Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur launamun vera að festa sig í sessi

23.01.2018 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Á síðasta ári fjölgaði erlendum ríkisborgurum hér á landi um 25%. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Vinnumálastofnun áætlar að þeir séu nú um 38000 og að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum. Framkvæmdastjóri Samiðnar óttast að launamunur milli erlendra og innlendra starfsmanna sé að festa sig í sessi. 

 

Jafngildir íbúafjölda Selfoss

Rúmlega einn af hverjum tíu íbúum landsins er erlendur ríkisborgari. Vinnumálastofnun telur að í fyrra hafi um 11 þúsund erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en um 3500 - 4000 frá því. Aðfluttir umfram brottflutta voru því yfir 7000 eða álíka margir og búa á Selfossi. Pólverjar eru lang fjölmennastir í hópi þeirra sem hingað flytjast, voru 46% erlendra ríkisborgara 1. janúar 2017. Næst koma Litháar, 8% og Þjóðverjar, 4%. Stærstur hluti þessa hóps, um 24000 manns, er á vinnumarkaði og hlutfall erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði er hærra en hlutfall þeirra í samfélaginu almennt, á milli 12-13%. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna. Að jafnaði hafa um 2500 manns verið hér á landi á vegum starfsmannaleigna og þjónustufyrirtækja síðastliðna mánuði. Hluti þessara starsfmanna dvelur hér í það skamman tíma að hann kemur ekki fram í þeim opinberu tölum sem spá um fjölda útlendinga á vinnumarkaði byggir á. Vinnumálastofnun telur því að í heild séu erlendir starfsmenn á vinnumarkaði um 25000, eða þúsund fleiri en opinberar tölur gefa til kynna.

Lítið vitað

Tiltölulega lítið er vitað um þetta fólk. Það liggur þó fyrir að stór hluti þeirra sem komið hafa hingað síðustu ár hefur starfað í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Margir starfa í öðrum iðngreinum eða við ræstingar, umönnun og gæslu. Það er þensluskeið og síðastliðin ár hafa orðið til þúsundir starfa, 6000 árið 2016 og 3500 í fyrra, og það er fyrst og fremst erlent starfsfólk sem svarað hefur aukinni þörf atvinnulífsins fyrir vinnuafl. 

Fyrirtækin vandi sig meira

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, sambands iðnfélaga, segir fáa erlenda starfsmenn leita til félagsins. Sambandið hefur unnið að því að fræða starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja í mannvirkjagerð en málum sem rata inn á borð til þess hefur ekki fjölgað í samræmi við fjölgun starfsmanna. En telur Þorbjörn að atvinnurekendur virði réttindi starfsmanna? „Bæði já og nei, mér sýnist stærri fyrirtækin vera að reyna að vanda sig og passa sig nokkuð vel. Það er kannski eitthvað verra hjá minni fyrirtækjunum. Þessi sem vilja vera í alvöru rekstri, það er mín tilfinning að þau séu að vanda sig meira núna en þau gerðu fyrst.“ 

Launamunur milli Íslendinga og útlendinga festist í sessi

Hann óttast þó að launamunur sé að festa sig í sessi. „Íslendingur í föstu starfi getur verið með 50% hærri laun en kauptaxtarnir, jafnvel meira en við sjáum að erlenda starfsfólkið liggur oft mjög nálægt þessum umsömdu kauptöxtum.“ 

Þetta sé þó ekki alltaf einfalt, stundum séu erlendir starfsmenn dýrari en íslenskir því fyrirtækin taki þátt í ferða- og húsnæðiskostnaði. Það þurfi að skoða hvert tilfelli fyrir sig.

80 þúsund krónur fyrir bedda 

Það er húsnæðisskortur á Íslandi og það hlýtur að vera erfitt fyrir þá 11 þúsund útlendinga sem komu hingað  í fyrra að finna þak yfir höfuðið. Þorbjörn segir mörg fyrirtæki aðstoða starfsmenn við þetta en það hafi færst í aukana að þau leiti til starfsmannaleigna í stað þess að ráða beint vegna þess hversu erfitt þeim hefur reynst að útvega starfsmönnum húsnæði. „Sum fyrirtækií mannvirkjageiranum standa mjög vel að þessu og láta starfsmenn borga hóflega leigu. Svo sjáum við önnur, og það er svolítið sammerkt þessu að þeir sem greiða lélegustu launin eru líka að borga hæstu leiguna. Við höfum séð alveg upp í það að menn séu að greiða 60 til 80 þúsund fyrir að liggja á einhverjum bedda í tveggja manna herbergi.“ 

Það megi spyrja sig hvers eðlis slík starfsemi sé, þegar há leiga og gjald fyrir bifreið er dregið frá lágmarkslaunum verði lítið eftir í vasa starfsmannsins. 

Hugsi yfir framtíð mannvirkjagerðar

Þorbjörn veltir fyrir sér framtíð mannvirkjagerðar á Íslandi, sum fyrirtæki ráði einungis erlenda starfsmenn og það sé ekki hægt að taka Íslendinga í starfsþjálfun þar sem einungis séu Pólverjar fyrir. Þá bendir hann á að oft fái erlendir starfsmenn menntun sína ekki metna til launa, séu skráðir ófaglærðir. Á pappír virðist til dæmis sem afar fáir faglærðir starfsmenn hafi komið að stækkun Búrfellsvirkjunar. „Kannski ganga fyrirtæki ekki nægilega eftir því að fólk leggi fram viðurkenningu á sínum starfsréttindum og starfsmenn eru kannski ekki meðvitaðir um að það kunni að vera launamunur eftir því hvort þú ert ófaglærður eða með réttindi. Við erum að reyna að upplýsa menn um það.“ 

Í nýlegum pistli sem Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, skrifaði í Fréttablaðið segir áleitnar spurningar hafa vaknað í vinnustaðaheimsóknum Samiðnar. Svo virðist sem erlent starfsfólk sé í langflestum tilvikum skráð sem ófaglært og njóti launakjara í samræmi við það. „Ef þessarskráningar eru réttar er ljóst að heilu stórhýsin eru reist hér á landi um þessar mundir án þess að faglærðir iðnaðarmenn komi að því verki, nema í eftirlitshlutverki. Það er að sjálfsögðu óviðunandi. Annað hvort er skráningin röng – og um faglært fólk er að ræða sem nýtur þá ekki kjara í samræmi við menntun sína – eða hús eru einfaldlega reist á Íslandi af ófaglærðu fólki. Hvort sem er raunin, þá er ljóst að þetta er mikið áhyggjuefni,“ sagði í pistlinum. 

Kynjaskipting svipuð og fyrir hrun

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hvernig erlendir starfsmenn skiptast niður á atvinnugreinar eða hve hátt hlutfall útlendingar eru af heildarfjölda starfandi innan hverrar atvinnugreinar. Þá er lítið vitað um menntun erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði. Í skýrslu Vinnumálastofnunar segir þó að mikið sé um að útlendingar vinni störf sem ekki séu í samræmi við hæfni þeirra og menntun. 

Karlar koma hér í mun meiri mæli en konur. Kynjahlutföllin eru svipuð og á síðasta þensluskeiði þrátt fyrir að vöxtur síðustu ára hafi að mestu leyti byggst á ferðaþjónustu þar sem karlar og konur starfa nokkuð jöfnum höndum. Í skýrslu Vinnumálastofnunar segir að gera hefði mátt ráð fyrir að kynjadreifing innflytjenda væri jafnari nú en á síðasta þensluskeiði sem byggði í mun meiri mæli á vexti byggingariðnaðar og fjármálaþjónustu. Þessi ójafna kynjadreifing skýrist að hluta til af því af því að byggingariðnaður, þar sem karlar eru í miklum meirihluta,  hefur farið vaxandi síðustu misseri en í skýrslunni segir að trúlega sé stærsta skýringin sú að karlar séu hreyfanlegra vinnuafl en konur. Í fyrra voru karlar 81% þeirra sem fengu atvinnuleyfi á grundvelli skorts á vinnuafli, en fólk sem kemur frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins þarf atvinnuleyfi til að mega vinna hér á landi. 

Áfram eftirspurn næstu ár

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að áfram verði eftirspurn eftir erlendu starfsfólki næstu tvö árin en fjölgun starfa verði hægari, um 2500 ný störf verði til í ár og um 2000 á næsta ári. Líklega eigi erlendum ríkisborgurum því eftir að fjölga áfram og körlum í meira mæli en konum. Eftir því sem dregur úr þenslunni er þó gert ráð fyrir því að eftirspurn eftir vinnuafli minnki og það hægist á búferlaflutningum útlendinga hingað til lands. Ný könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sýnir að skortur á starfsfólki fer almennt minnkandi þó hann sé enn töluverður í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV