekki á lengja skóladaginn verður flókið að fjölga kennslustundum í íslensku og ákveða hverjum skulu fækka á móti segir Ragnar. 

Af öllum aðgerðum ráðherrans, sem bregst við þessum tíðindum af mikilli yfirvegun og vel sýnist mér, þá er þetta það sem ég hef mestar áhyggjur af. Það er ekki nóg að  fjölga íslenskutímum ef  við breytum engu sem við erum að gera. Við reyndum þetta síðast við ákváðum að við skyldum bæta læsi með því að setja hraðlestrarpróf og drilla börnin meira og meira og meira. Það skilaði engum árangri, ekki nokkrum sköpuðum. Það sem kannski liggur enn þá meira á er að endurskoða inntakið.